Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 382 — 371. mál.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, (hækkun starfslokaaldurs).
Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
a. Í stað orðanna „70 ára aldri“ í 1. mgr. kemur: 73 ára aldri.
b. Í stað orðanna „70 ára að aldri“ í 2. mgr. kemur: 73 ára aldri.
2. gr.
Í stað orðanna „70 ára aldri“ í 2. mgr. 43. gr. laganna kemur: 73 ára aldri.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Greinargerð.
Frumvarp þetta er flutt í sjöunda skiptið. Það var síðast lagt fram á 153. löggjafarþingi (141. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú flutt óbreytt.
Frá setningu laga nr. 70/1996 hefur lífaldur Íslendinga hækkað auk þess sem almennt heilsufar þjóðarinnar hefur batnað þannig að nú eru menn hraustir lengur fram eftir ævi. Sú breyting var gerð á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með lögum nr. 116/2016 að nú er hægt að hefja lífeyristöku á bilinu frá 65 ára til 80 ára aldurs. Breytingin gagnast ríkisstarfsmönnum ekki, hvort sem um er að ræða skipaða embættismenn eða ráðna starfsmenn, því að báðum hópum er gert að láta af störfum þegar 70 ára aldri er náð samkvæmt gildandi lögum. Markmið frumvarps þessa er að framangreindum hópum verði gert kleift að starfa hjá ríkinu til 73 ára aldurs standi hugur þeirra til þess en að sjálfsögðu gætu embættismenn og aðrir ríkisstarfsmenn látið af störfum sjötugir eftir gildistöku ákvæða frumvarpsins líkt og áður. Alkunna er að mikill auður liggur í reynslu og þekkingu starfsmanna sem unnið hafa sem sérfræðingar og embættismenn um langa hríð. Það er því bæði þeim og ríkiskerfinu til hagsbóta að almennir starfsmenn og embættismenn eigi kost á því að starfa lengur en til 70 ára aldurs ef þeir kjósa. Dæmi eru um að embættismenn og aðrir ríkisstarfsmenn séu ráðnir sem verktakar eftir starfslok til að sinna störfum sem þeir sinntu áður. Það fyrirkomulag er snúið fyrir báða aðila og hvorugum til hagsbóta. Nú þegar aldraðir gera ríkari kröfur en áður um fulla þátttöku í þjóðfélaginu lengur fram eftir aldri er bæði rétt og skylt að gera þeim það kleift með því að hækka hámarksaldur þeirra sem vinna hjá ríkinu eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
Tekið frá: https://www.althingi.is/altext/154/s/0382.html