Miðflokkurinn – fyrir framtíðina


Landsmenn eru orðnir þreyttir á stöðunni í íslenskum stjórnmálum. Það er vegna þess að
stjórnmálaflokkar gleyma oftast að hlutverk þeirra er að þjóna samfélaginu og gæta hagsmuna allra landsmanna.

Stjórnmál eiga ekki að snúast um hagsmuni eða pólitík flokka, heldur um velferð þjóðarinnar á grunni skýrrar hugmyndafræði. Þess vegna viljum við Miðflokksmenn breyta stöðunni í efnahags-, útlendinga- og orkumálum og en einnig í húsnæðismálum þar sem ráðist verði á rót vandans. Það þarf að rjúfa áratuga kyrrstöðu í nauðsynlegri uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að festa okkur í vítahring óraunhæfra og kostnaðarsamra hugmynda borgarlínunnar. Hugum að nokkrum þáttum:

  1. Setjum þjóðina framar flokkspólitík
    Miðflokkurinn vill endurskoða hvernig við hugsum um stjórnmál. Við stöndum fyrir innihald umfram umbúðir og viljum hætta að fylgja úreltri hugmyndafræði prinsipplausra stjórnmála. Þess í stað viljum við leggja áherslu á lausn aðkallandi verkefna á grundvelli þess hvað sé skynsamlegt að gera. Við viljum flokk sem forgangsraðar í þágu fólksins og grunnkerfa samfélagsins.
  2. Heildstæð nálgun á efnahagsmál og atvinnulíf
    Miðflokkurinn vill tryggja að skattpeningar fari í það sem skiptir okkur raunverulega máli – heilbrigðisþjónustu, menntun og velferð. Til þess er nauðsynlegt að draga úr óþarfa útgjöldum og stöðva viðvarandi halla á ríkissjóði undanfarinna ára. Um leið viljum við Miðflokksmenn efla nýsköpun og styrkja sjálfstæði atvinnulífsins enda verður engin velferð án verðmætasköpunar.
  3. Ábyrg innflytjendastefna sem tekur mið af íslenskum veruleika
    Miðflokkurinn telur að innflytjendastefna eigi ekki að byggjast á skyndiákvörðunum undir pólitískum þrýstingi. Þvert á móti á hún að vera ábyrg, mannúðleg og í samræmi við það sem íslenskt samfélag getur staðið undir. Nauðsynlegt er að endurskoða lög um hælisleitendur, þá þannig að þau taki mið af getu samfélagsins til að taka á móti hælisleitendum í stað óstjórnar síðustu ára. Um leið þarf að vera til kerfi sem tryggi að nýir íbúar landsins fari eftir lögum og virði okkar samfélag. Þar með verðum við betur í stakk búin til að bæta þjónustu og stuðning við þá sem þurfa mest á hjálp að halda.
  4. Velferð sem stuðlar að jafnrétti fyrir alla
    Velferðarkerfið okkar þarf að vera öryggisnet fyrir alla, ekki aðeins þá í neyð. Miðflokkurinn vill bæta þjónustu fyrir aldraða, þá sem hafa sérstakar þarfir og fjölskyldur. Við viljum samfélag þar sem allir hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun og öryggi, samfélag þar sem börn geta alist upp í umhverfi sem styður við velferð þeirra.
  5. Sjálfbær framtíð og raunhæf
    Miðflokkurinn styður umhverfisvernd byggða á vísindum og heilbrigðri skynsemi og nýjustu tækni. Við teljum mikilvægt að nýta umhverfisvæna innlenda orku til að auka lífskjör á Íslandi. Við getum aukið orkuframleiðslu, bætt flutningskerfið og nýtt virkjanir og orkukosti betur til að bæta kjör landsmanna.

Miðflokkurinn – flokkurinn fyrir framtíðina

Ég býð mig fram fyrir Miðflokkinn til að byggja samfélag sem við getum öll verið stolt af.
Ef þú vilt sjá breytingar og tryggja að Ísland verði fyrir okkur öll, þá er Miðflokkurinn rétta valið fyrir þig. Við getum gert betur og við eigum að krefjast þess að stjórnmál snúist um hagsmuni
þjóðarinnar. Við eigum það öll skilið.


Höfundur er Mosfellingur og er í 6. sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.