Eru það hafið, fjöllin og fólkið?
Ætla Íslendingar nú að kjósa yfir sig sama stjórnarfar á Alþingi og hefur ríkt í nánast gjaldþrota höfuðborginni? Er það virkilega svo?
Hvað er það sem dregur fólk til Íslands? Vel menntað fólk, sem hingað kemur oft langt að, vill verða hluti af íslensku samfélagi, samfélagi sem getur tekið við fólki og vill taka við fólki, fólki sem vill vel. Sjálf hef ég búið hér á landi í meira en 20 ár og hefur íslenskt samfélag tekið miklum breytingum.
Höfuðborg Íslendinga, Reykjavík, virðist því miður fara aftur. Borginni er illa stjórnað. Áralöng reynsla er af því að þeir flokkar, sem þar hafa haldið um stjórnartaumana, hafa ekki skapað tækifæri heldur mun fremur valdið vanda. Ætla Íslendingar nú að kjósa yfir sig sama stjórnarfar á Alþingi og hefur ríkt í nánast gjaldþrota höfuðborginni? Er það virkilega svo?
Lesskilningur hefur versnað meira á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Hér er átt við m.a. niðurstöður PISA frá 2022 þar sem stærðfræðilæsi, lesskilningur og læsi á náttúruvísindi hrapaði. Hlutfall nemenda sem bjuggu þá yfir afburðahæfni í stærðfræðilæsi á Íslandi nam 5% en um 8% á Norðurlöndunum almennt og 9% á meðal OECD-ríkjanna.
Grunnskólar skila greinilega ekki lengur af sér nægum fjölda nemenda með lágmarksþekkingu og getu til að takast á við lífið, hvað þá fleirum með yfirburðaþekkingu. Skóli án aðgreiningar hefur orðið til þess að skólar eru meira eða minna e.k. sjúkrastofnanir. Sumir kunna að halda að skólar séu að verða fremur dagpössun en skóli.
Skólar hafa víða enga burði til að takast á við fjölbreyttan vanda barna. Börn verða þarna oftar en ekki undir. Snemmtæk úrræði, ásamt tilsvarandi greiningum þar sem biðlistar eru langir, virðast ekki virka. Ef allir gætu bara munað eftir því sem var lofað fyrir síðustu kosningar. Átti ekki að stytta biðlista? Biðraðir hafa ekki styst og krakkar eru enn að bíða eftir úrræðum. Er þetta þessi árangur sem Framsókn lofaði kjósendum síðast?
Ár eftir ár hef ég heyrt loforð um lækkun skatta og það sungu allir það lag fyrir síðustu kosningar, lagið sem allir vildu heyra. En gleymir fólk því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið í ríkisstjórn í yfir 10 ár samfleytt eða frá tímum Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra í maí 2013. Þar áður hafði Sjálfstæðisflokkurinn setið í ríkisstjórn frá 1991 til 2009 sem gera um 18 ár. Það sem er mest áberandi nú við stjórn Sjálfstæðisflokksins er að útgjöld aukast og halli ríkissjóðs vex. Nú síðast með 59 milljarða halla með nýju fjárlagafrumvarpi ársins 2025. Viljum við áframhaldandi hallarekstur í sístækkandi ríkiskerfi?
Biðtími eftir sérfræðingum á heilbrigðissviði lengist, mikil sóun er fólgin í kerfinu og má þar m.a. nefna tilvísunarkerfi frá heimilislæknum til sérfræðinga ásamt tilsvarandi biðtíma eftir þjónustu sérfræðilækna. Biðin er allt að sex mánuðir ef ekki lengri þar til sérfræðilæknir getur tekið við sjúklingi, þ.e. viðskiptavini. Sjúkdómseinkenni hafa hugsanlega náð að taka stökkbreytingum á þessum langa biðtíma. Við versnum öll við þetta, verðum veikari og veikari. Kerfið er fársjúkt.
Stjórnmálamenn víða eru alls ekki að standa sig. Öll þessi óreiða brýst út í eftirlitsleysi, árangursleysi og gæðavanda íslenskra skóla og heilbrigðiskerfis. Kennarar og heilbrigðistarfsmenn eru yfirsettir. Stjórnvöld hafa ekki tekið á vandanum heldur mun frekar skipað starfshópa á starfshópa ofan. Þeir hafa enga læknað hingað til eða útskrifað úr skólum.
Ísland getur orðið að landi tækifæranna. Það er okkar að nýta tækifærin standi þau til boða. Búa verður svo um að það sé hægt að nýta tækifærin en ekki standa í veginum fyrir fólki með of háum sköttum og álögum á fyrirtæki umfram getu þeirra. Það á að stuðla að því að veita öðrum tækifæri með minna flækjustigi og lægri álögum. Við getum myndað fjölda hvata sem efla fólk og fyrirtæki til að nýta tækifærin sem við blasa. Þannig löðum við að vel menntað fólk sem vill vel, bæði Íslendinga sem búa erlendis og aðra sem hingað vilja sækja. Við þurfum aðra til að stjórna þessu landi.
Já, það eru hafið, fjöllin og fólkið sem laða mig hér að. Áfram Ísland!
Höfundur er lögfræðingur LLM frá HÍ og MBA frá HR og skipar 5. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík suður.