Forsætisráðherra faðmar broddgölt

Viðskiptablaðið vakti nýlega athygli á viðtali við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í Financial Times. Eins og Viðskiptablaðið orðar það í endursögn, þá sé það ekki óttinn við járnaglamur Donalds Trumps sem reki Ísland í faðm Evrópusambandsins, heldur fyrst og fremst hlýr efnahagslegur faðmur. „For positive economic reasons“, eins og þar stendur á frummálinu.

En er það virkilega svo? Er efnahagslegur faðmur Evrópusambandsins hlýr í einhverju samhengi? Samanburður landa Evrópusambandsins við Bandaríkin dregur fram mynd sem engum ætti að vera rótt yfir.

Efnahagsþróun undanfarinna áratuga hvað varðar vöxt, nýsköpun og aðra þætti sem mestu skipta til að viðhalda öflugu samfélagi og sterkum innviðum er öll í þá veru að Bandaríkin standa mörgum skrefum framar en Evrópa.

Í öllu tilliti nema einu; Evrópusambandið er að gjörsigra keppnina í reglusetningu og íþyngjandi kvöðum á atvinnulíf og heimili. Það vita auðvitað allir að það er vísasti vegurinn til að draga úr hagsæld og verðmætasköpun. En áfram arka menn samt.

Mörgum, þar á meðal mér, þótti áhugavert en um leið skynsamlegt hjá forsætisráðherra að tala sem minnst um Evrópumálin í aðdraganda kosninga. Það má meira að segja halda því fram að málefnið hafi verið falið í aðdraganda kosninga. En svo þegar tækifæri gafst til réðu flokkarnir ekki við sig, hvorki Samfylkingin né Viðreisn. Nú skal sæta lagi með hlutlausan Flokk fólksins. Það er meira að segja farið að tala um að flýta þjóðaratkvæðagreiðslunni. Sennilega með það í huga að ekki sé víst að garmurinn skrölti til 2027. En hvað er það í raun sem sótt er í?

Einn af helstu áhugamönnum um inngöngu í ESB á fyrri stigum hefur nú lýst vegferðinni þannig að það sé eins og að hlaupa inn í brennandi hús að áforma inngöngu nú um stundir. Þeir sem telja evruna sérstaklega stöðugan gjaldmiðil hafa ekki borið saman marga gjaldmiðla í rannsóknum sínum. Atvinnuleysi er langt umfram það sem við gætum sætt okkur við hér á landi hjá mörgum af lykilþjóðum sambandsins. Og þannig mætti áfram telja. Hvaða hlýja faðm er þangað að sækja? Og hvað þá í efnahagsmálum?!

Þegar öllu er á botninn hvolft er líklegt að hlýi faðmurinn, sem forsætisráðherra telur bíða okkar Íslendinga í efnahagslegu tilliti, verði meira í átt við að faðma broddgölt. Þeir sem það hafa reynt vita að broddgöltur verður bara faðmaður með þeim hætti sem geltinum hentar, á þeim tíma sem honum hentar og með þeim hætti sem honum hentar. Á þeirri reglu eru engar undantekningar, ekki frekar en að engar varanlegar undanþágur eru frá regluverki Evrópusambandsins fyrir þá sem álpast inn í það brennandi hús.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2025