Grípum tækifærin í þágu þjóðar

Á sjö ára valdatíð Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG hefur ríkt nær algjör kyrrstaða í orkumálum þjóðarinnar. Engir nýir orkukostir hafa komist á framkvæmdastig. Afleiðingarnar hafa birst þjóðinni síðustu ár í formi ítrekaðra skerðinga á afhendingu raforku til stórneotenda, hækkandi raforkuverðs til almennings, lækkun útflutningsverðmæta, minni fyrirsjáanleika fyrirtækja í rekstri og minni samkeppnishæfni. Á endanum birtast svo þessar afleiðingar í lakari lífskjörum. Skerðingar síðustu 12 mánaða ollu allt að 10% lækkun á því útflutningsverðmæti sem stórnotendur skapa þjóðarbúinu.

Grípum tækifærin vegna umbreytinganna í orkumálum

Í umbúðarstjórnmálum síðustu ára er það allt að því kaldhæðni að á sama tíma og stjórnvöld hafa sett landinu afar metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 hefur nær ekkert verið gert til að skapa forsendur svo þessi markmið náist. Þvert á móti valda áherslur ríkisstjórnarflokkana því að t.d. loðnubræðslur eru nú keyrðar á hverju ári með dísel rafstöðvum í stað grænnar orku. Ætli flestum sé ekki augljóst að hér fer í engu saman hljóð og mynd. Núverandi stefna leiðir til þess eins að forysta okkar og samkeppnisforskot í orkumálum glatast. Á sama tíma er algjör umbreyting að verða í orkumálum. Atvinnulífið er að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orku og nýr vöxtur verður drifinn áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum. Hér liggja sjálf tækifæri framtíðar kynslóða ef rétt er á málum haldið og ekki sé farið fram úr sér. Engin þjóð á betri forsendur til forystu á þessu sviði en Íslendingar. Með raf- og hitaveituvæðingunni á síðustu öld gengu okkar fyrri kynslóðir í gegnum orkuskipti sem settu þjóðina fremst meðal þjóða í notkun grænnar orku. Við höfum gert þetta áður og við getum þetta núna.

Frá stofnun Miðflokksins hefur flokkurinn talað fyrir því að rjúfa kyrrstöðuna í orkumálum. Í þeirri stefnu felst ekki að virkja hvern einasta læk heldur að nálgast málið út frá því sem skynsamlegt er að gera í þágu þjóðarinnar. Orkan er undirstaða samfélagsins vegna þess að atvinnulífið hvílir á því að geta nýtt orkuna til að beisla verðmætasköpunina. Ekkert samfélag býr til verðmæti eða eykur velmegun án orku. Til þess að geta staðið undir velferð þarf vélin að virka.

Afleiðingar sofandaháttar í orkumálum

Í leit okkar að jafnvæginu milli verndar náttúrunnar og nýtingu hagkvæmra orkukosta, á verndar- og nýtingaráætlun, svokölluð rammaáætlun, að vera tækið til ákvarðana. Þetta tæki hefur á mörgum undanförnum árum snúist upp í andhverfu pólitískra tafarleikja öllum til tjóns. Versta mynd kyrrstöðunnar í orkumálum birtist okkur í þeirri grafalvarlegur stöðu að afhendingaröryggi almennings og minni fyrirtækja er ógnað. Núgildandi lög skjóta engu skjólshúsi yfir almenning og minni fyrirtæki þrátt fyrir að orkukerfi landsins sé einangrað. Sofandaháttur stjórnvalda er á því stigi að undir lok síðasta árs stóð til að setja hér neyðarlög til að tryggja almenningi og minni fyrirtækjum raforku enda sú staða raunveruleg að grunnþörfin raforka í orkulandinu Íslandi stæði almenningi ekki til boða. Okkur í Miðflokknum er það nær óskiljanlegt hvernig stjórnvöld gátu brugðist borgurum sínum jafnmikið og raunin hefur orðið í orkumálunum.

Hvernig brjótum við kyrrstöðuna?

Í nýtingaflokki rammaáætlunar eru nú sextán virkjunarkostir. Af þeim á Landsvirkjun sex, HS Orka fimm, ON þrjá og aðrir raforkuframleiðendur tvo. Þessir orkukostir eru komnir mislangt í undirbúningi en allir þeirra þurfa að gangast undir umhverfismat auk ýmissa annarra tímafrekra ferla. Sjö af þessum sextán kostum hafa þegar farið í gegnum umhverfismat og þar af fimm hjá fyrirtæki þjóðarinnar, Landsvirkjun. Það liggur beint við að horfa til þeirra kosta í nýtingarflokki rammaáætlunar sem lengst eru komnir í nýtingarflokki. Það þarf að rjúfa þessa kyrrstöðu strax og það þarf að gera það á grundvelli sérstakra laga frá Alþingi ef í ljós kemur að rammaáætlun geti ekki skilað ákvörðunum um nauðsynlega og óhjákvæmilega orkuuppbyggingu fyrir almenning og atvinnulíf. Lífskjör og þar með velferð á mikið undir því að við styðjum við vöxt og þróun verðmætasköpunar og að heimilum landsins sé tryggð orka á hagstæðu verði.  

Eiríkur S. Svavarsson

Höfundur er lögmaður og frambjóðandi Miðflokksins í 3. sæti í Suðvesturkjördæmi.