Skattpíningu og árás á landsbyggðina

Það er farið að sjást svart á hvítu hvert leiðarljós ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur er: að skattleggja þjóðina inn í stöðnun.

Skattahækkanirnar og álögur á atvinnulífið bera vott um hugmyndafræði sem lítur á verðmætasköpun sem vandamál fremur en lausn.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur ákveðið að traðka á verðmætasköpun og atvinnufrelsi með því að hækka skatta, hækka gjöld og herða reglur – öfugt við það sem lofað var í aðdraganda kosninga og fyrstu vikurnar þar á eftir.

Það er eins og ráðherrar hafi ákveðið að beita öllum tækjum ríkisvaldsins til að kreista síðustu krónuna út úr fólki og fyrirtækjum – sérstaklega þeim sem byggja á vinnu og frumkvæði í stað stöðugra styrkja.

Hlutverk stjórnvalda liggur ekki í því að moka peningum úr vösum vinnandi fólks í sívaxandi ríkisbákn. Það liggur í því að tryggja að það borgi sig að vinna, skapa og byggja upp.

Þess í stað horfum við nú upp á ríkisstjórn sem lítur á landsbyggðina sem fjárhagslegt mjólkurbú. Þar á að ná inn tekjum, í gegnum auknar álögur á sjávarútveg, ferðaþjónustu, flutninga og heimilin.

Auðvitað sleppur höfuðborgarsvæðið ekki, en þær atvinnugreinar sem helst er lagt til atlögu við starfa að meginhluta til á landsbyggðinni.

Þar eru bændur, útgerðarmenn, ferðaþjónustuaðilar, verktakar og smærri fyrirtæki sem sjá á bak sínu þegar flutningsgjöld, eldsneytisgjöld og orkuskatta hækka.

Það er sláandi að sjá hvernig landsbyggðin er fórnarlamb í þessari pólitísku tilraun. Skattar á eldsneyti, flutninga og orku ganga hvað harðast að þeim sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Þeir sem halda landinu gangandi með vinnu sinni við fiskvinnslu, landbúnað, orkuvinnslu og verktöku bera nú byrðar sem enginn í ráðherrabíl virðist skilja. Þetta er ekki lengur spurning um hagstjórn – þetta er spurning um réttlæti.

Við sjáum líka hvernig árásin beinist að útflutningsgreinum okkar – stoðum efnahagslífsins. Þær eru nú taldar „of arðbærar“, eins og það sé synd að standa sig. Þeir sem skapa verðmæti fyrir þjóðina eru stimplaðir sem vandamál, á meðan þeir sem lifa á ríkissjóði fá klapp á bakið. Þetta er öfugsnúin hugsun sem leiðir okkur aðeins í eina átt: niður á við.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur snúið baki við þeim sem halda landinu gangandi. Ef við látum þetta ganga áfram verður landsbyggðin ekki bara skattpínd – hún verður yfirgefin.

Ísland þarf ekki hærri skatta, það þarf meiri trú á framtakssemi og fólkið okkar.

Bergþór Ólason, alþingismaður

Pistillinn birtist í morgunblaðinu 9. október, 2025.