Húsnæðismál
Verjum íslensk heimili gegn óstjórn. Sköpum heilbrigðan húsnæðismarkað. Allir eiga að geta eignast húsnæði.
Við ætlum að endurreisa séreignarstefnuna á Íslandi. Við kynnum aðgerðaráætlun sem við köllum „íslenska drauminn“ – aðgerðir sem tryggja að allir hafi tækifæri til að eignast eigið húsnæði. Við uppfærum hlutdeildarlánafyrirkomulagið og innleiðum kynslóðabrú.
Lausnir varðandi framboð á húsnæðismarkaði:
- Útrýma lóðarskorti – skylda til að skipuleggja svæði til uppbyggingar.
Ný stefna þar sem uppbygging húsnæðis og úthlutun lóða miðast ekki við boðaða Borgarlínu. Nýtum Keldnalandið og úthlutum lóðum fyrir fjölbreytt húsnæði, m.a. lóðir fyrir einstaklinga, byggingarsamvinnufélög, aðra einkaaðila og félagslegt húsnæði. Við viljum gera sveitarfélögum kleift að útvíkka vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins án þess að eitt sveitarfélaganna hafi neitunarvald í þeim efnum. Forma þarf skyldu sveitarfélaga sem eiga land til að skipuleggja ný svæði til uppbyggingar. - Einfaldari reglur tengdar byggingu húsnæðis án þess að slá á öryggiskröfur.
Það segir sína sögu að húsnæði byggt áður en reglugerðafarganið jókst til muna hefur oft reynst vandaðra en það sem kom á eftir. Auknir hvatar til að leigja út húsnæði, í stað hindrana, munu leiða til aukins framboðs leiguhúsnæðis á lægra verði. Nýleg dæmi t.d. frá Argentínu sýna það. - Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu á verkstað við byggingu íbúðarhúsnæðis. Mikilvægt er að færa endurgreiðsluhlutfallið til fyrri vegar en það hefur aldrei verið lægra. Miðflokkurinn mun hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 35% í 60%. Það lækkar byggingarkostnað og stuðlar að aukinni uppbyggingu.
- Skilvirkara leyfisveitingakerfi og hámarkstími á afgreiðslu skipulagsferla á nýbyggingarsvæðum.
Skipulagsmál ríkis þurfa að miða að því að ýta undir framkvæmdir fremur en að reynast hindrun á framkvæmdir eins og raunin hefur verið á undanförnum árum. - Stuðningur við uppbyggingu á landsbyggðinni
Stuðningur verður útfærður með fjölbreyttum lausnum þar sem aðkoma ríkisins verður með þeim hætti sem hentar best á hverjum stað. - Hvati til að leigja út íbúðir
Leiguferlið verður einfaldað og veittur verður 50% afsláttur af tekjuskatti leigutekna af fyrstu íbúð sem hver aðili leigir út. - Stjórn á landamærunum og straumi fólks til landsins.
- Traust stjórn efnahagsmála – hallalaus fjárlög
Skila þarf hallalausum fjárlögum og gefa þannig væntingar um trausta stjórn efnahagsmála. Þá mun verðbólga falla hratt. Við höfum gert það áður. Við kosningar 2013 féll verðbólgan og þegar hallalaus fjárlög tóku gildi 1.jan 2014 var verðbólgan komin niður í 3,1%. Ári síðar var hún 0,8%.
Íslenski draumurinn – endurreisn séreignarstefnunnar
- Fyrirkomulag hlutdeildarlána verður lagfært.
- Lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum verður heimilað að veita hlutdeildarlán.
- Auðvelda fólki að komast af leigumarkaði
Fólk sem fast er á leigumarkaði mun fá aukin tækifæri til að fá greiðslumat og lán til fasteignakaupa. Í mörgum tilvikum gætu afborganir af láni reynst lægri en mánaðarleg leiga. Í þessu skyni þarf að breyta lögum sem fela Seðlabankanum að takmarka heimild lánastofnana til að veita greiðslumat og lán til fasteignakaupa. - Stimpilgjöld verða afnumin við kaup á fyrstu íbúð.
- Halda skal áfram að heimila nýtingu séreignarsparnaðar sem greiðslu inn á húsnæðislán.
- Kynslóðabrú
Foreldrum verði heimilað að fella fyrirgreiðslu undir fyrirframgreiddan arf þannig að hann nýtist til kaupa á fyrstu eign. Auðveldari yfirfærsla eigin fjár á milli kynslóða er tilkomin af sanngirnisástæðum þar sem bilið á milli kynslóða hefur verið að breikka hvað eigið fé varðar. Frítekjumark erfðafjárskatts verður hækkað til að samsvara sem nemur meðal íbúð.
Íslenski draumurinn verður innleiddur samhliða aðhaldi í ríkisfjármálum til að tryggja lækkun vaxta.