Hraðferð í ESB-aðlögun var sennilega alltaf planið

Í apríl 2015 var sagt frá því í fjölmiðlum að Árni Páll Árnason, þá formaður Samfylkingarinnar, hefði leitað liðsinnis systurflokka Samfylkingarinnar um að ESB hundsaði vilja stjórnvalda á Íslandi.

Nánar tiltekið sagði hann: „Ég vil biðja ykkur um að þrýsta á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að líta áfram á Ísland sem umsóknarríki að sambandinu.“ Þetta var haft eftir Árna Páli, á Twitter-síðu (nú X) þingflokks Jafnaðarmanna og demókrata á Evrópuþinginu.

Árni Páll hélt áfram og sagði efnislega að lagalega séð væru dyrnar inn í Evrópusambandið ekki lokaðar Íslendingum, þrátt fyrir afstöðu og aðgerðir ríkisstjórnarinnar og klykkti svo út með því að segja: „Um leið og við sigrum þingkosningarnar hefjum við inngönguferlið …“

Það má því ljóst vera að fyrirsvarsmenn Samfylkingarinnar hafa í hartnær áratug beðið færis að taka upp þráðinn þar sem Jóhanna, Steingrímur og Össur steyttu á skeri forðum.

Nú er Árni Páll upptekinn í öðru, meðal annars því að troða bókun 35 ofan í kok okkar Íslendinga.

Málflutning forsætisráðherra, Kristrúnar Frostadóttur, í aðdraganda kosninga til Alþingis þarf að skoða í þessu samhengi.

Nú blasir nú við að þrátt fyrir að hún, sem formaður Samfylkingarinnar, hafi í aðdraganda kosninga talað á þann veg að aðlögunarviðræður við ESB yrðu ekki á dagskrá kæmist hún til valda, þá var planið annað.

Margir töldu sig vera að kjósa Samfylkinguna til að framfylgja stefnu þess efnis að kæmist flokkurinn til valda væri fyrsta mál á dagskrá að ráðast til atlögu við vexti og verðbólgu, það skip virðist siglt og gúmmísleggjan nú ein að vopni í þeim slag.

Ýmsir halda því nú fram að leiðin sem farin var við að draga umsókn Íslands um aðild að ESB til baka hafi ekki verið tæk, þar sem ekki var um ályktun Alþingis að ræða. Þeir hinir sömu virðast hafa gleymt hvernig það kom til.

Utanríkisráðherra lagði nefnilega fram þingsályktunartillögu þess efnis að draga til baka umsókn Íslands um aðild að ESB. Hún bara náði ekki fram að ganga vegna hótana um málþóf allra málþófa, eftir að stjórnarandstöðuflokkar þess tíma höfðu rætt um málið í 25 klukkustundir, á 5 þingfundum, við fyrstu umræðu, vorið 2014. Veiðigjaldið var rætt á 4 þingfundum við fyrstu umræðu og það var kallað „Íslandsmet“.

Í þessu samhengi er áhugavert að skoða skörun þeirra sem þessu halda fram og þeirra sem nýlega fögnuðu beitingu 71.greinar þingskapalaga, þegar umræða um tæknilega fráleita breytingu á útfærslu veiðigjalda var stöðvuð. Meira um það síðar.

Að endingu minni ég á orð stækkunarstjóra ESB frá þeim tíma er Össur steytti á skerinu forðum: there are no permanent derogations from the EU – acquis = það eru engar varanlegar undanþágur frá regluverki Evrópusambandsins.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst