
Skattgreiðendur áttu sér ekki Viðreisnar von
Þetta lítillega aðlagaða orðtak kom mér til hugar þegar ég fylgdist með lokadögum þingsins þetta haustið, svolítið krambóleraður heimafyrir. Í fyrsta skipti í mörg ár að fylgjast með síðustu dögum haustþings utanfrá. Það hefur um margt verið áhugavert.
Það sem stendur uppúr er sennilega endanlegur viðskilnaður Viðreisnar við allt sem heitir til hægri.
Ýmsir höfðu svosem nefnt að æði oft bentu atkvæðagreiðslur Viðreisnar til vinstri á síðasta kjörtímabili. Í útlendingamálum voru sjónarmiðin á köflum píratalegri en þau sem bárust frá þingmönnum Pírata.
Svo komu kosningar. Viðreisn talaði til hægri og naut þess í borgaralegri sveiflu sem blasti við í aðdraganda kosninga og sömuleiðis þegar atkvæði voru talin á kjördag.
Eftir kosningar birtist svo fullkomið áhugaleysi flokksins á að svara kalli þjóðarinnar um borgaralegar áherslur og við tók skörp beygja til vinstri.
Enginn velkist í vafa um að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hafði öll tromp á hendi þegar kom að því að ákveða hvort hér yrði borgaraleg ríkisstjórn, sem horfði frá miðju til hægri, eða vinstri stjórn. Formaður Viðreisnar valdi að vinna til vinstri.
Við tók hækkun skatta, hækkun gjalda, flóknara regluverk; gegnumgangandi í boði ráðherra Viðreisnar.
Ráðherrarnir hafa líka verið gjarnir á að misskilja. Misskilja áhrif frumvarpa. Misskilja áhyggjur hagaðila og það sem verst er oft á tíðum misskilja þeir sjálfan sig.
Skýrasta dæmið um það er sennilega furðulega afstaða ráðherra og þingmanna Viðreisnar þess efnis að flokkurinn hafi nú lækkað fyrirtækjaskatt um 1%, úr 21% í 20%. Raunin er að sú breyting varð í tíð fyrri stjórnar.
Maður hlýtur að spyrja sig hverslags öngstræti flokkurinn sem fer fyrir ríkisfjármálunum er kominn í þegar hann skreytir sig með stolnum fjöðrum sem þessum.
Í vor og sumar birtist okkur undarleg andúð á kapitalisma í ræðum þingmanna Viðreisnar þegar áform flokksins um hækkun skatta á sjávarútveg voru rædd.
Nú ber svo við að frumvarp dómsmálaráðherra um afturköllun alþjóðlegrar verndar er ekki einu sinni sett á dagskrá til annarrar umræðu, heldur notað í furðulegu upphlaupi á síðasta degi haustþings þegar forysta Viðreisnar áttaði sig á að flokkurinn hafði ekki lagt áherslu á að ná neinu fram á haustþinginu nema skatta- og gjaldahækkunum og svo nýjum flækjufótum sem atvinnulífið þarf að eiga við, eins og kílómetragjaldinu.
Umsjónarmaður Silfurs ríkisútvarpsins orðaði stöðu nýju-Viðreisn svo ágætlega: ef þetta er hægri flokkur, til hvers þurfum við þá vinstri flokka?
Svarið við því kom sennilega best fram í ræðu Karls Gauta Hjaltasonar, þingmanns Miðflokksins, við lokaafgreiðslu fjárlaga í gær, þegar hann sagði „vinstrið hefur yfirtekið Viðreisn“.
Bergþór Ólason, alþingismaður
Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. desember, 2025.



