Dagur í þinglokaþoku

Þinglok ætla að verða með skrautlegasta móti þetta árið. Verklausa… ég meina verkstjórnin hefur komið málum þannig fyrir að þremur vikum eftir áætluð þinglok og tæpum mánuði eftir að starfsáætlun Alþingis var kippt úr sambandi eru 40 mál, mörg stór, sem bíða annarrar umræðu. Staðan er fordæmalaus við upphaf júlímánaðar.

Út úr þoku ringulreiðarinnar steig svo í gær fyrrverandi borgarstjóri, núverandi alþingismaður, Dagur B. Eggertsson og tilkynnti landsmönnum hér á þessum sama stað að stjórnarandstaðan hindraði, með meintu málþófi, að hin ýmsu þjóðþrifamál næðu fram að ganga í þinginu. Nefndi hann sérstaklega að málefni tengd Grindavík væru stopp vegna umræðu um veiðigjöld. Heldur var borgarstjórinn fyrrverandi óheppinn þegar hann stillti upp þessari sviðsmynd, enda ekkert þingmál, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og varðar hagsmuni Grindavíkur, sem bíður afgreiðslu.

Það eina sem varðar málefni Grindavíkur og er til meðferðar í þinginu er 105 milljóna fasteignaskattsframlag í gegnum breytingu á lögum um jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sú ákvörðun er óumdeild og óhugsandi að Grindvíkingar séu órólegir vegna þess. Þær krónur komu ekki fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, bara alls ekki, heldur í nefndaráliti.

Líklegast verður að telja að það hafi verið klaufaskapur hjá borgarstjóranum fyrrverandi að vekja athygli á sinnuleysi ríkisstjórnarinnar með þessum hætti, en það er ekki útilokað að varaformaður fjárlaganefndar, en þaðan er nefndarálitið ættað, hafi viljað vekja athygli á sinnuleysi forsætisráðherra í málefnum Grindavíkur á meðan hann skilaði sjálfur sínu.

Dagur hélt svo áfram að draga fram í dagsljósið skipulagsleysi verkstjórnarinnar, þegar hann sagði vegabætur á Vesturlandi og víðar vera að dragast þar sem svokallaður Fjárauki III hefði enn ekki verið kláraður (væntanlega vegna meints málþófs). Í honum eru meðal annars fjárveitingar til lagfæringar vega, styrkir til hagsmunahópa í tengslum við kosningu um áframhaldandi aðlögunarviðræður að ESB og fleira.

Skemmst er frá því að segja að verkstjórn valkyrjanna virðist hafa gleymt að leggja málið fram fyrr en eftir dúk og disk, enda var búið að kynna innihald fjáraukans löngu áður en málið var loksins lagt fram í þinginu þegar vel var liðið á júní.

Forseti Alþingis er auðvitað í fullum færum til að setja þetta mál fremst á dagskrá. Ég vil hér gleðja Dag B. Eggertsson og tilkynna honum að við upphaf þingfundar í dag fær hann tækifæri til að greiða götu þess að jöfnunarsjóðsmálið og Fjárauki III komist fremst á dagskrá dagsins í dag, þegar atkvæði verða greidd um dagskrártillögu mína þar að lútandi.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst 3. júlí í Morgunblaðinu