Umfang og eðli hælisleitendamála

Eng­inn ætti að mæta til Íslands til að sækja um hæli. Geri menn það skal þeim strax vísað aft­ur til þeirra ör­uggu landa sem þeir komu í gegn­um.

Á und­an­förn­um árum hef­ur mann­fjöldi á Íslandi auk­ist hraðar en nokkru sinni áður í sögu lands­ins. Íslend­ing­um hef­ur þó lítið fjölgað, raun­ar allt of lítið. Viðbót­in hef­ur fyrst og fremst orðið með flutn­ingi er­lendra rík­is­borg­ara til lands­ins.

Þessu hef­ur fylgt gríðarlegt aukið álag á innviði lands­ins á skömm­um tíma. Hvort sem litið er til heil­brigðis­kerf­is­ins, mennta­mála, lög­gæslu, hús­næðismarkaðar eða ótal annarra þátta hef­ur mik­il­væg­asta þjón­usta sam­fé­lags­ins orðið fyr­ir gríðarlegu raski. Þótt beinn ár­leg­ur kostnaður við ut­an­um­hald hæl­is­leit­enda­kerf­is­ins nemi hátt í 30 millj­örðum króna er kostnaður­inn sem fylg­ir svo miklu auknu álagi á lítið sam­fé­lag miklu meiri.

Þá eru ekki tal­in lang­tíma­áhrif­in af því ef sam­fé­lag sundr­ast og glat­ar því sem sam­ein­ar það. Slíkt tjón er ómæl­an­legt í pen­ing­um og verður aldrei bætt.

Hraðar breyt­ing­ar

Allt er þetta sér­stakt áhyggju­efni og krefst mik­ill­ar var­færni þegar þjóðin sem á í hlut er agn­arsmá. Þá geta stór­ar breyt­ing­ar gerst mjög hratt. Á ör­fá­um síðastliðnum árum meira en tvö­faldaðist fjöldi og hlut­fall inn­flytj­enda í land­inu (þá eru ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar af er­lend­um upp­runa ekki meðtald­ir). Skyndi­lega er hlut­fallið hér orðið það sama og í Svíþjóð.

Á árs­tíma­bili frá 2022-2023 fjölgaði er­lend­um rík­is­borg­ur­um í land­inu um 15,6 fyr­ir hvern einn Íslend­ing sem bætt­ist við. Miðað við þá þróun hefðu Íslend­ing­ar lent í minni­hluta í land­inu á u.þ.b. 15 árum. Á ár­inu sem nú er að líða verður straum­ur­inn sá þriðji mesti í sög­unni. Sé miðað við það bæt­ist dá­lít­ill tími við en niðurstaðan verður sú sama.

Sömu stjórn­völd og hafa fylgst með þró­un­inni nán­ast aðgerðalaus og stund­um ýtt und­ir hana halda því nú fram að þetta sé ekki leng­ur áhyggju­efni því tals­verð fækk­un hafi orðið milli ára. Það að halda slíku fram ber fyrst og fremst vott um hversu blind­ir menn eru orðnir á ástandið. Land sem ára­tug­um sam­an tók á móti að meðaltali 24 flótta­mönn­um á ári og vildi gera það vel þolir ekki mörg hundruð, hvað þá þúsund­ir ár­lega.

Hver var breyt­ing­in?

Sú fækk­un sem varð kom fyrst og fremst til af því að úr­sk­urðar­nefnd út­lend­inga­mála breytti niður­stöðu sinni varðandi Venesúela. Lög­in eru þó óbreytt og hvenær sem er gæti verið tek­in ákvörðun um að all­ir sem koma frá til­tekn­um lönd­um (sem mörg eru ekki síður illa stödd en mun fjöl­menn­ari en Venesúela) eigi rétt á hæli á Íslandi.

Einnig hafði það mik­il áhrif að lög­reglu­stjór­inn á Suður­nesj­um ákvað að eig­in frum­kvæði að grípa í taum­ana og hefja brott­vís­an­ir á landa­mær­un­um. Það sem af er ári hafði 724 verið brott­vísað við landa­mær­in síðast þegar töl­ur birt­ust. En nú hef­ur það spurst hratt út að ef þeir sem eru stöðvaðir biðja um hæli fara þeir inn í óhemju þungt og dýrt hæl­is­leit­enda­kerfi með allri þeirri þjón­ustu, aðstoð og áfrýj­unar­úr­ræðum sem hið óraun­hæfa ís­lenska kerfi býður upp á.

Vissu­lega eru ekki all­ir sem sótt hafa um land­vist hæl­is­leit­end­ur. Hlut­fallið er þó miklu hærra en rang­lega hef­ur verið haldið fram í stjórn­má­laum­ræðu að und­an­förnu. Árið 2022 fjölgaði íbú­um lands­ins um 8.670. Það ár sóttu 4.520 um hæli á Íslandi. Árið 2023 fjölgaði um 6.790. Það ár voru hæl­is­um­sækj­end­ur 4.164.

Hverj­ir koma?

Evr­ópu­lög­regl­an áætl­ar að a.m.k. 95% þeirra sem koma til álf­unn­ar í leit að hæli geri það á veg­um glæpa­sam­taka sem smygla fólki til álf­unn­ar. Það fólk hef­ur yf­ir­leitt greitt háar upp­hæðir (oft um 10.000 evr­ur) eða sett sig í skuld við smygl­ar­ana til að kaupa vænt­ing­ar um betra líf í nýju landi.

Ísland er orðið sölu­vara glæpa­gengja. Á sama tíma og önn­ur nor­ræn lönd hafa keppst við að verða síður aðlaðandi kost­ur fyr­ir þá sem skipu­leggja fólks­flutn­inga hef­ur Ísland farið í þver­öfuga átt. Enda hlut­fall um­sókna orðið lang­mest hér á landi. Ekki alls fyr­ir löngu komu fleiri ein­stak­ling­ar til Íslands að sækja um hæli en til Dan­merk­ur.

Þetta er ótrú­leg breyt­ing frá því sem var fyr­ir fá­ein­um árum þegar það heyrði til und­an­tekn­inga að fólk kæmi alla leið til Íslands til að sækja um hæli. Nú er fólk hins veg­ar farið að leita til Íslands jafn­vel eft­ir að hafa fengið hæli í öðrum lönd­um.

Á meðan önn­ur Evr­ópu­lönd víkja frá viðmiðum Schengen-samn­ings­ins til að verja landa­mæri sín og hafa stjórn á því hverj­ir koma til lands­ins virðast ís­lensk stjórn­völd hik­andi við að gera slíkt hið sama þótt aðstæður og til­efni til þess séu hvergi meiri.

Af­leiðing­arn­ar

Allt ger­ir þetta okk­ur ókleift að vernda vel­ferðar­kerfið og sam­fé­lagið og láta það virka sem skyldi. En það ger­ir okk­ur líka ókleift að nýta þau úrræði sem við höf­um til að hjálpa marg­falt fleir­um og þá fyrst og fremst þeim sem eru í mestri neyð. Það ger­um við aðeins með því að hafa stjórn á því hverj­um boðið er til lands­ins. Þannig get­um við líka aukið aðstoð á nærsvæðunum þar sem hjálpa má allt að hundraðfalt fleir­um fyr­ir sama fjár­magn og fer í mót­töku hér.

Meðal þeirra sem hafa gert sér grein fyr­ir þessu eru jafnaðar­menn í Dan­mörku. Eft­ir 40 ár af mis­tök­um gerði flokk­ur­inn sér grein fyr­ir því að reynsl­an kallaði á gjör­breytta stefnu. Ólíkt öðrum flokk­um á Íslandi hef­ur Miðflokk­ur­inn lært af reynslu ná­grannaþjóðanna og ekki hvað síst stefnu dönsku krat­anna.

Stefn­an

Eng­inn ætti að mæta til Íslands til að sækja um hæli. Geri menn það skal þeim strax vísað aft­ur til þeirra ör­uggu landa sem þeir komu í gegn­um. Ólíkt mörg­um Evr­ópuþjóðum höf­um við litla þörf fyr­ir að senda fólk í mót­töku­stöðvar utan álf­unn­ar. Eng­inn kem­ur til Íslands öðru­vísi en að hafa farið í gegn­um önn­ur ör­ugg lönd og því beit­um við ein­fald­lega rétti okk­ar gagn­vart m.a. Dyfl­inn­arsátt­mál­an­um og mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.

Flug­fé­lög skulu skila farþegalist­um í sam­ræmi við lög og regl­ur, ella fljúga þau ekki til Íslands.

Þeir sem „týna“ skil­ríkj­um á leiðinni skulu fara strax til baka með næsta flugi á ábyrgð flug­fé­lags­ins.

Þetta eitt og sér fer lang­leiðina með að leysa vand­ann og gera okk­ur kleift að ná stjórn en fleira þarf þá að fylgja og enn er litið til dönsku krat­anna:

Þeir sem vilja verða hluti af sam­fé­lag­inu þurfa að sýna vilja til að aðlag­ast. Fremji þeir al­var­leg brot eða brjóti ít­rekað af sér skal þeim vísað úr landi.

Full­ur aðgang­ur að vel­ferðar­kerf­inu fæst ekki nema með a.m.k. sömu kvöðum og lagðar hafa verið á Íslend­inga sem búið hafa lengi er­lend­is og flytja heim.

Þeir sem sækja um ís­lensk­an rík­is­borg­ara­rétt þurfa að sýna fram á grunnþekk­ingu á ís­lenskri tungu og sam­fé­lag­inu.

Nú er ög­ur­stund

Miðflokk­ur­inn hef­ur lengi bent á í hvað stefndi og oft fengið bágt fyr­ir. Oft­ar en ekki var reynt að þagga niður umræðuna með því að kasta fram verstu stimpl­um sem hægt var að finna til að hræða fólk frá umræðunni. Við lét­um það ekki stoppa okk­ur því við erum ekki í þessu til að elta tíðarand­ann held­ur til að berj­ast fyr­ir því sem við trú­um að sé rétt.

Aðrir flokk­ar hafa að und­an­förnu þóst hafa öðlast meðvit­und um ástandið þótt þeir virðist nú smeyk­ir við að ræða málið af nokk­urri al­vöru í kosn­inga­bar­átt­unni.

Hvort sem fólki lík­ar það bet­ur eða verr þarf að leiða þessi mál til lykta í kom­andi kosn­ing­um. Þessu verður ekki skotið á frest því áfram­hald­andi mis­tök á þessu sviði verða aldrei tek­in aft­ur. 1150 ára saga og öll framtíð þessa litla sam­fé­lags er und­ir.

Höf­und­ur er formaður Miðflokks­ins.