Báknið burt – lækkum skatta!

Ríkisstjórnin hélt sumarfund sinn í Stykkishólmi í gær. Það fór vel á því, enda óvíða fallegra og tengingin við raunhagkerfið sterk. Það fæðast líka oft góðar hugmyndir í Hólminum.

Hugmyndaflæðið er kannski það sem ég hef mestar áhyggjur af hjá ráðherrunum nú um stundir.

Forsætisráðherra sagði í viðtali við Ríkisútvarpið, þar sem hún stóð fyrir framan Vatnasafnið á Bókhlöðuhöfðanum, að fram undan væri „verðmætasköpunarhaust“.

Alla jafna væru þetta frábærar fréttir fyrir heimili og fyrirtæki. Verðmætasköpunarhaust. Minna má það ekki vera.

En þá aftur að hugmyndaflæðinu sem Hólmurinn kallar fram og áhyggjur mínar af því að ráðherrarnir fái fleiri hugmyndir en færri nú um stundir.

Hugmyndir þeirra eru nefnilega býsna margar mótdrægar aukinni verðmætasköpun.

Hækkun skatta og gjalda virðist meginstef. Aðhald á tekjuhlið kalla þau það – jafn ónotaleg og sú nýyrðasmíði er í raun.

Síðasta þriðjudag, innan sömu viku og talað er um „verðmætasköpunarhaust“, tilkynnti forsætisráðherra að ferðaþjónustan væri næst í röðinni hvað auknar álögur varðar. Það er jú búið að haka kross við sjávarútveginn, í bili.

Hvernig má það vera að svona samhengisleysi gangi upp í umræðunni?

Á sama tíma og ríkisstjórnin flaggar áformum um aukna verðmætasköpun eru lappirnar slegnar undan útflutningsatvinnugreinum þjóðarinnar, sem eru mikilvægastar allra hvað hagsæld og velferð varðar. Þetta fer ekki saman. Er sjálfstætt markmið ríkisstjórnarinnar að veikja krónuna?

Til viðbótar við skatta- og gjaldaáhugann sem hefur gripið ríkisstjórnina, þá fer meginhluti orku hennar nú um stundir, og að líkindum út kjörtímabilið, í að draga okkur inn í hið brennandi skrifræðishús Evrópusambandsins. Það verður ekki til þess að minnka báknið, heldur þvert á móti. Íþyngjandi regluverk virðist sérstakt markmið.

En hver er þá lausnin, sé raunverulegur vilji til að ýta undir verðmætasköpun?

Lausnin er hóflegri skattar og álögur. Einfaldara regluverk.

Lausnin er að regluverkið sem stjórnmálin búa fyrirtækjum ýti undir að þau verji orku sinni í að gera það sem þau eru best í.

Leyfum þeim sem stunda sjávarútveg að gera það þannig að sem mestur arður skapist fyrir alla. Bæði þá sjálfa og samfélagið. Leyfum þeim sem stunda ferðaþjónustu að gera það sama. Allar ákvarðanir og skilaboð stjórnvalda til þessara tveggja atvinnugreina hafa hingað til verið í þveröfuga átt.

Sýnum aðhald í rekstri hins opinbera. Reynum að fá jafnmikið, eða meira, fyrir minna. Hættum óþarfa sem hið opinbera á ekki að vera að vasast í. Förum betur með skattfé sem tekið hefur verið af heimilum og fyrirtækjum.

Hvetjum raunverulega til verðmætasköpunar – ekki bara í orði, heldur raunverulega á borði.

Minnkum báknið og lækkum skatta!

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst