Þjóðlegar skyldur og alþjóðlegar skuldbindingar
Þjóðlegar skyldur eiga að vega þyngra en alþjóðlegar skuldbindingar.
Viðkvæðið „við þurfum að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar“ hefur verið á hraðbergi stjórnmála- og embættismanna mörg undanfarin ár. Fjölmiðlum er það einnig tamt.
Það hefur til að mynda verið notað ótt og títt í málum á borð við Icesave-deiluna, loftslags- og orkumálum, nýtingu hvalastofna og málefnum hælisleitenda. Oft er þessu slengt fram nánast eins og þar með sé mál útrætt og þarfnist alls ekki sjálfstæðrar skoðunar ríkisstjórnar og Alþingis eða annarrar umræðu hér innanlands. Í öllu falli þurfi Alþingi og ríkisstjórn að drífa sig að hlýða fyrirmælum frá einhverri skammstafaðri stofnun að utan. Líkt og erlendar stofnanir, ráðstefnur og fundir séu betur til þess fallin en við sjálf að meta hvað er okkur fyrir bestu.
Undantekningarlítið er kvæðið kyrjað til stuðnings einhvers konar álögum á landsmenn. Hvort sem er fleiri reglum, nýjum stofnunum, gjöldum eða beinum kostnaði sem á endanum kemur allt fram í hærri sköttum. „Ætlum við ekki að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar“ er spurt með þjósti líkt og íslenskir hagsmunir séu vart til.
Að þessu sögðu er það auðvitað hluti af því að vera sjálfstætt ríki að efna til samstarfs við önnur ríki um sameiginleg hagsmunamál. En jafn sjálfsagt er að gera sér grein fyrir að alþjóðastofnanir utan um slíkt samstarf eru ekki bara undir áhrifum annarra ríkja heldur öðlast fljótt sjálfstæða hagsmuni sem taka verður með í reikninginn þegar næstu hugmynd þeirra um alþjóðlegar skuldbindingar ber að garði.
Það ætti með öðrum orðum að vera í fyrirrúmi í hvert sinn sem alþjóðlegar skuldbindingar eru nefndar að við veltum því fyrir okkur hvort þær fari saman við þær þjóðlegu skyldur sem standa okkur næst. Þetta þurfa kjörnir fulltrúar sérstaklega að hafa í huga.
Miðflokkurinn hefur sýnt að hann stendur vaktina í þessum efnum og með góðum stuðningi kjósenda mun hann gera það áfram.
Höfundur skipar 1. sæti Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.