Dómstólar og íslenskan

Bergþór Ólason og Snorri Másson, þingmenn Miðflokksins, áttu orðastað við ráðherra ríkisstjórnarinnar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi 17. mars.

Ber ráðherra traust til dómstóla landsins?

Bergþór Ólason spurði Ásthildi Lóu Þórsdóttur, mennta- og barnamálaráðherra, út í orð hennar á dögunum þar sem hún sagði að ekki væri hægt að treysta dómstólum landsins eftir að hún beið ósigur í máli gegn íslenska ríkinu. Ráðherra sagðist hafa hlaupið á sig og ekki væri meira um málið að segja.

Þá beindi Bergþór máli sínu að meðferðarheimilinu Blöndulíð í Mosfellsbæ og fullvissaði ráðherra þingheim í svari sínu að úrræðið yrði nýtt mjög fljótlega.

Vill ráðherra lögfesta ensku og pólsku sem opinber mál á Íslandi?

Snorri Másson beindi spurningu til Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, varðandi alvarlega stöðu íslenskrar tungu. Sagði hann nýleg orð ráðherrans væg vonbrigði um að mæta þyrfti að skilningi og umburðarlyndi þeim sem ekki tala íslensku sem fyrsta mál og búa okkur undir að veröldin muni breytast. Snorri spurði í því samhengi hvort ráðherrann teldi þá að lögfesta ætti stöðu ensku og pólsku sem opinber mál á Íslandi.

„Auðvitað ekki“ svaraði ráðherrann en hvatti svo fjölmiðla, opinber fyrirtæki tli að miðla upplýsingum á fleiri tungumálum en íslensku. „Ég held að það að miðla texta á pólsku og ensku geti auðveldað inngildingu í samfélaginu,“ sagði ráðherrann að lokum.