Fullveldi, verðmætasköpun og almenn skynsemi

Það var eitthvað hjartnæmt við landsþing Miðflokksins sem fram fór um síðustu helgi. Í salnum blöstu við andlit úr öllum landshlutum – fólk sem vinnur, býr og elskar þetta land sitt, ekki vegna þess að það sé fullkomið, heldur vegna þess að það er okkar.

Þetta var ekki þing stjórnmálaflokks sem situr með hendur í skauti og bíður eftir fyrirmælum frá embættismönnum eða erlendum stofnunum. Þetta var þing fólks sem veit að fullveldi Íslands er ekki formsatriði heldur lifandi ábyrgð og að sú ábyrgð krefst kjarks, vinnu og sjálfstrausts.

Áherslur þingsins voru skýrar: Verðmætasköpun, þjóðrækni og heilbrigð skynsemi. Það er sú blanda sem hefur byggt Ísland. Þjóð sem átti forðum fátt annað en dugnað, fisk og óbeislaða náttúru.

Þegar við færðum landhelgina út í 200 mílur árið 1975, þá var það ekki bara pólitísk ákvörðun – það var yfirlýsing um að við ætluðum ekki lengur að láta aðra taka afrakstur af okkar auðlindum. Það var barátta um sjálfsvirðingu, um rétt þjóðar til að stjórna sínum málum og skapa verðmæti á eigin forsendum.

Nú stendur ný kynslóð frammi fyrir svipaðri áskorun. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur boðar hækkun skatta og gjalda á sama tíma og vextir og verðbólga bíta fast.

Þeir sem skapa verðmætin – bændur, sjómenn, eigendur fyrirtækja, verktakar, launamenn – þessir hópar eiga að bera byrðarnar. Um leið og ráðist er að fjölskyldueiningunni, sem grundvallar samfélagið.  

Þeir sem treysta á aukin opinber útgjöld og stjórnleysi í ríkisfjármálum eiga að stjórna í heimi ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Það er röng forgangsröðun. Aukin skattheimta er ekki lausn. Aldrei hefur þjóð tekist að skattleggja sig út úr vandræðum. Skattheimtan er kostnaður á mannlífið sjálft – og þegar hún verður of þungur, hægir á hjartslætti efnahagslífsins, hjartslætti þjóðarinnar.

En sem væri það ekki nóg, þá vofir yfir annað ský: boð um að hefja aðlögunarviðræður að Evrópusambandinu. Viðreisn og Flokkur fólksins tala fyrir vegferðinni. Viðreisn af því að það er í eðli þeirra, Flokkur fólksins til að fá að vera í ríkisstjórn. Það er eins og fullveldi sé smáatriði sem megi víkja fyrir „samstarfi“. En við vitum betur. Aðlögun að ESB er ekki samstarf. Aðlögunin er yfirfærsla valds – frá Alþingi til Brussel. Frá fólki til kerfis. Frá sjálfstæði til undirgefni.

Það er því ekki tilviljun að Miðflokkurinn stendur vörð um verðmætasköpun og fullveldi Íslands. Við erum ekki andsnúin Evrópu – við erum fylgjandi Íslandi. Þjóð sem trúir á sjálfa sig þarf hvorki að biðjast afsökunar né leita leyfis.

Landsþing Miðflokksins um síðustu helgi var ekki bara fundur flokksmanna. Það var áminning um hvað við stöndum fyrir – og hvað við aldrei megum gefa eftir.

Bergþór Ólason, alþingismaður
Pistillinn birtist í Morgunbalðinu 16. október, 2025