Glæsileg opnun á kosningamiðstöð Miðflokksins á Selfossi
Laugardaginn 23. nóvember opnaði Miðflokkurinn formlega kosningamiðstöð sína á Selfossi. Viðburðurinn var ótrúlega vel sóttur og þurftu gestir að raða sér upp á stigaganginum til þess að geta hlustað á ræður frambjóðenda. Stemningin var vinaleg og jákvæð, og boðið var upp á kaffi og ljúffengar veitingar. Gestir nýttu einnig tækifærið til að fá Miðflokksnælur, Miðflokkshúfur og sýna stuðning sinn við flokkinn.
Frambjóðendur Miðflokksins í Suðurkjördæmi mættu á opnunina og tóku hlýlega á móti gestum. Karl Gauti Hjaltason, oddviti í Suður, var á staðnum ásamt Heiðbrá Ólafsdóttur í 2. sæti, Ólafi Ísleifssyni í 3. sæti, Kristófer Mána Sigursveinssyni í 4. sæti og G. Svönu Sigurjónsdóttur í 5. sæti. Þau ræddu stefnu flokksins og mikilvægi þess að finna lausnir á þeim áskorunum sem íbúar á Suðurlandi standa frammi fyrir:
- Hælisleitendur og landamæri: Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri og oddviti í Suður, lagði áherslu á mikilvægi þess að koma á alvöru landamæraeftirliti, líkt og er farið að tíðkast í öðrum löndum innan Schengen. Hann undirstrikaði að ná stjórn á landamærum væri nauðsynlegt til að tryggja öryggi og skipulag.
- Landbúnaðar- og matvælaöryggi: Heiðbrá Ólafsdóttir ræddi mikilvægi þess að tryggja framtíð landbúnaðar á Íslandi. Hún lagði áherslu á að auðvelda ungu fólki að gerast bændur og tryggja að kostnaður við slíkt verði ekki hindrun. Hún benti á nauðsyn þess að koma í veg fyrir að býli leggist í eyði, þar sem landbúnaður sé lykilatriði fyrir áframhaldandi matvælaöryggi þjóðarinnar.
- Fjármál og útfjöld: Ólafur Ísleifsson ræddi um mikilvægi þess að stöðva „leka í krönum“ ríkisfjármála. Hann benti á að fjármunir tapist bæði í formi ófullnægjandi landamæraeftirlits og ómarkvissrar útgjaldaáætlunar. Að hans sögn sé lykillinn að betri ríkisrekstri að auka ábyrgð og aðhald í fjármálum ríkisins.
Kosningamiðstöðin á Selfossi verður opin frá 16:00 – 19:00 fram að kosningum 30. nóvember. Allir eru velkomnir til að kíkja við, fá sér kaffi, ræða málefni sem skipta máli og fá miðflokksnælu eða annan varning. Þetta verður vettvangur fyrir opið samtal við íbúa og frambjóðendur á leiðinni að kjördegi.
Gestir sammæltust um að opnunin hafi verið sterkur og mikilvægur liður á kosningabaráttunni á Suðurlandi og sýndi vel einingu og metnað Miðflokksins fyrir kjördæmið.