Ríkisfjármál

Stöðvum óráðsíu í ríkisrekstri. Það á ekki að bruðla með peningana þína. 

Við ætlum að ná tökum á ríkisfjármálunum hratt og örugglega – við ætlum að spara og lækka skatta. Ýta undir einkaframtakið og verðmætasköpun í landinu og hætta kostnaðarsömum ríkisaðgerðum sem engu skila. Fjárlög ríkisins verða hallalaus í fyrstu atrennu sem mun leiða til hraðari lækkun vaxta og verðbólgu. Við höfum gert þetta allt áður – og ætlum að gera þetta aftur.

Forsenda þess að ná niður verðbólgu og vöxtum er sú að ná tökum á ríkisfjármálunum og reka ríkissjóð hallalaust. 

Það þarf að spara, til dæmis:

  1. Hætta við áform um Borgarlínu, sem mun ella kosta skattgreiðendur hundruð milljarða áður en yfir lýkur.
  2. Draga úr þeim loftslagsaðgerðum sem engu skila. Heildarframlög merkt loftslagsmálum námu 30 milljörðum árið 2023.
  3. Taka á stjórnleysi í innflytjendamálum. Beinn kostnaður við hælisleitendakerfið nam 26 milljörðum króna árið 2023. Þá eru ekki meðtalin tugmilljarðaáhrif á heilbrigðiskerfið, menntakerfið, löggæslu, húsnæðismál osfrv.

Þetta er hægt, við höfum gert þetta áður.
Þegar ný ríkisstjórn tók við árið 2013 einsetti hún sér að leggja fram hallalaus fjárlög. Útlitið var dökkt, hallinn árið áður hafði verið margfalt meiri en áætlað var og mjög stór viðbótarútgjöld biðu næsta árs. 

Markmiðið um fyrstu hallalausu fjárlög í 6 ár var því erfitt og aðeins reiknað með afgangi upp á um 0,7 milljarða á núvirði. Á sama tíma boðaði stjórnin skattalækkanir, lægri vexti, aukinn hagvöxt, auknar ráðstöfunartekjur heimila, hærri vaxta- og barnabætur, frítekjumark fjármagnstekjuskatts var hækkað, framlög til elli- og örorkulífeyrisþega voru hækkuð, tryggingagjald var lækkað og þannig mætti lengi telja.

Þegar árið var gert upp nam afgangur af rekstri ríkissjóðs yfir 70 milljörðum króna (að núvirði), nærri hundraðföldu því sem lagt var upp með, vextir féllu eins og steinn og niðurgreiðsla skulda hófst.