Orð bera ábyrgð

Einn af horn­stein­um lýðræðis­ríkja er hið dýr­mæta tján­ing­ar­frelsi ein­stak­lings­ins sem legg­ur um leið þá kröfu á hann að bera ábyrgð á þeim orðum sem hann læt­ur falla. Það er að mörgu leyti grund­vall­ar­krafa hvers sam­fé­lags að vera sjálf­ur sér sam­kvæm­ur, maður orða sinna.

Orðum stjórn­mála­manna, sér í lagi í kosn­inga­bar­áttu, fylg­ir rík­ari ábyrgð þegar þau eru sett fram í bún­ingi kosn­ingalof­orða til kjós­enda. Eðli máls­ins sam­kvæmt vega orð stjórn­mála­manna þungt, orð þeirra fyr­ir kosn­ing­ar og efnd­ir að kosn­ing­um lokn­um eiga að fara sam­an.

Kjós­end­um skal í það minnsta vera ljóst af mál­flutn­ingi og gjörðum stjórn­mála­manna sem eiga í hlut að þeir hafi ætlað sér að standa við lof­orð sín. Það er ein­fald­lega ský­laus krafa kjós­enda, því um hvað var ann­ars verið að kjósa? Jú, um það sem stjórn­mála­menn sögðust ætla að gera að lokn­um kosn­ing­um.

Ákvörðun­ar­taka kjós­enda í lýðræðis­ríkj­um er byggð á grunni upp­lýstr­ar og op­inn­ar umræðu um hvaða hags­muni og gildi stjórn­mála­menn ætla að standa vörð um. Af því leiðir að orð sem eru ein­göngu sögð í hita leiks­ins, en var aldrei ætlað að verða að ein­hverju stærra, eru þess vald­andi að grafa und­an trú­verðug­leika og rót­um lýðræðis­ins. Skömm stjórn­mála­manna er slíkt at­hæfi stunda er mik­il.

Það felst í lýðræðis­rétti kjós­enda að geta tekið upp­lýsta ákvörðun sem er byggð á orðum og lof­orðum stjórn­mála­manna. Kjós­end­ur eiga að geta treyst því að stjórn­mála­menn geri það sem þeir segj­ast ætla að gera og leggi fram raun­hæf lof­orð sem vænta má að hægt sé að upp­fylla kom­ist þeir í rík­is­stjórn.

Það er því ekk­ert annað en aum­ur leik­ur stjórn­mála­manna að vísa í ein­hvers kon­ar smáa let­ur kosn­ingalof­orða sem kjós­end­ur voru aldrei upp­lýst­ir um fyr­ir kosn­ing­ar. Eng­inn flokk­ur setti fram fyr­ir­vara um að 51% at­kvæða þyrfti til að lof­orðin væru upp­fyllt, nema smáa letrið hafi verið svo lítið að það var í raun ekki til staðar.

Eft­ir sitja kjós­end­ur með vöru­svik í formi svik­inna kosn­ingalof­orða sem var aldrei ætlað annað en að vera ryk í augu kjós­enda. Vöru­svik án rétt­ar til fulln­ustu. Það er ekki einu sinni út­skýrt af hverju þau komu ekki til greina.

Kosn­inga­bar­átta Flokks fólks­ins og svik­in lof­orð þeirra eru áminn­ing til þjóðar­inn­ar um að það byl­ur hæst í tómri tunnu.

Höf­und­ur er varaþingmaður Miðflokks­ins í Suður­kjör­dæmi.