
Alvarleg staða íslenskrar tungu
Hæstvirtur forseti, hæstvirtir ráðherrar, háttvirtir þingmenn, ég saknaði þess í stefnuræðu hæstvirts forsætisráðherra á mánudag að ekki skyldi þar vera vikið einu orði að alvarlegri stöðu íslenskrar tungu í okkar daglega lífi.
Við finnum að hið opinbera mál okkar Íslendinga víkur á sífellt fleiri sviðum fyrir ensku. Mjög víða þykir enska raunar sjálfsagt mál, hvort sem það er í verslun og þjónustu eða jafnvel í enskumælandi ráðum í íslenskri stjórnsýslu. Hér á Íslandi hefur á undanförnum árum verið slegið heimsmet í lélegum árangri aðfluttra við að læra tungumálið í nýja heimalandinu.
Aðeins 18% hafa tileinkað sér tungumálið hér á meðan samanburðarlöndin státa flest af hátt í sextíu prósenta árangri í sama flokki. Á sama tíma hefur íbúasamsetning landsins gjörbreyst á rétt rúmum áratug með nær óheftum innflutningi vinnuafls, sem ég veit vel að flestir hér hafa sagt nauðsynlegan.
Ég held þó að fæstir geri sér grein fyrir umfangi þessara breytinganna. Nú er til dæmis svo komið að 38% landsmanna á aldrinum 30-39 ára eru með erlent ríkisfang, ef marka má samantekt stéttarfélagsins Visku. 38% íbúa á þessu aldursbili erlendir. Maður skyldi halda að svo róttæk breyting myndi vekja áhuga forsætisráðherra og annarra þingmanna í nýrri ríkisstjórn.
Jafnvel þannig að þeir færu að boða trúverðuga stefnu í stað vítaverðs stefnuleysis. Forseti, það er mikill heiður að vera kjörinn á Alþingi á þessum umbrotatímum um víða veröld. En um leið er ábyrgð okkar mikil. Hér mega okkur ekki verða á mistök, sem við getum ekki dregið til baka.
Snorri Másson
Jómfrúarræða flutt á Alþingi 12.02.25