
Fæðuöryggi án bænda
Það vakti mikillar furðu og undrunar á meðal bænda að hæstvirtur atvinnuvegaráðherra hafi skipulagt málþing um fæðuöryggi án þess að bjóða í það minnsta einum bónda að borðinu eða hvað þá fulltrúa Bændasamtaka Íslands. Sér í lagi vegna þess að sami ráðherra hefur klappað sér duglega á öxlina fyrir það þrekvirki að hafa farið brosandi um allt land á bændafundi, heimsótt heim, ljáð eyra og lofað auknu samráði í starfi sínu sem ráðherra landbúnaðarins. Hæstvirtum ráðherra hlýtur að gera sér grein fyrir því, í það minnsta eftir þá reisu, að fæðuöryggi lands og þjóðar verður ekki tryggt án bænda.
Mögulega hefur hæstvirtur ráðherra ákveðið að láta af öllum sýndarleik og ákveðið að ljóstra upp sínu raunverulega viðhorfi og markmiðum gagnvart íslenskum landbúnaði og bændum landsins. Skilaboð ráðherrans eru í það minnsta afar einföld: bændur og þeirra talsmenn eru óþarfir í samtal um framleiðslu matvæla á neyðartímum.
Hnignandi seigla bænda
Til þess að leggja inn nokkur orð frá bændum þá vil ég segja að öll þróun ræðst af því sem sáð er til og það þekkja bændur vel. Það væri hæstvirtum ráðherra bæði hollt og skylt að skoða þá dapurlegu breytingu sem hefur átt sér stað innan bændastéttarinnar síðastliðin 20-30 árin. Stærsta hluta þessa má skrifa á skilningsleysi stjórnvalda því óvissan um rekstraröryggi og framtíð íslenskan landbúnaðar hefur verið ærandi í eyrum bænda í alltof langan tíma.
Það sem blasir við núna er að ef íslenskur landbúnaður er enn og aftur komin með ráðherra sem ætlar sér ekki að efla greinina og treysta þá er ljóst að fækkun bænda mun halda áfram og síðasti bóndinn í dalnum mun svo slökkva ljósin. Það er ekki framtíðarsýn neins barns að taka við búi í slæmu rekstrarumhverfi. Það er ekki framtíðardraumur neins að lepja dauðann úr skel fyrir framan börnin sín, eigandi allt sitt undir, bæði afkomu og það sem er mikilvægara, heimili fjölskyldu sinnar.
Því er það góðfúsleg ábending til hæstvirts ráðherra að boða næsta málþing undir yfirskriftinni „Hnignandi seigla bænda og hvað er til ráða?” og boða þá bændur landsins sem eftir standa vaktina að borðinu. Því það eru þeir sem skipa mikilvægasta hlutverki hverrar þjóðar, að tryggja fæðuöryggi hennar þótt það virðist eitthvað hafa flækst fyrir atvinnuvegaráðherra.
Heiðbrá Ólafsdóttir, kúabóndi og varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember, 2025.


