
DV málpípa ríkisstjórnarinnar
Vefmiðill DV tekur fyrir grein mína á Vísi um útlendingamál/fjölskyldusameingu sem birtist föstudaginn 25. júlí sl. og segir hana hálfsannleik og leik að tölum og haldi ekki vatni.
Áður en lengra er haldið, þá vek ég athygli á því að dv.is, hið frjálsa og óháða eins og þeir gefa sig út fyrir að vera, er í raun málpípa ríkisstjórnarinnar, sem nánast alla daga upphefur og mærir allt sem frá ríkisstjórninni kemur. Níðir síðan stjórnarandstöðuna ítrekað og hafa sérstaka andúð á Miðflokknum.
Tölurnar sem ég birti í greininni eru fengnar beint frá Útlendingastofnun. Það tók næstum þrjár vikur að fá svör við spurningum sem ég lagði fyrir stofnunina. Spurði ég meðal annars um fjölda þeirra sem fengu dvalarleyfi frá 2023 til og með júní 2025 á grundvelli fjölskyldusameininga. Svörin þegar þau komu voru afgerandi. 2023 1.470 2024 1.493 og fyrstu 6. mánuðina 2025 789 sem gerir þá 1.578 á þessu ári á fjölskyldusameininga ákvæðinu. 468 eru Palestínumenn og Sýrlendingar. Stærsti hópurinn Víetnamar 556 líklega allt nánir ættingjar Íslendingsins Quan Lee.
Þá eru einnig stórir hópar af öðrum þjóðarbrotum. Einnig segir þessi áðurnefndi frjálsi og óháði miðill DV.is í hæðnistón í athugasemdum að ég hafi fullyrt að á þessu ári kæmu til landsins 1400 manns í leit að hæli/dvalarleyfi. En þeir telja þá tölu 1.258 miðað við fyrstu 6 mánuðina. Ég geri ráð fyrir aukningu miðað við versnandi stöðu á Gaza og yfirlýsingu utanríkisráðherra um móttöku fleiri af svæðinu.
Þannig að ég tala réttilega um að hingað komi nærri 3000 einstaklingar af áðurnefndum ástæðum, 1258 + 1578 sem er samtalan úr málaflokkunum hælisleit/dvalarleyfi og fjölskyldusameining.
Útlendingastofnun svaraði ekki spurningu minni um aldursskiptingu þeirra sem hingað hafa komið á fjölskyldusameiningar ákvæðinu.
Þar af leiddi að ég þurfti að áætla fjölda þeirra sem væri 65 ára og eldri. Tel ég að sú tala nemi 25% af heildinni. Þá átelur DV.is mig fyrir að nefna ekki að margir fái ekki samþykki fyrir vernd og verði frávísað. Þeir hins vegar gleyma að nefna að frávísun tekur allt að 12 mánuði og ríki/skattgreiðendur borga framfærslu á meðan.
Vek athygli að inn í tölunum um fjölskyldusameiningar eru engir Úkraínumenn, sem þá líklega eru undir annarri skilgreiningu.
Staðreyndin er einfaldlega sú, að hingað streyma þúsundir á ári hverju á áðurnefndum forsendum samkvæmt tölum Útlendingastofnununar, hvað sem hinn óháði og frjálsi miðill DV, málpípa vinstrisins og ríkistjórnarinnar, heldur fram.
DV leyfir sér að leggja mér orð í munn varðandi komu fylgdarlausra barna sem ég nefndi ekki einu nafni, að öðru leyti en að það kom fram í regluverki sem ég vísaði í frá Útlendingastofnun og kemur fram í grein minni um hverjir eigi rétt á fjölskyldusameiningu.
Lárus Guðmundsson, varaþingmaður Miðflokksins.



