Leiðin til að lækka verðbólgu hratt

Að und­an­förnu hafa ýms­ir flokk­ar fjallað um mik­il­vægi þess að hemja verðbólg­una enda er há verðbólga afar skaðleg fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki lands­ins og held­ur aft­ur af upp­bygg­ingu og fram­förum.

Flokk­ar sem aðhyll­ast aðild að Evr­ópu­sam­band­inu vilja taka á verðbólgu með því að ganga í ESB og taka svo upp evru. Þeir sem hafa ekki verið sof­andi fyr­ir þróun hnign­un­ar­sam­bands Evr­ópu á und­an­förnu árum og ára­tug­um vita að aðild að sam­band­inu trygg­ir ekki batn­andi lífs­kjör held­ur þvert á móti.

En jafn­vel þótt við lít­um fram­hjá hnign­andi kjör­um íbúa í ESB-lönd­un­um má öll­um vera ljóst að aðild­ar­ferli og svo upp­taka evru tæki aldrei minna en ára­tug og áður en heim­ild feng­ist til að taka upp gjald­miðil­inn þyrfti að vera búið upp­fylla ýmis skil­yrði, þ.m.t. að ná niður verðbólgu (ýmis ESB-lönd bíða enn).

Við höf­um búið við viðvar­andi verðbólgu og þurf­um á því að halda að verðbólga og þar með vext­ir lækki strax. Við þess­ar aðstæður væri af­leitt að flokk­ar næðu að teyma lands­menn út í fúa­mýri með villu­ljós­um.

Það er nefni­lega til skil­virk leið til að ná niður verðbólgu strax og halda henni svo inn­an eðli­legra marka. Það vit­um við því það hef­ur verið gert áður.

Þegar ný rík­is­stjórn tók við árið 2013 ein­setti hún sér að leggja fram halla­laus fjár­lög. Það töld­um við nauðsyn­legt til að senda strax út skila­boð um að kom­in væri rík­is­stjórn sem myndi taka efna­hags­mál­in föst­um tök­um. Þetta var áður en Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og sam­starfs­flokk­ar tóku að slá öll met í rík­is­út­gjöld­um.

Útlitið var dökkt, hall­inn árið áður hafði verið marg­falt meiri en áætlað var og mjög stór viðbótar­út­gjöld biðu næsta árs.

Mark­miðið um fyrstu halla­lausu fjár­lög í sex ár var því erfitt og aðeins reiknað með af­gangi upp á um 0,7 millj­arða á nú­v­irði. Á sama tíma boðaði stjórn­in skatta­lækk­an­ir, auk­inn hag­vöxt, aukn­ar ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­ila og hærri vaxta- og barna­bæt­ur. Frí­tekju­mark fjár­magn­s­tekju­skatts var hækkað, fram­lög til elli- og ör­orku­líf­eyr­isþega voru hækkuð, trygg­inga­gjald var lækkað og þannig mætti lengi telja.

Verðbólga hafði lækkað við niður­stöðu kosn­ing­anna og þegar halla­laus fjár­lög tóku gildi 1. jan. 2014 var ár­sverðbólg­an kom­in niður í 3,1%. Ári síðar var hún 0,8%.

Þegar árið var gert upp nam af­gang­ur af rekstri rík­is­sjóðs yfir 70 millj­örðum króna (að nú­v­irði), nærri hundraðföldu því sem lagt var upp með og niður­greiðsla skulda hófst.

Mik­il­vægi þess að ný rík­is­stjórn nái strax tök­um á rekstri rík­is­ins felst í því að slíkt mun um­svifa­laust hafa mik­il áhrif á efna­hags­líf lands­ins, ekki hvað síst verðbólgu. Þegar stjórn­völd taka af skarið og sýna að þau séu með áætl­un og muni sýna festu hef­ur það strax áhrif. Það sýn­ir reynsl­an.

Höf­und­ur er formaður Miðflokks­ins.

Höf­und­ur: Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son