Landbúnaður og matvælaframleiðsla
- Miðflokkurinn vill standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu og bregðast þegar í stað við þeim ógnunum sem steðja að greininni.
- Miðflokkurinn telur rétt að stofnað verði nýtt ráðuneyti utan um málaflokkinn.
Stefnumið:
Miðflokkurinn hefur ávallt lagt ríka áherslu á mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og þau stóru tækifæri þjóðarinnar til framtíðar sem felast í heilnæmi matvæla, fæðuöryggi og vaxandi möguleikum til nýtingar vistvænnar orku til matvælaframleiðslu. Skapa þarf möguleika á stóraukinni ræktun grænmetis sem byggir á hagkvæmri orku og hreinleika íslenskrar náttúru.
Núgildandi tollasamningar hafa skapað mikið ójafnvægi á markaði þar sem innlend framleiðsla þarf að keppa við innflutning á vörum sem ekki eru gerðar sömu kröfur til. Vörur sem framleiddar eru í löndum þar sem verðlag er annað, laun lægri, notkun vaxtarhvetjandi hormóna og sýklalyfja er til staðar í miklum mæli og allt aðrar og minni kröfur gerðar um dýravelferð.
Verulegt ójafnvægi ríkir í tollasamningum Íslands. Nýting íslenskra útflytjenda á kvótum til ESB er í flestum tilfellum lítil eða engin á meðan tollkvótar til innflutnings frá ESB hafa nær allir verið fullnýttir og umtalsvert magn flutt inn utan kvóta.
Mikilvægt er að endurskoða samninginn, forsendur hafi breyst og ójafnvægi ríki á milli samningsaðila.
Aðgerðir:
- Grípa þarf strax til aðgerða til að leiðrétta og tryggja rekstrarumhverfi bænda og matvælaframleiðenda.
- Auka þarf þegar í stað tollvernd innlendrar framleiðslu með uppsögn og endurskoðun tollasamninga.
- Koma þarf í veg fyrir óheftan innflutning á ófrosnu kjöti sem er um leið afar mikilvægt lýðheilsumál fyrir þjóðina.
- Tryggja þarf að tilgangur og markmið með setningu búvörulaganna haldi þannig að bændur geti með hagkvæmum hætti unnið og afsett sínar vörur.
- Stutt verði við nýsköpun, uppbyggingu og markaðsstarf sem mætir þörfum samtímans.
Útfærslur:
- Hefja þarf þegar í stað undirbúning að endurskoðun búvörusamninga sem hafi það að markmiði að tryggja hag bænda, hagsmuni neytenda og öryggi og stöðugleika innlendrar matvælaframleiðslu til langrar framtíðar.
- Stuðningur við landbúnað verði aukinn í takt við aukna framleiðslu og fyrirkomulag hans einfaldað.
- Stutt verði við nýliðun í greininni svo sem með sérstökum lánaflokkum hjá Byggðastofnun og skattaívilnunum við flutning bújarða milli kynslóða.
- Tryggja þarf að eftirlit með landbúnaðarstarfsemi og matvælaframleiðslu sé samræmt á landsvísu og að eftirlitskostnaður sé ekki íþyngjandi.
- Þjónusta dýralækna sé tryggð.
- Tryggja þarf með lagasetningu að afurðastöðvar í kjötgeiranum geti tekið upp samvinnu í meiri mæli og/eða sameinast til að ná fram hagræðingu líkt og gilt hefur um árabil fyrir mjólkuriðnaðinn.
- Koma þarf á betra eftirliti með innflutningi og að settar verði skýrar kröfur um upprunamerkingu matvæla þar sem fram komi einnig upplýsingar um notkun hormóna og sýklalyfja við framleiðsluna.
- Um leið þarf að koma í veg fyrir að hingað til lands séu fluttar kjötvörur frá löndum þar sem sýklalyfjanotkun er útbreidd.
Tengt efni
Þingsályktun Miðflokksins – 31. október 2024
Tillaga til þingsályktunar um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.