
Enn skal hækka skatta og þenja ESB-lestina
Fjárlagafrumvarp næsta árs er nú til fyrstu umræðu á Alþingi. Útgjöld vaxa rúmlega tvöfalt meira á milli ára en þau gerðu við síðustu fjárlög. Þá, í miðri kosningabaráttu, voru samþykkt fjárlög þar sem útgjöld hækkuðu um 61 milljarð á milli ára. Nú leggur fjármálaráðherra fram fjárlagafrumvarp þar sem útgjaldaaukningin er 126,5 milljarðar á milli ára. Það er rúmlega tvöföldun.
Svo er fjárlögunum lýst sem aðhaldssömum. Varaformaður fjárlaganefndar, Dagur B. Eggertsson, gekk meira að segja svo langt að halda því fram að með fjárlagafrumvarpinu væri „haldið aftur af útgjaldavexti“!? Stríð er friður, svart er hvítt.
Þegar varaformaður fjárlaganefndar, fulltrúi þess flokks sem er í forsæti ríkisstjórnarinnar, telur rúmlega 100% aukningu í vexti ríkisútgjalda á milli ára, í milljörðum talið, vera eitthvað annað en vöxt ríkisútgjalda, þá erum við ekki á góðum stað hvað framhaldið varðar.
En það er ekki bara útgjaldavöxturinn, þar sem aðeins 15% fara í fjárfestingu en 85% í rekstur, sem veldur áhyggjum. Skatta og gjöld á akstur og ökutæki á að hækka um tæpa 11 milljarða. Annars vegar með 7,5 milljarða hækkun, sem erfitt er að henda reiður á, en er kölluð „endurskoðun“ (væntanlega enn ein leiðréttingin) og svo 3,3 milljarða hækkun á grundvelli viðbótar í kílómetragjaldi, samtals 10,8 milljarðar! Um 100 þúsund á heimili!
Í heildina eru skattahækkanir áformaðar 28 milljarðar.
Það hefði verið kjörið hefðu þessi áform valkyrjanna legið fyrir í aðdraganda kosninga. Það átti nefnilega hvorki að hækka skatta á fólk né fyrirtæki. Það hefði líka verið kjörið að upplýsa kjósendur um það í aðdraganda kosninga að í raun yrði aðlögun að ESB í forgrunni.
Samningar við ESB á liðnum mánuðum slá taktinn, bæði hvað utanríkismál varðar og málefni hafsins. Bókun 35 er þingmál númer 3 þennan veturinn. Hinn raunverulegi upptaktur að því að auðvelda aðlögun að ESB. Mátti einhver eiga von á þessu, miðað við hvernig forystufólk Samfylkingar og Viðreisnar tjáði sig í aðdraganda kosninga? Svo ekki sé nú talað um Flokk fólksins.
Undarlegasta uppákoma vikunnar hjá Evrópulestinni var sennilega þegar utanríkisráðherra lýsti því yfir í kvöldfréttum Sýnar að þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunarviðræður við ESB yrðu á dagskrá þennan þingveturinn. Málið er samt hvergi að sjá á þingmálaskrá.
Ráðherrann útskýrði og sagði: „Ég mat það svo, bara út frá minni reynslu, að það væri best að hafa hana ekki á skránni, þar sem hún myndi draga athyglina frá öðrum málum“ og hélt svo áfram „ég hef sagt við fjölmiðlamenn; örvæntið eigi, þetta mál mun koma fram“.
Þar kom það: Við eigum þetta, við megum þetta.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september.



