Guð blessi Ísland!
Verður ákvörðunum um líf okkar og kjör hér eftir fleygt beint í fang Evrópuskriffinna í Brussel?
„Ísland í A-flokk“ var vígorð kosningaherferðar Alþýðuflokksins 1991 sem fylgdi í kjölfar herferðarinnar „18 rauðar rósir“ 1987. Ísland í A-flokk speglaði einbeittan vilja flokksins, forystu hans og fylgjenda til að leiða Ísland á vit Evrópska efnahagssvæðisins, í A-flokk meðal þjóða, sem gekk jú eftir.
Þar sem sá er þetta ritar ber nokkra ábyrgð á fyrrnefndum herferðum hefur upprifjun alls þessa til skamms tíma verið blandin nokkru stolti. Þá ekki síður þátttakan í því starfi sem leiddi til þessara tímamóta með tilheyrandi ábata, sem á þeim tíma var fyrst og fremst mældur í svonefndu „fjórfrelsi“ en þó ekki síður í niðurfellingu tolla á íslenskar sjávarafurðir er leiða myndu til umtalsverðrar hækkunar á arðsemi þjóðarbúsins. Aðgangur að evrópskum styrkjakerfum fól einnig í sér ný tækifæri og sitthvað fleira.
Allt fór það vel af stað, þótt snemma tæki að orka tvímælis hvort hin nýfrjálsa íslenska þjóð hefði, aðeins hálfri öld frá lýðveldisstofnun, megnað að þróa með sér nægjanlegan þroska og ábyrgðarkennd til að fóta sig þokkalega á nýju svelli hins „fjórþætta frelsis“. Tæplega hálfum öðrum áratug síðar varð öllum ljóst að sú var alls ekki raunin.
Allnokkru áður en brast á með bankahruninu skelfilega 2008 blasti þó einnig við að hin aukna arðsemi þjóðarbúsins af tollaniðurfellingum sjávarafurða var ekki sú sem upp hafði verið lagt með. Íslensk útgerðarfélög höfðu nefnilega alfarið í hendi sér ákvörðun þeirra kostakjara á sjávarfanginu sem buðust þeirra eigin vinnslum innan lands og einkum þó utan. Þetta sjálfskipaða verðlagsfyrirkomulag hafði einnig veruleg áhrif á afkomutengd kjör sjómanna og þá ekki síst á afkomu eigenda sjálfrar auðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.
Um þetta hefur lengi verið deilt og verður enn um sinn.
Upp skyldi „dubbuð“ hin íslenska brúður
Eðlileg samhæfing regluverka og innleiðingar nýrra stofnana og viðmiða hafði þegar hafist fyrir hina formlegu inngöngu Íslands í EES árið 1994.
Nýfrjálsa eyríkið þurfti að snurfusa heilmikið til svo hæfa mætti viðmiðum og væntingum ríkjasambandsins stóra. Þessu mætti líkja við gerð hjónabandssáttmála þar sem kveðið er á um gagnkvæma trúmennsku, limaburð og leikreglur byggðar á áðurnefndri aðlögun.
Engan þeirra sem að þessu ferli komu af Íslands hálfu gat þó hafa grunað með hvaða hætti þetta „ástarsamband“ ætti eftir að þróast og hve einhliða sú þróun átti eftir að verða.
Frá ári til árs tók að fjölga tilskipunum frá höfuðstöðvum EES í Brussel sem og ófrávíkjanlegum kröfum um nýjar innleiðingar á stóru og smáu. Allt frá viðurkenndum skóstærðum að lögmætri lögun bjúgaldina.
Lítið, ef nokkuð, hefur borið á gagnkröfum héðan til Brussel.
Yfirburðir afkastamanna í útlöndum
Ólíku hefur verið saman að jafna undanfarin 30 ár, afrakstri 63 íslenskra alþingismanna með sína par hundruð aðstoðar- og starfsmenn og svo afköstum þeirra 720 þingmanna Evrópuþingsins sem eru með heila 30.000 ofvirka skriffinna á sínum snærum.
Árlega afgreiðir Alþingi og sendir frá sér 60-80 ný íslensk lög og ályktanir, á meðan heil 650 mál frá Brussel krefjast athygli okkar og tafarlausrar afgreiðslu. Hin lítt dulbúna undirliggjandi hótun er síðan að illt kynni af að hljótast ef „brúður er með múður“. Henni ber að vera þæg og undirgefin, en fyrst og fremst þakklát fyrir að fá að vera „memm“.
Yrði blautur draumur Viðreisnar og Samfylkingar að veruleika um inngöngu í sjálft Evrópusambandið, eins og nú kynni við að blasa að afloknum kosningum helgarinnar, myndi þessum 650 evrópsku tilskipunum á hverjum þingvetri fjölga í a.m.k. 2.100!
Sitjandi í nokkrum þingnefndum Alþingis hryllir mann óneitanlega við þeirri sívaxandi óbilgirni og Evrópufrekju sem nú þegar blasir við. Rúmleg þreföldun á því álagi myndi að líkindum kalla á umtalsverða fjölgun þingmanna hér á landi til að afgreiða mætti gegnum nefndir Alþingis slíkan málafjölda á ári hverju. Um kostnað við hverja innleiðingu þarf svo ekki að fjölyrða, en sé spurt um áþreifanlegan ábata fyrir okkur Íslendinga verður fátt um svör.
Viljum við þetta virkilega?
Skal búmannsvitinu víðfræga úr hinu gjaldþrota Ráðhúsi Reykjavíkur virkilega troðið ofan í okkur með þeim hætti sem skuggalegar skoðanakannanir gefa nú til kynna? Verður ákvörðunum um líf okkar og kjör hér eftir fleygt beint í fang Evrópuskriffinna í Brussel, í blindu trausti þess að þá verði okkur svo miklu betur borgið?
Uppgjafarorð Geirs H. Haarde úr hruninu eru þegar tekin að leiftra fyrir hugskotssjónum æði margra, mörkuð eldrauðum stöfum:
Guð blessi Ísland!
Höfundur er alþingismaður og skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norð