Dagur Viðreisnar

Það er margt áhugavert í pólitíkinni við upphaf vorþings.

Rétt er að óska nýjasta ráðherra ríkisstjórnarinnar velfarnaðar í vandasömum verkefnum sem framundan eru og sömuleiðis er rétt að óska börnum landsins til hamingju með fjórða ráðherra barnamála á síðust 13 mánuðum.

Áhugaverðast er þó sennilega að rýna í togstreitu stjórnarflokkanna við upphaf nýs árs.

Það hefur eðlilega verið svekkjandi fyrir Flokk fólksins að sjá stuðninginn um það bil helmingast á einu ári. Á sama tíma hefur Viðreisn mátt sætta sig við að stuðningur við flokkinn hefur gefið eftir. Fyrir báða flokkana væri þetta svosem bærilegt ef ekki væri fyrir þá staðreynd að Samfylkingin fer með himinskautum, á kostnað hinna tveggja.

Hvað veldur kann einhver að spyrja? Möguleg skýring í tilviki Viðreisnar gæti verið að einu málin sem flokkurinn hefur með afgerandi hætti lagt áherslu á kalla fram hækkanir á sköttum og gjöldum.

Í tilviki Flokks fólksins gætu skýringarnar verið fjölbreyttari.

Ólík sýn stjórnarflokkanna er þó augljósust þegar kemur að Evrópumálunum. Einn af stofnendum Viðreisnar, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, stendur í skeytasendingum fyrir hönd fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins af Kögunarhóli sínum, í garð forsætisráðherra.

Maður verður auðvitað að hafa skilning á því að innstu koppum í búri Viðreisnar þyki súrt að spenningur forsætisráðherra gagnvart æðibunugangi utanríkisráðherra sé hóflegur.

Áramótaávarp forsætisráðherra og áramótagrein í Morgunblaðinu draga upp býsna skýrt, án þess að segja það beint, að nú skuli Viðreisn hægja á hraðlestinni. Viðbrögð Viðreisnar eru að gefa í.

Annar fyrrverandi varaformaður, Dagur B. Eggertsson, sem leiðtogi Evrópuarms Samfylkingarinnar, slær svo þann tón með sínu fólki að nú sé lag.

Lag gagnvart aðlögun að Evrópusambandinu og lag gagnvart því að stilla af valdahlutföllin innan Samfylkingarinnar.

Fyrrverandi borgarstjóri er þannig orðinn höfuð Viðreisnarhluta Samfylkingarinnar. Einskonar Dagur Viðreisnar.

Í þessu umhverfi tilkynnir utanríkisráðherra að senn sé að vænta þingsályktunartillögu hennar um áframhaldandi aðlögunarviðræður að Evrópusambandinu. Það eru engar líkur á að forsætisráðherra langi til að verja næstu mánuðum í þann slag.

Sérstaklega í ljósi þess að staða efnahagsmála er óljós, verðmætasköpunarhaustið fór í vaskinn og heimilin fá nú óvænt 12 milljarða högg vegna hækkunar verðtryggðra lána sem tilkomin er vegna breytingar á gjaldheimtu af ökutækjum.

Bókun 35 verður svo að líkindum á dagskrá á fyrstu dögum þessa vorþings.

Er nema von að áhugamenn um stjórnmál séu spenntir fyrir vorþinginu?

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. janúar, 2026.