Ég á þetta, ég má þetta

Síðasta vika var undarleg fyrir margra hluta sakir, svo vægt sé til orða tekið.

Fyrirsvarsmenn ríkisstjórnarinnar lentu í mestu vandræðum með að útskýra í hverju „óvænt útspil“ stjórnvalda inn í kjaradeilu kennara á viðkvæmum tímapunkti hafi falist þegar þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknar inntu þau eftir svörum. Málstol virtist sömuleiðis herja á fyrirsvarsmenn sveitarfélaga vegna þessa eftir fjölmennan fund þeirra.

Hver var „pólitíski hráskinnaleikurinn“ sem formaður Kennarasambandsins vísaði til? Hvert var „óvænta útspilið“ sem setti svo allt í keng og hver lagði það fram? Þarna liggur ósögð saga sem mun fljóta upp á næstunni. Í öllu falli virðst ljóst að einhver er ekki að fara alveg rétt með.

Fjármálaráðherra kynnti svo lausnargjald fyrir líf ríkisstjórnarinnar í vikunni, á kostnað skattgreiðenda eða 240 milljónir króna. Þetta kom í ljós þegar hann ákvað að gera ekki endurkröfu á styrki sem Flokkur fólksins, samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, þáði úr opinberum sjóðum um árabil í bága við lög og ekki í góðri trú.

Helstu lögspekingar bæjarins klóra sér í kollinum yfir niðurstöðu fjármálaráðherrans og það verður fróðlegt að fylgjast með því ef reynt verður á þetta fordæmi fyrir dómstólum, t.d. vegna ofgreiddra bóta.

Ríkisstjórnin lét þó ekki þar við sitja heldur braut líka þingskaparlög í aðdraganda þingsetningar þegar hún hélt blaðamannafund um þingmálaskrá áður en hún hafði uppfyllt lagakröfur varðandi kynningu og umræður um hana gagnvart löggjafarvaldinu. Útlitið og umbúðirnar trompuðu þar lög og reglu.

Samfylkingin hefur svo líka eytt miklum tíma í það síðustu vikur að finna leiðir til að hirða þingflokksherbergið af Sjálfstæðisflokknum en hann hefur hafst við í sama herbergi þinghússins í yfir 80 ár – óháð ríkisstjórnarmynstri hverju sinni. Gildandi reglur heimila Sjálfstæðisflokknum að dvelja áfram í herberginu en Samfylkingin breytir þá bara reglunum, sér í hag.

Svo sprakk meirihlutinn í Reykjavíkurborg og viðræður hófust milli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins. Degi síðar steig formaður Flokks fólksins fram og sagði flokkinn ekki munu leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í Reykjavík. Virtist þá einu gilda hvaða skoðun borgarfulltrúi flokksins hafði á málinu. Þau búa jú á Sælandi og þar ræður bara Inga.

En afhverju þessi ægilega þörf fyrir að sýna vald sitt? Er það þrautaganga undangenginna kjörtímabila? Mikilmennskubrjálæði? Eru það stanslaus vandræði Flokks fólksins? Er það kannski bara af því að nú telja þau sig geta það – nú sé þeirra tími kominn? Hver svosem skýringin er þá liggur fyrir að viðhorfið „ég á þetta, ég má þetta“ hefur sjaldan reynst heilladrjúgt til lengri tíma litið.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. febrúar 2025