Leiðin til að lækka verðbólgu hratt
Að undanförnu hafa ýmsir flokkar fjallað um mikilvægi þess að hemja verðbólguna enda er há verðbólga afar skaðleg fyrir heimili og fyrirtæki landsins og heldur aftur af uppbyggingu og framförum.
Flokkar sem aðhyllast aðild að Evrópusambandinu vilja taka á verðbólgu með því að ganga í ESB og taka svo upp evru. Þeir sem hafa ekki verið sofandi fyrir þróun hnignunarsambands Evrópu á undanförnu árum og áratugum vita að aðild að sambandinu tryggir ekki batnandi lífskjör heldur þvert á móti.
En jafnvel þótt við lítum framhjá hnignandi kjörum íbúa í ESB-löndunum má öllum vera ljóst að aðildarferli og svo upptaka evru tæki aldrei minna en áratug og áður en heimild fengist til að taka upp gjaldmiðilinn þyrfti að vera búið uppfylla ýmis skilyrði, þ.m.t. að ná niður verðbólgu (ýmis ESB-lönd bíða enn).
Við höfum búið við viðvarandi verðbólgu og þurfum á því að halda að verðbólga og þar með vextir lækki strax. Við þessar aðstæður væri afleitt að flokkar næðu að teyma landsmenn út í fúamýri með villuljósum.
Það er nefnilega til skilvirk leið til að ná niður verðbólgu strax og halda henni svo innan eðlilegra marka. Það vitum við því það hefur verið gert áður.
Þegar ný ríkisstjórn tók við árið 2013 einsetti hún sér að leggja fram hallalaus fjárlög. Það töldum við nauðsynlegt til að senda strax út skilaboð um að komin væri ríkisstjórn sem myndi taka efnahagsmálin föstum tökum. Þetta var áður en Sjálfstæðisflokkurinn og samstarfsflokkar tóku að slá öll met í ríkisútgjöldum.
Útlitið var dökkt, hallinn árið áður hafði verið margfalt meiri en áætlað var og mjög stór viðbótarútgjöld biðu næsta árs.
Markmiðið um fyrstu hallalausu fjárlög í sex ár var því erfitt og aðeins reiknað með afgangi upp á um 0,7 milljarða á núvirði. Á sama tíma boðaði stjórnin skattalækkanir, aukinn hagvöxt, auknar ráðstöfunartekjur heimila og hærri vaxta- og barnabætur. Frítekjumark fjármagnstekjuskatts var hækkað, framlög til elli- og örorkulífeyrisþega voru hækkuð, tryggingagjald var lækkað og þannig mætti lengi telja.
Verðbólga hafði lækkað við niðurstöðu kosninganna og þegar hallalaus fjárlög tóku gildi 1. jan. 2014 var ársverðbólgan komin niður í 3,1%. Ári síðar var hún 0,8%.
Þegar árið var gert upp nam afgangur af rekstri ríkissjóðs yfir 70 milljörðum króna (að núvirði), nærri hundraðföldu því sem lagt var upp með og niðurgreiðsla skulda hófst.
Mikilvægi þess að ný ríkisstjórn nái strax tökum á rekstri ríkisins felst í því að slíkt mun umsvifalaust hafa mikil áhrif á efnahagslíf landsins, ekki hvað síst verðbólgu. Þegar stjórnvöld taka af skarið og sýna að þau séu með áætlun og muni sýna festu hefur það strax áhrif. Það sýnir reynslan.
Höfundur er formaður Miðflokksins.
Höfundur: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson