
Viðreisn velur bílinn fyrir þig
Fjármálaráðherra Viðreisnar hefur sett Alþingi fyrir það verkefni að skattleggja tiltekna bíla út af íslenskum markaði. Um leið verði aðrir bílar niðurgreiddir af skattgreiðendum og njóti ýmissa ívilnana.
Ráðherrann hefur ekki döngun í sér til að leggja fram frumvarp um þetta sjálfur og sem felur í sér hækkun skatta á bíleigendur um 7 milljarða króna. Ástæðan fyrir því er sjálfsagt sú að hann hefur nýlega tekið undir þá niðurstöðu Hagfræðistofnunar HÍ að niðurgreiðslur af þessu tagi á tilteknum bílum séu dýr og léleg loftslagsaðgerð. En málið er engu að síður lagt upp sem loftslagsmál og eins og alltaf þegar loftslagið er undir þá er það nýtt til að auka bæði skattheimtu og útgjöld ríkisins.
20% hækkun á verði fólksbifreiða
Meðal þeirra bíla sem Viðreisn vill gera venjulegu fólki ómögulegt að kaupa eru bílar sem henta stórum fjölskyldum, bílar sem henta þeim sem fara um langan veg, bílar sem komast örugglega í gegnum kulda og ófærð á fjallvegum, bílar sem henta þeim sem nota bílinn sem vinnutæki og bílar sem komast út fyrir þjóðveg 1 og yfir ár og læki inn á hálendið. Þessir stærri bílar hafa hingað til verið skattlagðir upp í rjáfur en nú verður enn bætt í. Minni bílar fá heldur ekki grið. Algengir fólksbílar landsins munu hækka um 15-20% eftir þessa aðför Viðreisnar. Það er verðhækkun um 1-1,5 milljón krónur. En við skulum muna að Viðreisn ætlar ekki að hækka skatta á almenning!
Atvinnuvegaráðherra Viðreisnar kvartaði nýverið undan gjaldtöku á bílastæðum við ferðamannastaði. Vissulega geta þau gjöld hlaupið á nokkur þúsund krónum á ferðalagi um landið. En nú ætlar Viðreisn að bæta milljónum við ferðakostnað þeirra Íslendinga sem vilja skoða landið sitt með hækkun á vörugjöldum á bíla, fjórhjól og fleiri farartæki.
Þróun og framleiðslu bíla hefur fleygt fram undanfarna áratugi. Ekki er útlit fyrir annað en að þau neikvæðu áhrif sem útblástur bílvéla hefur á nærumhverfið minnki jafnt og þétt með betri vélum og nýjum orkugjöfum. Ekki verður séð að ríkið hafi miklu hlutverki að gegna í þessari þróun. Hún mun eiga sér stað.
Forræðishyggja fjármálaráðherra
Þess vegna er sú forræðishyggja sem birtist í tillögum fjármálaráðherra illskiljanleg. Almenningur þarf enga handleiðslu Viðreisnar við að velja sér bíl. Hvorki niðurgreiðslur né skattpíningu. Menn endurnýja bílinn þegar rétti tíminn er kominn og velja þá tækni sem best hentar og er hagkvæmust hverju sinni. Mörgum heimilum og vinnustöðum hentar að hafa fleiri en eina gerð til staðar, rafbíl til að reka helstu erindi innanbæjar og bensínbíl til lengri ferðalaga. Rafbílar, blendingar, bensín- og Dísilbílar hafa hver til síns ágætis nokkuð en misjafnt hvað hentar hverjum og einum.
Sumir hafa til dæmis ekki aðstöðu til að hlaða rafbíl við heimili sitt. Einhverjir þeirra hafa orðið fyrir barðinu á Viðreisnarstefnunni í borginni um fækkun bílastæða. Þú þarft ekki bílastæði góði en gjörðu svo vel að fá þér rafbíl til að hlaða.
Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður.
Greinin birtist á vb.is 22. nóvember, 2025.



