Orð bera ábyrgð
Einn af hornsteinum lýðræðisríkja er hið dýrmæta tjáningarfrelsi einstaklingsins sem leggur um leið þá kröfu á hann að bera ábyrgð á þeim orðum sem hann lætur falla. Það er að mörgu leyti grundvallarkrafa hvers samfélags að vera sjálfur sér samkvæmur, maður orða sinna.
Orðum stjórnmálamanna, sér í lagi í kosningabaráttu, fylgir ríkari ábyrgð þegar þau eru sett fram í búningi kosningaloforða til kjósenda. Eðli málsins samkvæmt vega orð stjórnmálamanna þungt, orð þeirra fyrir kosningar og efndir að kosningum loknum eiga að fara saman.
Kjósendum skal í það minnsta vera ljóst af málflutningi og gjörðum stjórnmálamanna sem eiga í hlut að þeir hafi ætlað sér að standa við loforð sín. Það er einfaldlega skýlaus krafa kjósenda, því um hvað var annars verið að kjósa? Jú, um það sem stjórnmálamenn sögðust ætla að gera að loknum kosningum.
Ákvörðunartaka kjósenda í lýðræðisríkjum er byggð á grunni upplýstrar og opinnar umræðu um hvaða hagsmuni og gildi stjórnmálamenn ætla að standa vörð um. Af því leiðir að orð sem eru eingöngu sögð í hita leiksins, en var aldrei ætlað að verða að einhverju stærra, eru þess valdandi að grafa undan trúverðugleika og rótum lýðræðisins. Skömm stjórnmálamanna er slíkt athæfi stunda er mikil.
Það felst í lýðræðisrétti kjósenda að geta tekið upplýsta ákvörðun sem er byggð á orðum og loforðum stjórnmálamanna. Kjósendur eiga að geta treyst því að stjórnmálamenn geri það sem þeir segjast ætla að gera og leggi fram raunhæf loforð sem vænta má að hægt sé að uppfylla komist þeir í ríkisstjórn.
Það er því ekkert annað en aumur leikur stjórnmálamanna að vísa í einhvers konar smáa letur kosningaloforða sem kjósendur voru aldrei upplýstir um fyrir kosningar. Enginn flokkur setti fram fyrirvara um að 51% atkvæða þyrfti til að loforðin væru uppfyllt, nema smáa letrið hafi verið svo lítið að það var í raun ekki til staðar.
Eftir sitja kjósendur með vörusvik í formi svikinna kosningaloforða sem var aldrei ætlað annað en að vera ryk í augu kjósenda. Vörusvik án réttar til fullnustu. Það er ekki einu sinni útskýrt af hverju þau komu ekki til greina.
Kosningabarátta Flokks fólksins og svikin loforð þeirra eru áminning til þjóðarinnar um að það bylur hæst í tómri tunnu.
Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.