Að kyssa Brusselvöndinn

Vagnstjórum evrópuhraðlestarinnar líður ekki vel þessa dagana. Það er ekki eitt það er allt.

Nóg þótti mörgum um þegar á daginn kom að árum saman hafa menn verið eins og fótfestulaus loftmenni að elta markmið lofslagskirkjunnar sem svo kom á daginn að enginn vissi hver væru, í raun.

Ákvörðun Ursulu von der Leyen, helstu vinkonu aðal, um að skilja íslenska og norska kísilframleiðslu eftir út í kuldanum við innleiðingu verndartolla og þverbrjóta þar með EES samninginn var heldur ekki heppileg uppákoma fyrir vagnstjórana. Afleit raunar.

Áhrif hækkaðra kolefnisgjalda og fráleitrar nálgunar á svokallað ETS kerfi í siglingum eru nú að koma fram og enn á eftir að bæta í áður en fullum skaða verður náð.

Það skal ná þessum gámum úr þessum skipum og flytja þá með lest, segja vangstjórarnir.

Eimskipafélagið lýsti því að kostnaðaraukning á hverja siglda ferð vegna umhverfisskatta hefði verið 317% síðan 2023. Það er auðvitað galið!

Trakteringarnar í garð siglinga, sem eru okkur jafn mikilvægar og raunin er, verða þó smáræði, er ég hræddur um, samanborið við það sem bíður okkur í fluginu þegar sýndarundanþágan sem áðurnefnd Úrsula veitti þáverandi forsætisráðherra hefur runnið sitt skeið við lok árs 2026.

Hann var dýr kaffibollinn í  ráðherrabústaðnum. Dettur einhverjum til hugar að raunverulegar breytingar náist fram í því máli?

Með allt þetta á borðinu ætla stjórnarflokkarnir, með Flokk fólksins í eftirdragi, að keyra í gegn breytta innleiðingu á bókun 35 með allri þeirri óvissu sem því mun fylgja.

Ef stjórnin hefði það í eðli sínu að standa í lappirnar. Spyrna við fótum gagnvart málum sem eru landi og þjóð mótdræg, þá væri tími til þess núna. En í staðin blasir við að stjórnarherrarnir ætla áfram að bugta sig og beygja. Taka við fyrirmælum frá Brussel sem með beinum hætti draga úr hagsæld á Íslandi, fyrst og fremst til að standa við markmið sem enginn virðist vita hver eru.

Ég var vongóður um stund að nú tækju ráðherrarnir, sérstaklega forsætis- og utanríkis, skref til baka og frestuðu öllum frekari sjálfsskaðaaðgerðum. En viti menn; í gær var samþykkt í ráðherraráði ESB samstarfsyfirlýsingu í öryggis- og varnarmálum og á mánudaginn mun utanríkisráðherra fara til Brussel og skrifa undir hana.

Var niðurlægingin ekki orðin næg? Væri ekki skynsamlegt, þó ekki væri nema vegna sjálfsvirðingarinnar að fresta þeirri ferð?

Nei, það verður mætt til Brussel og kysst á vöndinn enn einu sinni og svo verður hvíslað: við klárum svo Bókunina rétt strax.

Bergþór Ólason, alþingismaður

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember, 2025.