
Æsingurinn og afleiddu áhrifin
Fyrir nokkrum vikum þótti mér blasa við að mesti pólitíski sjálfsskaðinn nú um stundir fælist í tjónabandi kryddpíanna við stjórn Reykjavíkurborgar.
Svo mætti atvinnuvegaráðherra með drög að nýjum reglum um útreikning veiðigjalda, að því er virðist svolítið fyrr en ráð hafði verið fyrir gert, sennilega til að taka kastljósið af öðrum óþægilegum málum hinnar samstiga ríkisstjórnar.
Við fyrsta lestur þótti mér skilningsleysið sem skein í gegn varðandi afleidd áhrif þess að hækka veiðigjöldin um 100% á einu bretti verst. Að betur athuguðu máli var þó skeytingarleysið verra.
Með skeytingarleysi á ég við að ráðherrarnir tveir sem kynntu málið, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra, höfðu ekki bara lent í þeirri stöðu að hafa ekki unnist tími til að framkvæma áhrifamat sem einhver burður var í, heldur virtist þeim vera sama um að það lægi ekki fyrir.
Það þarf enginn að velkjast í vafa um að fjármálaráðherra, með sinn bakgrunn, er ljóst að áhrifin af frumvarpinu eins og það liggur fyrir geta orðið fjölþætt og alvarleg.
Litlar og millistórar útgerðir sjá fram á aukinn þrýsting til samþjöppunar gangi breytingarnar eftir.
Fiskvinnslur, landið um kring, eru settar í rekstrarlegt uppnám.
Það er ráðgáta hvað veldur því að ríkisstjórnin leggur nú stein í götu áframhaldandi þróunar hvað varðar vel borguð störf, í atvinnugrein þar sem konur eru í meirihluta starfsmanna. Störf í fiskvinnslu eru nefnilega að jafnaði betur borguð en störf í mannvirkjagerð.
Sveitarfélög þar sem veiðar og vinnsla eru burðarásar í atvinnulífi sjá fótunum kippt undan hinu samfélagslega jafnvægi.
Þrátt fyrir að hlutur útsvarstekna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem kemur frá fiskveiðum og -vinnslu sé aðeins 1-2%, þá var sá hlutur 49% í Snæfellsbæ árið 2024, 44% í Langanesbyggð og 39% í Grundarfirði, svo dæmi séu tekin.
Að þessum tölum skoðuðum er í besta falli undarlegt að fyrirsvarsmenn ríkisstjórnarinnar taki því illa að veiðigjaldið – skatturinn sem það er – sé kallað landsbyggðarskattur. Auðvitað er hann ekkert annað með um 80% útgerðarinnar á landsbyggðinni.
Svo tekur steininn úr þegar stjórnarliðar segja veiðigjaldið ekki skatt, heldur eitthvað allt annað, þegar það stendur í frumvarpsdrögunum að „ágreiningslaust [sé] að veiðigjald er skattur í skilningi 40. og 77. greinar stjórnarskrárinnar“ og svo er vísað í hæstaréttardóma því til staðfestingar.
Ég hvet ríkisstjórnina til að stíga nokkur skref til baka. Vinna málið betur. Þetta verklag er ekki boðlegt gagnvart einum af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og því fólki og fyrirtækjum sem fyrir hann starfa.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31.03.25