Það sem brennur á – Groundhog day

Í liðinni viku var svokölluð kjördæmavika, slíkar er tvisvar á ár og nýta þingmenn tímann til að líta til með kjördæmum sínum eða eftir atvikum heimsækja önnur en sín eigin.

Kjördæmavika að hausti er iðulega nýtt til að hitta sveitarstjórnir en vikan á vorþingi er alla jafna frjálsari.

Það voru uppi sjónarmið um að mögulega væri óþarfi að gefa þetta svigrúm núna á vorþingi enda þingmenn nýkomnir úr kosningabaráttu, en eftir á að hyggja, þá var gott að taktinum var haldið, enda fátt mikilvægra mála komin inn til þingsins sem tefðust umfram það sem annars hefði orðið.

Tilfinning endurtekningar, Groundhog day, eins og það hét í kvikmyndinni sem Bill Murray gerði ógleymanlega forðum, er kannski það sem helst er svekkjandi í kjördæmavikum.

En af hverju allar þessar endurtekningar? Af hverju eru hlutir ekki bara lagaðir?

Það er ekki nýtt að litlir atvinnurekendur kveinki sér undan því að regluverk sé orðið með þeim hætti að eingöngur stórfyrirtæki ráði við kröfurnar.

Það er ekki nýtt að eftirlitsiðnaðurinn hafi á mörgum sviðum fyrir löngu keyrt um þverbak gagnvart þeirri starfsemi sem mest finnur fyrir.

Umkvartanir yfir því að gjöldum sé breytt, yfirleitt til hækkunar, löngu eftir að fyrirtæki hafa gert samninga á grundvelli eldri gjaldskrár, þannig að kostnaðurinn af gjalda og skattahækkunum verður bara borinn af þeim fyrirtækjum sem verða fyrir barðinu á bandormi desembermánaðar hverju sinni.

Og hvers vegna þarf kerfið, báknið, að vera svona flókið og stórt, hægfara og á köflum mótdrægt þeim hagsmunum sem það á að þjóna?

Ríkissjóður hefur fjárfest miklum fjármunum í að stafvæða Ísland, allt ætti það að vera til bóta, en einhverra hluta vegna vex báknið og flækjustigið jafnt og þétt.

Það sem vinnst með nútímavæðingu tapast annars staðar. Oft með einhverri dellu innleiðingu sem dettur af færibandinu frá Brussel sem hefur svo í þokkabót verið gullhúðað hér heimafyrir. Að því er virðist aðalega til að tryggja að við séum kaþólskari en páfinn þegar kemur að innleiðingu Brussel regluverksins.

Þeim sem við þingmenn Miðflokksins hittum í vikunni er eðlilega fyrirmunað að skilja hversu erfiðlega gengur að vinda ofan af gullhúðunar-mistökum fyrri ára.

Venjulegt fólk spyr: þarf ekki bara að taka einfalda ákvörðun um að vinda ofan af ruglinu og þá verður það gert? Maður skyldi ætla það. Svo mæta raunheimar og segja annað.

Það er þó til bóta að enginn nefndi hamfarahlýnun einu orði, en skiljanlega pirruðu sig sumir á kynlausu klósettunum og margir á áföstu plasttöppunum. Eðlilega.

Að endingu vil ég óska nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins til hamingju með kjörið, það verður í mörg horn að líta á næstunni.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. mars 2025