Skynsemi eins er ekki alltaf skynsemi annars

Áttaviti heilbrigðisþjónustu er hagsmunir notenda þjónustunnar en ekki kerfisins. Hér eru ræddar leiðir til að bæta heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Meginmál:
Nú þegar kosningar fara í hönd er við hæfi að skilgreina aðgerðir sem geta bætt heilbrigðisþjónustu og leitt af sér betri nýtingu á almannafé. Áttavitinn á alltaf að vera hagsmunir notenda þjónustunnar en ekki kerfisins sem veitir hana. Það er að mörgu að huga en nokkur mál eru meira aðkallandi en önnur.

Bætum aðbúnað aldraðra
Þegar ég var læknanemi fyrir 30 árum var hinn svokallaði fráflæðisvandi sjúkrahúsa þegar til staðar og fárveikt fólk lá á göngum, í geymslurýmum og salernum háskólasjúkrahússins. Svo er enn í dag. Við getum betur, svo miklu betur. Byggjum hraðar hjúkrunarheimili til að koma veikum eldri borgurum í öruggt skjól. Bætum heimaþjónustu og styðjum við fjölbreytt búsetuúrræði og þjónustu við aldraða. Það er ekki bara réttlátt heldur líka þjóðhagslega hagkvæmt. Hér eiga hagsmunir sjúklinga að vega þyngst, ekki hvort þjónustan komi frá ríki eða einkaaðilum.

Aukum getu SÍ til að kaupa heilbrigðisþjónustu
Sjúkratryggingar semja um kaup á heilbrigðisþjónustu við fjölmarga þjónustuveitendur. Þegar kemur að samningum um skurðaðgerðir utan Landspítala þá á útvistun stundum við til að létta á álagi á Landspítalanum en oftar en ekki snúa samningarnir að aðgerðum sem geta átt sér stað utan Landspítala og annarra opinberra stofnana til framtíðar. Þá er mikilvægt að Sjúkratryggingar hafi getu og greitt aðgengi að ráðgjöf og nýjustu þekkingu til að taka gagnadrifnar ákvarðanir. Það þarf að vera hægt að skilgreina vel þörf fyrir þjónustuna og gæði þjónustunnar. Þjónusta þarf að vera sannreynd og framkvæmd vegna viðurkenndra ábendinga. Fjárskortur er oftar en ekki Þrándur í Götu en almennt skortir gæðaeftirlit með heilbrigðisþjónustu í landinu og á það líka við um sjúkrahúsin og opinberar stofnanir. Embætti landlæknis hefur ekki staðið sig undanfarin ár í því að efla gæðaviðmið, leiðbeiningar og eftirlit.

Notum skynsemi í ákvarðanatöku
Beitum skynsemi þegar kemur að útvistun eða samningum um nauðsynlegar og oft lífsbjargandi aðgerðir. Er skynsamlegt að sjúklingar fari í aðgerðir eins og til dæmis efnaskiptaaðgerðir erlendis? Ríkið borgar ferðalög og aðgerðir til stofnana og einkafyrirtækja erlendis á meðan sömu sjúklingar mega ekki fara í sömu aðgerð með minni tilkostnaði og raski innanlands. Er skynsamlegt að gera aðgerðir inni á háskólasjúkrahúsi sem kosta hundruðum þúsunda meira en sömu aðgerðir utan sjúkrahúsa? Er skynsamlegt að sjúklingar með skert lífsgæði og skerta atvinnuþátttöku bíði á biðlista eftir aðgerð frekar en að leysa málin með því að nýta allt okkar góða heilbrigðiskerfi? Er skynsamlegt að leyfa sjúklingum ekki að velja hvar þeir fá sína heilbrigðisþjónustu? Flestir geta verið sammála að allt ofangreint er ekki skynsamlegt, en viðgengst þó.

Bætum starfsstétt við
Í Bandaríkjunum er heilbrigðisstétt sem kallast „physician assistant“ sem fer hratt vaxandi. Þessir heilbrigðisstarfsmenn geta undir eftirliti lækna skrifað lyfseðla, aðstoðað í aðgerðum og sinnt einfaldari störfum sem læknar sinna almennt. Þetta leiðir af sér betri afköst fyrir minni kostnað enda er launakostnaður þessarar stéttar minni en lækna og læknar geta einbeitt sér að málum innan síns sérsviðs. Þessi stétt myndi líka auka fjölbreytni og starfsþróunarmöguleika innan heilbrigðiskerfisins.

Bætum endurmenntun
Góð menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks er nauðsynleg öryggi sjúklinga og því er jákvætt að gefið hefur verið í varðandi grunnnám og framhaldsnám heilbrigðisstétta. Aftur á móti vantar mikið upp á möguleikann á að söðla um og bæta við sig gráðum eða þjálfun án þess að þurfa að byrja upp á nýtt. Það vantar líka alveg reglur um endurmenntun heilbrigðisstarfsfólks. Í dag er Ísland eitt fárra vestrænna landa þar sem ekki er krafist endurmenntunar heilbrigðisstarfsfólks. Það ógnar öryggi sjúklinga.

Við komumst öll í nána snertingu við heilbrigðiskerfið einhvern tímann á lífsleiðinni. Það er því okkur öllum í hag að kerfið taki vel utan okkar, en jafnframt að skattpeningar okkar séu nýttir sem best. Listinn að ofan er engan veginn tæmandi og mætti nefna mörg önnur aðkallandi verkefni eins og bætt aðgengi að heimilislæknum, almennt forvarnarstarf og aukna áhersla á geðheilbrigðismál. Þar gæti efling menntunar og fjölbreyttara rekstrarform bætt þjónustu og aukið lífsgæði allra landsmanna. Hefjumst handa.

Höfundur er læknir og skipar 5. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík norður.