Hvammsvirkjun og raunverulegur vilji Alþingis
Enn einn útúrdúr úr sögunni endalausu um Hvammsvirkjun var skrifaður í liðinni viku þegar dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að vilji löggjafans um að Umhverfisstofnun hafi heimild til að gera það sem henni er í raun ætlað að gera, í tengslum við leyfisveitingar vegna vantsaflsvirkjana, birtist ekki í umdeildu lagaákvæði „með eins skýrum hætti og æskilegt hefði verið“. Þannig felldi dómarinn framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun úr gildi.
Það er ekki annað hægt en að stoppa við þá afstöðu héraðsdómarans að vilji löggjafans komi ekki skýrt fram hvað varðar frekari áform um virkjun vatnsafls. Vísar dómarinn sérstaklega til orðalagsbreytingar sem gerð var í meðförum þingnefndar fyrri hluta árs 2011. Umrædd orðalagsbreyting var gerð í nefndaráliti sem þingmennirnir Birgir Ármannsson og Kristján Þór Júlíusson hjá Sjálfstæðisflokki og Vigdís Hauksdóttir þá hjá Framsóknarflokki skrifuðu undir. Það stenst auðvitað enga skynsemisskoðun að þessari breytingu í nefndaráliti þessara þingmanna hafi verið ætlað að teikna upp þann vilja löggjafans að þrengja þannig að virkjun vatnsafls hér á landi að ekki verði hægt að ráðast í neinar nýjar vatnsaflsvirkjanir.
Á sama tíma var her sérfræðinga að vinna að verndar- og nýtingaráætlun samkvæmt lögum þar um, eða rammaáætlun eins og það er kallað í daglegu tali. Hefði sú vinna verið í gangi ef vilji löggjafans væri raunverulega sá að loka fyrir frekari vatnsaflsvirkjanir? Nei, auðvitað ekki.
Svo hefur einnig komið fram að Umhverfisstofnun hafi í tvígang, hið minnsta, bent á að skynsamlegt væri að skerpa á lagaákvæðinu sem dómarinn telur nú ekki nógu skýrt. Það verður forvitnilegt að heyra hvers vegna það var ekki gert á sínum tíma. Það breytir því þó ekki að dómarinn virðist velja sér æði þröngt sjónarhorn þegar hann kemst að sinni niðurstöðu í málinu, svo þröngt að maður veltir óhjákvæmilega fyrir sér hvað búi þar að baki.
Staðan sem nú er uppi er í öllu falli ótæk. En það eru tvær leiðir færar sem höggva hratt á þennan hnút og tryggja hag landsmanna.
Annars vegar að ráðherra setji bráðabirgðalög þar sem vilji löggjafans um að virkja megi vatnsafl er gerður kýrskýr, á grundvelli 28. gr. stjórnarskrár sem Alþingi þarf þá að afgreiða innan sex vikna frá þingsetningu. Hins vegar að framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun verði einfaldlega gefið út með sérlögum sem yrðu lögð fram við þingsetningu.
Hvor leiðin sem verður fyrir valinu mun njóta stuðnings þingflokks Miðflokksins.
Velji ríkisstjórnin og ráðherra orkumála hins vegar að láta reka á reiðanum, þá er strax orðið ljóst að lítil vigt er í digurbarkalegum yfirlýsingum um stuðning við orkuöflun á næstu árum.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is