
Sýndarsamráð og EBS-aðlögun
Framganga stjórnarliða, með ráðherra Viðreisnar í fararbroddi, hefur verið brött í veiðigjaldamálinu.
Þegar atvinnuvegaráðherra birti drög að frumvarpi um breytingar á veiðigjaldinu svokallaða í samráðsgátt stjórnvalda, þann 25. mars, gaf hann 7 virka daga í umsagnarfrest. Ráðherrann virðist hafa gleymt samþykkt ríkisstjórnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna þar sem segir:
„Hæfilegur frestur skal gefinn til athugasemda, að minnsta kosti tvær til fjórar vikur.“
og síðar segir:
„Ákvörðun um takmarkað eða ekkert samráð við almenning og hagsmunaaðila um drög að frumvarpi eða þingsályktunartillögu skal ráðherra rökstyðja í greinargerð með frumvarpi eða þingsályktunartillögu.“
Engan slíkan rökstuðning er að finna í frumvarpinu og verður því vart ályktað annað en að ráðherra hafi bara ekki þótt henta að fara eftir samþykkt ríkisstjórnarinnar um verklag gagnvart samráðsgátt. Ráðherrann verður að útskýra þá ákvörðun sína við hentugleika.
Ára sýndarsamráðs var því yfir málinu alveg frá fyrsta degi. Ekki dró úr henni að ráðherrann lýsti því strax yfir að frumvarpið yrði klárað á vorþinginu. Engir varnaglar voru slegnir. Virtist einu gilda hvað kæmi fram í því samráði sem þá var yfirstandandi.
Til að fylgja þessu eftir mætti fjármálaráðherra, Daði Már Kristófersson, í Bítið á Bylgjunni 2.apríl og svaraði þar spurningu Heimis Karlssonar um hvort einhverju verði breytt hvað frumvarpið varðar með skýrum og venju fremur heiðarlegum hætti, þegar hann neitaði því.
Nánar tiltekið voru samskiptin svona:
HK: ég meina; verður einhverju breytt? Það heyrist mikið, ekki bara frá útgerðunum heldur sveitarfélögum hringinn í kringum landið.
DMK: Já, það gerir það (mæðulega).
HK: Mætist þið einhversstaðar á miðri leið?
DMK: NEI.
HK: Ætlið þið að halda ykkur við þetta?
DMK: Hvað ætlaður að gera annað?
En hvers vegna þessi asi? Hvers vegna þessi hroðvirknislegu vinnubrögð, þar sem sveitarfélög sem eru beðin um umsögn fá ekki umbeðin gögn. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sem virðist hafa verið eini aðilinn sem eitthvað var talað við í aðdraganda birtingar frumvarpsdraganna, fær ekki afhent gögn sem samtökin óska eftir til að grunda umsögn sína og áfram mætti telja.
Getur verið að ríkisstjórninni sé ekki sárt um að sjávarútvegurinn, þessi meginstoð íslensks efnahagslífs, verði svolítið veikari en annars væri misserin fram undan og vegna þess mögulega leiðitamari í aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu sem nýja þríeykið er svo áhugasamt að ganga til?
Við sjáum hvað setur.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. apríl 2025