Var þá ekkert plan?
Eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar er að efna til samráðs við almenning um aðhald í ríkisrekstri undir yfirskriftinni „Verum hagsýn í rekstri ríkisins“. Þetta er svo sem ekki nýtt, Miðflokkurinn kallaði eftir reynslusögum af…
Eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar er að efna til samráðs við almenning um aðhald í ríkisrekstri undir yfirskriftinni „Verum hagsýn í rekstri ríkisins“.
Þetta er svo sem ekki nýtt, Miðflokkurinn kallaði eftir reynslusögum af bákninu á fyrsta kjörtímabili sínu á þingi, skömmu áður en covid-faraldurinn gekk í garð og stjórnmálunum var kippt úr sambandi og stöku þingmenn hafa viðhaft svipaða nálgun af og til.
Það kemur vonandi eitthvað gott út úr þessu, en líkurnar á því hefðu aukist ef stjórnarflokkarnir hefðu lagt einhverjar línur sjálfir. Hvað er ríkisstjórnin að hugsa í þessum efnum? Hvert er planið? Almenningur á engan möguleika á að kafa ofan í ranghala þeirrar óráðsíu og sóunar sem víða hefur grafið um sig hjá hinu opinbera.
Þess vegna er hætt við að þetta verði yfirborðskenndara en æskilegt væri, ef markmiðið var raunverulega að ná árangri með þessu útspili.
Það er eitt og annað áhugavert sem þegar er komið fram. Þegar þessi pistill er skrifaður hafa um 2.000 tillögur verið sendar inn, en því miður er helmingur þeirra falinn. „Umsagnaraðili hefur valið að sýna ekki umsögn sína,“ stendur í annarri hverri línu. Væri ekki rétt að bjóða fólki nafnleynd og að umsögnin væri þá sýnileg? Þá mun blasa við hvað hefur farið beint í tætarann þegar verkefnið er gert upp.
Það er eitt og annað kunnuglegt og fyrirsjáanlegt í þeim tillögum sem sýnilegar eru.
Í nokkrum tugum tillagna er lagt til að RÚV verði lagt niður eða umfang þess minnkað. Hátt í 40 leggja til að áform um borgarlínu verði aflögð eða endurskoðuð. Svipaður fjöldi leggur til fækkun aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórnar. Tugir leggja til að fjáraustur í loftslagskirkjuna verði aflagður og í á sjöunda tug ábendinga eru hornin rekin í sendiráðin og rekstur þeirra.
En það er minna um að farið sé á dýptina, þar sem stóru kostnaðarliðirnir liggja. Auðvitað eiga þeir sem stjórna að líta til með því sem næst þeim stendur, en stóru tækifærin til hagræðingar liggja í dýrustu kerfunum okkar. Í heilbrigðismálunum, félagslega stuðningskerfinu, menntakerfinu og svo mætti áfram telja.
Það kafar enginn af viti ofan í þá málaflokka nema sá sem hefur aðgengi að öllum upplýsingum, það hefur almenningur ekki. Í því samhengi er rétt að minna á tillögur Miðflokksins í aðdraganda kosninga, þar sem sú stefna var sett fram að fá utanaðkomandi aðila tímabundið inn í kerfið, sem þá væru þá eins konar „hagræðingarkeisarar“, með aðgengi að öllum upplýsingum og kröfu á sér um að snúa við hverjum steini.
Það er nefnilega ekki líklegt að þeir sem bjuggu til kerfin séu líklegastir til að vinda ofan af vitleysunni og sóuninni þar sem hana er að finna.
Höfundur er þingmaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is