Réttindi opinberra starfsmanna á Alþingi
Sigríður Ásthildur Andersen
Þessi yfirburðastaða opinberra starfsmanna gagnvart fólki á almennum vinnumarkaði er hvorki sanngjörn né eðlileg.
Árið 1995 var kynnt til sögunnar lagaákvæði sem tryggir rétt alþingismanna til leyfis frá störfum sem þeir gegna hjá hinu opinbera þegar þeir eru kjörnir til þings. Nokkru áður en þetta lagaákvæði tók gildi hafði verið afnumið úr stjórnarskrá ákvæði er kvað á um að embættismenn sem yrðu kosnir á þing þyrftu, án kostnaðar fyrir ríkissjóð að „annast um að embættisstörfum þeirra verði gegnt á þann hátt sem stjórnin telur nægja“. Sýnist sjónarmiðið hafa verið að mikilvæg embætti yrðu ekki ómönnuð og um leið að ríkissjóður hefði ekki kostnað af því að embættismaður hyrfi úr embætti á Alþingi. Af seinni tíma skýringu má ráða að ákvæðið hafi verið túlkað þannig að embættismaður ætti rétt á embættinu eftir að þingmennsku lyki. Embættismenn voru áður æviskipaðir.
Það ákvæði sem nú gildir, 4. gr. laga nr. 88/1995 um þingfararkaup, er afdráttarlaust um rétt alþingismanns á leyfi frá opinberu starfi í fimm ár og eftir það sérstakan rétt á forgangi að sambærilegri stöðu hjá hinu opinbera í allt að fimm ár. Samtals tíu ára réttindi.
Í athugasemdum með ákvæðinu eru þau rök ein tínd til að „eðlilegt þykir“ að alþingismaður geti fengið leyfi frá störfum hjá hinu opinbera og að „sanngjarnt“ sé að þingmaður sem verði að velja á milli opinbers starfs og þingmennsku hafi tryggingu fyrir því að fá sambærilegt starf hjá hinu opinbera í fimm ár eftir að hann afsalar sér því starfi sem hann var skipaður eða ráðinn í.
Af hverju þessi réttur teljist bæði eðlilegur og sanngjarn er ekki útskýrt frekar. Hins vegar er lögð áhersla á það í athugasemdunum að þessi tíu ára réttindi opinberra starfsmanna séu fráleitt fortakslaust takmörkuð við tíu ár heldur séu þetta „lágmarksréttindi“.
Hver sá sem hefur áhuga á að gefa kost á sér til opinberrar þátttöku í stjórnmálum stendur óhjákvæmilega frammi fyrir mati á alls konar hagsmunum. Fjölskylduaðstæður vega gjarnan þyngst og inn í þær fléttast, en standa líka sjálfstæð, sjónarmið um atvinnuöryggi.
Launþegi á almennum vinnumarkaði sem kjörinn er til þings gengur ekki að starfi sínu vísu eftir fjögur ár, hvað þá tíu ár. Ekkert fyrirtæki getur leyft sér slíka skuldbindingu þótt velviljað sé gagnvart þingmennskunni. Þá kemst enginn þingmaður hjá því að velta því fyrir sér hvort þingstörfin verði honum fjötur um fót á vinnumarkaði að þingferli loknum. Kunna þær vangaveltur jafnvel að marka þingstörf sumra. Þessi sjónarmið hafa án efa áhrif á ákvarðanir um þátttöku í stjórnmálum. Opinber starfsmaður, hvort heldur embættismaður eða starfsmaður á plani hjá ríki eða sveitarfélagi, þarf ekki að velta þessum hlutum fyrir sér. Starfsöryggið er algert.
Þessi yfirburðastaða opinberra starfsmanna gagnvart fólki á almennum vinnumarkaði er hvorki sanngjörn né eðlileg. Þennan aðstöðumun þarf að afnema og það er skynsamlegt að gera í upphafi kjörtímabils. Ég mun beita mér fyrir nauðsynlegri lagabreytingu.
Höfundur er þingmaður Miðflokksins.