Ríkisstjórn fyrir RÚV

Skýrsla Viðskiptaráðs þar sem umhverfi fjölmiðla á Íslandi er tekið fyrir, undir yfirskriftinni Afsakið hlé, er allrar athygli verð. Í henni er dregin upp dökk mynd af stöðu einkarekinna fjölmiðla sem finna sig í harðri samkeppni við Ríkisútvarpið ohf. Þegar ríkisstjórnin kallaði eftir tillögum til hagræðingar frá almenningi í byrjun árs lögðu mjög margir til að umsvif Ríkisútvarpsins yrðu dregin verulega saman eða jafnvel hætt með öllu.

Það vakti því nokkra furðu að í engu væri vikið að umfangi Ríkisútvarpsins í hagræðingartillögum sem ríkisstjórnin kynnti í liðinni viku, sem síðan reyndust ekki tillögur ríkisstjórnarinnar, heldur eitthvað annað. Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram með lausn síðustu ára þegar kemur að umhverfi fjölmiðlanna – ríkislausnina.

Áfram skal veita nokkur hundruð milljónum til fjölmiðlanna árlega, plástur sem átti í upphafi að vera einskiptisaðgerð á meðan stjórnvöld formuðu raunverulegar tillögur sem gætu orðið til raunverulegs gagns, en hér erum við enn og ekki sér til lands. Og einkareknu fjölmiðlarnir komnir að fótum fram. Það gat auðvitað aldrei orðið varanleg lausn að setja alla fjölmiðla landsins á styrk frá hinu opinbera – styrk sem nú blasir við að er undirorpinn því að fjölmiðill flytji ekki óþægilegar fréttir um ríkisstjórnina.

Ein valkyrjanna hefði í annan tíma kallað það spillingu með stóru S-i ef nefndarformaður í ríkisstjórn hefði látið þau orð falla að draga þyrfti úr stuðningi við tiltekinn fjölmiðil í ljósi fréttaflutnings hans. En það er ekki sama Jón og séra Jón þar á bæ. Ef allt væri eðlilegt hefði þessi uppákoma gert það útilokað fyrir ráðherra að leggja til að draga úr fjárframlagi til tiltekinna fjölmiðla og verða þannig við beinni kröfu þingmanns Flokks fólksins. En margt er sérstakt í veröldinni á Sælandi og hvorki ráðherrann, Logi Einarsson, eða nefndarformaðurinn, Sigurjón Þórðarson, blikka auga.

En aftur að tillögum Viðskiptaráðs. Þar er lagt til að taka RÚV af auglýsingamarkaði, að samkeppnissjóður verði stofnaður til stuðnings innlendri dagskrárgerð, að bann við tilteknum auglýsingum verði aflagt og að Fjölmiðlanefnd verði lögð niður. Þessu til viðbótar getur ráðherrann valið að samþykkja mál okkar Miðflokksmanna á þingi, en við höfum aftur lagt til að einstaklingum verði heimilað að ráðstafa hluta útvarpsgjaldsins til fjölmiðils að eigin vali á skattskýrslu hvers árs.

Á endanum blasir við að vilji er allt sem þarf, í þessu eins og svo mörgu öðru. Nýbirtar hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar benda þó ekki til annars en að umbúðirnar ráði för og enginn sé viljinn til að ráðast að rót vandans í ríkisrekstrinum. Áfram skal plástra og klappa RÚV á kostnað frjálsrar fjölmiðlunar og skattgreiðenda.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. mars 2025.