Það fellur hratt á silfrið
Ég vil byrja á því að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í sínum störfum fyrir land og þjóð. Fyrirséð er að skattgreiðendur þessa lands fái að svitna næstu árin til að standa undir óútfærðum útgjaldafrekum loforðum og markmiðum sem sjá mátti í knöppum stjórnarsáttmála Valkyrjanna.
Grunnatvinnuvegir þjóðarinnar mega sín svo lítils þegar kemur að því að halda friðinn og fram undan er barátta fyrir fullveldi íslensku þjóðarinnar en Valkyrjurnar vilja nú skyndilega Evrópusambandið sem þær vildu ýmist alls ekki, síður eða drápu málinu á dreif í kosningabaráttunni.
En það munar um Miðflokkinn nú sem fyrr – og sterkur átta manna þingflokkur mun beita skynseminni og taka slaginn fyrir íslensku þjóðina.
En strax á þessum fyrstu örfáu dögum eru nokkur mál sem blasa við að verða nýrri ríkisstjórn erfið og kalla á nánari spurningar og eftirfylgni.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ein Valkyrjanna, var ekki lengi að kasta ófrávíkjanlegri kröfu sinni fyrir róða þegar hillti undir ríkisstjórnarmyndun – máttu sín þá lítils þeir sem biðu eftir efndum á loforðinu um 450.000 krónur skatta- og skerðingalaust í vasann.
Skýring formannsins þess efnis að flokkur hennar hefði því miður ekki náð 51% fylgi og því hefði farið sem fór um loforðið, sem greinilega var aldrei ætlunin að standa við, eldist ekki vel. Sagði Flokkur fólksins og formaðurinn bara eitthvað í aðdraganda kosninga í þeirri von að enginn kallaði blöffið?
Í viðtali eftir fyrsta ríkisstjórnarfundinn á dögunum lýsti formaður Orkunnar okkar, núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Eyjólfur Ármannsson, því yfir að hann myndi aldeilis greiða atkvæði með væntanlegu frumvarpi utanríkisráðherra þess efnis að innleiða bókun 35 með hætti sem samgönguráðherrann hafði áður sjálfur sagt ganga gegn stjórnarskrá Íslands. Ætli hann muni líka styðja innleiðingu fjórða orkupakka ESB sem er væntanlegur á líftíma ríkisstjórnarinnar? Allt falt fyrir hlýtt sæti við ríkisstjórnarborðið?
Nýr atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, sagði svo strandveiðar vera í algerum forgangi hjá sér á sama tíma og nýr fjármálaráðherra sömu ríkisstjórnar, Daði Már Kristófersson, hafði nýlega kveðið upp úr um að strandveiðar væru „efnahagsleg sóun“.
Nýr heilbrigðisráðherra, Alma Möller, virðist fá það verkefni fyrst í fangið að tukta til Ölmu Möller fyrrverandi landlækni vegna trakteringa embættisins í garð fyrirtækis á heilbrigðissviði. Það verður áhugavert.
Nýr dómsmálaráðherra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, fær svo að greiða úr máli sem snýr að gerræði fyrrverandi yfirmanns hennar, ríkissaksóknara, í garð vararíkissaksóknara.
Þingflokkur Miðflokksins er tilbúinn við rásmarkið þegar þing verður kallað saman á ný – áfram Ísland!
Höfundur er þingmaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is