

Bandaríkin eru ekki við það að gera innrás í Grænland
Mörgum hættir til að ímynda sér að heimurinn verði alltaf eins og hann var „í gær“ og gleyma um leið hvernig hann var „í fyrradag“.
Í upphafi árs réðst bandaríski herinn í stórfenglega aðgerð til að handtaka eftirlýstan mann í öðru landi. Maður þessi, Nicolás Maduro að nafni, var harðstjóri í Venesúela og grunaður um víðfeðm mannréttindabrot og fíkniefnasölu. Vestræn stjórnvöld féllust ekki á að hann væri réttmætur valdhafi í landi sínu og fyrri stjórnvöld í Bandaríkjunum höfðu lagt umtalsvert fé honum til höfuðs. Engu að síður er aðgerðin víða túlkuð sem grundvallarbreyting á alþjóðakerfinu.
Almennt þykir óviðeigandi að ríki ráðist í hernaðaraðgerðir í öðrum löndum án samráðs við þarlend stjórnvöld, jafnvel þegar engum réttmætum stjórnvöldum er til að dreifa. En er alþjóðakerfið allt í uppnámi eftir hina stuttu heimsókn bandarískra sérsveitarmanna til Karakas og er hún jafnvel fyrirboði um hernám næstu nágranna okkar á Grænlandi?
Nýliðin tíð
Bandarísk stjórnvöld hafa í gegnum tíðina margoft beitt hervaldi til að hlutast til um stjórn ríkja á vesturhveli og um allan heim. Slík inngrip hafa gengið upp og ofan en þau eru sannarlega ekkert nýtt.
Muna sérfræðingarnir sem nú er leitað til ekki eftir því þegar Clinton Bandaríkjaforseti sendi hersveitir til Haítí til að hernema landið og koma forseta landsins aftur til valda eftir valdarán hersins þar í landi?
Muna fréttamenn ekki eftir því þegar Bush eldri sendi hátt í 30 þúsund manna herlið til að handsama einræðisherra Panama, Manúel Noriega, vegna fíkniefnasölu og til að tryggja hagsmuni Bandaríkjanna?
Muna stjórnmálamenn ekki eftir því þegar Reagan fyrirskipaði innrás í Grenada til að losna við kommúnistastjórn landsins?
Nefna mætti fleiri dæmi úr nærumhverfi Bandaríkjanna, t.d. Dóminíska lýðveldið og Níkaragva, svo ekki sé minnst á aðgerðir bandarískra sérsveita og leyniþjónustu í hinum ýmsu löndum Norður- og Suður-Ameríku eða innrásina í Svínaflóa á Kúbu (sem mistókst).
Ekkert af þessu fól í sér grundvallarbreytingar á heimsskipaninni eða reglum alþjóðakerfisins.
Hverjar eru reglurnar?
Þáttarstjórnandinn Trevor Phillips á Sky News (fæddur í Gvæjana, næsta landi við Venesúela) sagðist telja að Trump liti alþjóðareglur svipuðum augum og fyrri forsetar eins og Kennedy og Obama. Þeir hefðu verið meðvitaðir um að fyrsta regla alþjóðareglna væri: „Bandaríkin setja reglurnar til að þjóna hagsmunum sínum.“
Hvað næst?
Undanfarna daga hafa fjölmargir lýst áhyggjum af því að nú þegar bandarísk stjórnvöld eru búin að brottnema venesúelska harðstjórann Maduro snúi þau sér næst að Grænlandi.
Ekki með því að senda sérsveitir til að handtaka formann grænlensku landstjórnarinnar, Jens-Frederik Nielsen, sem eftir því sem næst verður komist hefur ekki gert neitt af sér, heldur með því að hernema Grænland.
Eftir að Noriega var handsamaður hafði enginn áhyggjur af því að næst myndu Bandaríkin hernema Nýfundnaland, hvað þá að hernám Írak myndi leiða til innrásar Bandaríkjanna í Mexíkó.
En nú er öldin víst önnur. Allt er sagt breytt.
Bandaríkjaforseti hefur að vísu verið ótrúlega yfirlýsingaglaður um Grænland eins og hans er háttur. Áhugi hans á að Grænland verði hluti af Bandaríkjunum hefur ekki farið á milli mála.
Það var líka talið til marks um að við byggjum í gjörbreyttum heimi nú eftir áramótin að meðal þeirra milljóna misgáfulegu færslna sem skrifaðar voru á samfélagsmiðla í framhaldi af brottnámi Maduros fannst tíst frá eiginkonu ráðgjafa Trumps. Kona sú birti mynd af Grænlandi í bandarísku fánalitunum ásamt orðinu „bráðum“.
Það er þó heldur langsótt að reyna að telja fólki trú um að brottnám eftirlýsts einræðisherra þýði að við þurfum að leita á náðir ESB til að verja okkur gagnvart mikilvægustu bandamönnum okkar.
Ef ekki þarf meira til að valda geðshræringu hjá stjórnmálaleiðtogum og álitsgjöfum gæti það vissulega bent til að við þyrftum að hafa áhyggjur af alþjóðakerfinu. Betra væri að þeir önduðu með nefinu og lyftu sér á hærra plan en nemur umræðu á spjallþráðum unglinga um hvað einhver hafi sagt um einhvern og hvað hann gæti líklega hafa meint með því.
Forsetinn
Bandaríkjaforseti er eins og hann er. Það er ekki okkar að ákveða hver gegnir því embætti en við getum reynt að leggja mat á raunveruleikann og laga okkur að honum.
Trump lítur til sögunnar og hefur mikinn áhuga á eigin sessi í henni. Á sínum 250 árum hafa Bandaríkin aukið landrými sitt verulega með ýmsum leiðum. Eflaust gæti núverandi forseti hugsað sér að marka stjórnartíð sína og 250 ára afmæli landsins með því að bæta verulegu landflæmi við Bandaríkin.
Það virðist hann vilja gera að hætti kapítalista og með því að gera stærsta „díl“ sinn á ferlinum og þann stærsta sem Bandaríkin hafa gert frá því þau keyptu Alaska árið 1867.
Þetta er varla raunhæft en hugsanlega er markmiðið að ganga hart fram til að ná annars konar samningum. Formaður landstjórnar Grænlands hefur þegar lýst því yfir að hann vilji koma á viðræðum við Bandaríkin. Þó hefur Viðreisn á Íslandi hvorki hvatt Grænlendinga til að „kíkja í pakkann“ né lagt til að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir eigi að „halda áfram viðræðum“ um aðild að Bandaríkjunum.
Forsetinn hefur nokkrum sinnum neitað að aftaka að hervaldi verði beitt til að ná yfirráðum yfir Grænlandi. Þótt Bandaríkjaforsetar þvertaki aldrei fyrir beitingu hervalds við allar aðstæður er mjög óviðurkvæmilegt að forsetinn skuli ekki skýra afstöðuna nánar. E.t.v. telur hann það styrkja samningsstöðu sína. Slíkt er auðvitað afar óskemmtilegt fyrir Grænlendinga og Dani en það gagnast þeim ekki að tala um þetta svarleysi sem hótun um beitingu hervalds.
Ef það kæmi til átaka milli stórvelda myndu Bandaríkin vafalaust leggja Grænland undir sig eins og þau gerðu í seinni heimsstyrjöldinni. Um innrás við núverandi aðstæður gegnir öðru máli.
Hernám vinveitts lands sem á auk þess aðild að NATO og hýsir bandaríska herstöð væri að öllu leyti ólíkt skyndisókn sérsveitar til að sækja eftirlýstan mann. Slík innrás nú væri ekki til þess fallin að styrkja forystuhlutverk Bandaríkjanna á alþjóðavísu eftir það sem þarlendir myndu kalla „comeback“ á síðustu misserum. Þess háttar aðgerð myndi skaða siðferðislega stöðu Bandaríkjanna varanlega og leysa upp NATO. Það veitir ekki núverandi forseta góðan sess í bandarískri sögu og myndi líklega heldur draga úr líkum hans á að ná markmiði sínu um að fá friðarverðlaun Nóbels.
Með öðrum orðum: Það er ekki að fara að gerast.
Meira raunsæi
Íslenskir stjórnmálamenn og aðrir ættu að reyna að nálgast þróun heimsmálanna með votti af sögulegu samhengi, almennri skynsemi og hyggjuviti. Ekki reyna að nýta alla atburði líðandi stundar til að þoka eigin grillum áfram.
Þeir ættu ekki að ímynda sér að þeir séu í miðpunkti atburðarásarinnar t.d. að því marki að utanríkisráðherra Íslands geti ekki hitt utanríkismálanefnd án þess að allir sem vilja taka þátt í fundinum undirgangist trúnað um afstöðu ráðherrans.
Telur utanríkisráðherra að hann geti sagt nefndarmönnum eitthvað sem þeir geta ekki séð á samfélagsmiðlum, eða jafnvel í fjölmiðlum? Var tilgangurinn e.t.v. bara sá að fulltrúi meirihlutans gæti lýst því yfir fyrir hönd allra sem voru á fundinum að þeir væru allir sammála um allt?
Að lifa á merkum tímum
Fólki þykir auðvitað spennandi að merkilegir hlutir gerist á sinni tíð, jafnvel eitthvað sem það ímyndar sér að sé ólíkt öllu sem áður hafi gerst. Spennan er ekki minnst hjá álitsgjöfum eða stjórnmálamönnum.
Slíkur fiðringur þjónar hins vegar ekki hagsmunum landsins. Hagsmunagæsla þarf að byggjast á því að leggja raunhæft mat á hverja stöðu og bregðast við í samræmi við það.
Ráðherrum sem hafa bara eitt markmið getur hætt til að túlka alla viðburði sem tækifæri til að vinna að því markmiði. „Ef þú átt bara hamar lítur allt út eins og nagli.“
Nú gerir utanríkisráðherra því skóna að óvænt Bandaríkjaferð Nicolásar Maduros sé áminning um að við þurfum að gangast Evrópusambandinu á hönd. Að vísu verður að fylgja sögunni að ef framið yrði valdarán í Miðbaugs-Gíneu má ætla að fyrstu viðbrögð Viðreisnar yrðu þau að benda á að þar væri komin enn ein áminningin um mikilvægi þess að Ísland gengi í Evrópusambandið.
Það er þó heldur langsótt að reyna að telja fólki trú um að brottnám eftirlýsts einræðisherra þýði að við þurfum að leita á náðir ESB til að verja okkur gagnvart mikilvægustu bandamönnum okkar.
Telji einhver að Úrsula, sú sem sendi þýska herinn á NATO-æfingu með kústsköft að vopni, sé ekki síðri bandamaður en öflugasta herveldi mannkynssögunnar er sá hinn sami að hugsa um annað en varnir Íslands.
Ef atburðir nýársins minna okkur á eitthvað þá er það hversu öflugur og mikilvægur bandamaður Bandaríkin eru. Forsetar hafa komið og farið en varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna hefur haldið gildi sínu. Við skulum ekki gefa annað til kynna.
Ólíkt samningum við Evrópusambandið kveður samningurinn við Bandaríkin skýrt á um að þau skipti sér í engu af íslenskum innanríkismálum. Það er samningur einnar sjálfstæðrar þjóðar við aðra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. janúar, 2026.



