Innflytjendamál

Frá óreiðu til almannahags. Vöktum landið – verjum íslenska velferð!

Við ætlum að koma böndum á stjórnleysið sem ríkir á landamærunum og skrifa ný útlendingalög frá grunni. Það á enginn að koma til Íslands í leit að hæli. Við eigum að bjóða fólki í neyð til landsins og hjálpa því að aðlagast íslenskri menningu og samfélagi. Við eigum líka að hjálpa fólki í neyð á þeirra nærsvæðum. Þannig hjálpum við fleirum. 

Lausnir Miðflokksins í innflytjendamálum snúa að hælisleitendum, fólki sem flytur til landsins á grundvelli EES samningsins og fólki sem flytur til landsins á grundvelli sérstakra heimilda til að flytja inn fólk í tiltekin störf.

  1. Vinna þarf ný útlendingalög, frá grunni.
  2. Enginn ætti að koma til landsins til að sækja þar um hæli.
    Áfram verður tekið á móti kvótaflóttamönnum sem boðið er til landsins og leitast við að leggja áherslu á aðstoð á nærsvæðunum. Íslendingar gætu tekið þátt í að reka móttökustöðvar í öðrum löndum en þörfin fyrir slíkt er þó minni hjá okkur en flestum Evrópulöndum því Ísland er eyja í Norður Atlantshafi. Hingað koma ekki hælisleitendur án þess að hafa komið við í öðru öruggu landi þar sem þeim ber að sækja um hæli (samanber Dyflinarreglugerðina ofl. um að sótt skuli um í fyrsta örugga landinu sem komið er til). Allir sem koma til landsins eftir að hafa farið í gegnum önnur örugg lönd skulu umsvifalaust sendir aftur til þess ríkis.
  3. Aðlögun að íslensku samfélagi skylda.
    Þeir sem fá hæli á Íslandi skulu sýna vilja til að aðlagast íslensku samfélagi eða eiga ella á hættu að missa dvalarleyfi.
  4. Afbrot jafngilda brottvísun.
    Þeim hælisleitendum sem fremja alvarleg afbrot eða brjóta ítrekað af sér skal vísað úr landi.
  5. Tímabundinni vernd fylgt eftir.
    Þeir sem hafa tímabundið dvalarleyfi vegna ástands í heimalandi skulu snúa heim þegar aðstæður leyfa. 
  6. Ákvæði um fjölskyldusameiningar hert.
    Gera skal kröfur um að sýnt sé fram á skyldleika auk krafna til bæði þess aðila sem fyrir er og þeirra sem koma vegna fjölskyldusameiningar um aðlögun að samfélaginu og framfærslu. 
  7. Atvinnuþátttaka skilyrði fyrir fullri velferðarþjónustu.
    Fólk á vinnualdri sem fær hæli á Íslandi verður að sýna fram á atvinnuþátttöku áður en það fær fullan rétt á þjónustu velferðarkerfisins (til samræmis við það sem krafist er af íslenskum ríkisborgurum sem hafa búið lengi erlendis).
  8. Landamæragæsla hert.
    Landamæragæsla verður hert eftir þörfum óháð Schengen samkomulaginu í samræmi við aðgerðir annarra Schengenlanda að undanförnu. 
  9. Flugfélög skili farþegalistum.
    Flugfélög skulu skila farþegalistum og staðfestingu á því að farþegar hafi getað gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt.
  10. Auknar kröfur vegna ríkisborgararéttar.
    Grunnþekking á íslensku og samfélagsmálum verður krafa við veitingu íslensks ríkisborgararéttar.
  11. Eftirfylgni – atvinnuhorfur og atvinnuleysisbætur.
    Draga þarf úr hvötum til að nýta íslenskar atvinnuleysisbætur annars staðar á EES svæðinu. Árlega skal greina atvinnuhorfur á Íslandi til að meta hvort beita skuli heimildum í samræmi við EES samninginn til að gera undantekningar á frjálsu flæði vinnuafls vegna sérstakra aðstæðna.
  12. Endurskrifa lög um innflutning vinnuafls með sérþekkingu.
    Tryggja þarf að það sé eingöngu nýtt fyrir fólk með eiginlega sérfræðiþekkingu á sviðum þar sem annað vinnuafl getur ekki komið í staðinn. 
  13. Virkt mat á stoðkerfum samfélagsins.
    Framkvæmt verði mat á stoðkerfum samfélagsins, svo sem á sviði heilbrigðis-, velferðar- og menntamála ásamt því að lagt verði mat á stöðu mála á húsnæðismarkaði, þar sem metið verði það svigrúm sem íslenskt samfélag hefur til að taka við og styðja þá sem hingað er boðið á grundvelli kvótaflóttamannakerfisins.