
30. lokatilraunin til að bjarga heiminum
Í útjaðri Amazon frumskógarins hófst í gær 30.lokatilraunin til að bjarga heiminum.
Allar hafa þær mistekist á fyrri stigum, að mati æðstu presta loftslagskirkjunnar, en áfram skal haldið og hér erum við enn.
Það sem hefur þó breyst er að raunveruleikinn virðist vera að ná í skottið á þeim sem harðast hafa gengið fram, þó að enn sé gríðarlegur kostnaður lagður á skattborgara, sérstaklega hins vestræna heims, til að þýðast mestu kreddukenningar kirkjunnar. Loftslagskirkjunnar.
Leiðtogar Kína, Indlands og Bandaríkjanna hafa öðrum hnöppum að hneppa næstu vikurnar og munu því láta þessa samkundu fram hjá sér fara.
Þeir hugsa vafalaust að ljónin láti sig litlu varða hvað lömbin jarma.
En það er margt að breytast í umhverfi loftslagskirkjunnar, þar sem tekist hefur að búa til ótrúlegt flækjuverk sem gengur í raun út á að draga úr hagvexti þjóða.
Fyrir nokkrum árum var hægt að selja hvað sem er undir merkjum „lofslagsaðgerða“. Nú spyr almenningur sig: Hvers vegna eigum við að borga hærra bensínverð, enn hærri kolefnisskatta og nú síðasta sérstök gjöld á flugferðir.
Svörin eru því miður ekki merkileg. Ótrúlegir fjármunir hafa runnið í ótal „græn verkefni“, áætlanir, sjóði og stofnanir sem eiga að bjarga heiminum. En fátt verður um svör þegar krafist er svara um árangur af verkefnum.
Þetta eru eðlilegar vangaveltur almennings, enda er sama hvernig skattur er lagður á í þessum efnum. Allt kemur þetta á endanum úr vasa einstaklingsins, úr fjölskyldubókhaldinu.
Boðskapur loftslagskirkjunnar hefur ýtt undir gríðarlegt peningastreymi sem nærist á sektarkennd og stjórnmálalegri tískubylgju. Við því þarf að spyrna fótum og nálgast mál út frá skynsemi en ekki trúarkreddum.
António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur varla mátt opna munninn árum saman án þess að tala í efsta stigi og þá helst á þeim nótum að hefðbundnir heimsendaspámenn hljóma sem hófsemdamenn. Hann fer svosem að sigla sinn sjó kallinn og getur velt sínum sósíalísku vöngum í helgum steini.
En þó að gamli sósíalistinn frá Portúgal átti sig ekki á að keisarinn er á köflum klæðalaus, þá eru málsmetandi menn að kveikja á perunni. Nú síðast Bill Gates í grein sem hann birti undir lok október.
Við þurfum að nálgast þessi mál af meiri hófsemi – meiri stillingu – með meiri skynsemi og með það í forgrunni að gera gagn, þar sem þörf er á, í stað þess að gera bara eitthvað.
Allar líkur eru á að COP30 – verði jafn gagnleg og fyrri ráðstefnur – því ber þó að fanga að helmingi færri leggi á sig þetta ferðalag en á sömu ráðstefnu í fyrra – það má vonandi lesa eitthvað í það.
Bergþór Ólason, alþingismaður.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember, 2025.



