Menntamál
Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenska sé í forgrunni hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum og að samfélagið taki saman höndum um eflingu íslensku.
Standa þarf vörð um tjáningarfrelsið sem er hornsteinn lýðræðisins.
Íslenskukennsla barna og unglinga verði efld.
Miðflokkurinn vill tryggja gæðamenntun fyrir alla nemendur.
Áhersla skal lögð á að nauðsynleg stoðþjónusta verði aðgengileg kennurum, foreldrum og nemendum. Styrkja þarf samvinnu milli allra skólastiga og kalla til samstarf hins opinbera og einkaaðila í þeim efnum.
Styrkja þarf stöðu allra einstaklinga í skólaumhverfinu svo að sérstaða hvers og eins fái notið sín þ.m.t. þau börn sem skara fram úr. Skoða þarf allar aðferðir til að bæta árangur í menntakerfinu m.a. með því að skoða skóla með aðgreiningu. Sérstaklega þarf að horfa til stöðu drengja í skólakerfinu. Jafna þarf kynjahlutfall innan kennarastéttar.
Stórefla ber verknám með samhentu átaki einka- og opinberra aðila og verja löggildingu iðngreina.
Skólum ber að tryggja öllum nemendum félagslegt, andlegt og líkamlegt öryggi á skólatíma.
Tryggja þarf öguð vinnubrögð í skólastarfi.
Skoða þarf árangur og áhrif af styttingu framhaldsskóla.
Einkunnagjöf í skólum verði gerð einföld og gagnsæ t.d. með því að hverfa aftur til þess að nota tölustafi við einkunnagjöf.
Miðflokkurinn vill treysta grundvöll skapandi greina, menningar og hins ört vaxandi upplifunargeira þar sem skapaðar eru eftirminnilegar upplifanir fyrir viðskiptavini umfram það að bjóða einfaldlega vörur eða þjónustu.
Upplifunargeirinn er einn stærsti vaxtarbroddur atvinnulífs þjóðarinnar og af hugverkum er íslenska þjóðin þekktust meðal þjóða, allt frá miðöldum til vorra daga. Þessar greinar má treysta í sessi t.a.m. með hagfelldu stoðkerfi og hvetjandi skattaumhverfi.