Gúmmístjórnin

Gúmmísleggja Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra hefur ekki mikið gagn gert, frekar en aðrar stórkarlalegar yfirlýsingar sem settar voru fram í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Það átti sko að berja niður vexti og verðbólgu með sleggju. Okkur var bara ekki sagt að það yrði gagnslaus gúmmísleggja.

Nú eru ráðherrarnir voða hissa á að fjármálaáætlunin, sem var svo efnisrýr að þingmenn stjórnarandstöðu fundu ekki flot á að ræða hana, hvað þá meira, skuli ekki hafa sent þau skilaboð sem þörf er á til að verðbólguvæntingar lækki. Við hverju bjóst þetta ágæta fólk?

Þingmálaskráin var þannig vaxin að útgjaldadraumarnir virtust stjórnlausir. Kostnaðarmat hafði ekki einu sinni verið lagt á mörg málanna.

Allt var þetta á sömu bókina lært.

Svo voru það gúmmítékkarnir. Þar má nefna æfingar Flokks fólksins, sem fékk hina tvo stjórnarflokkana til að reyna að plata strandveiðimenn. Þeir fengju að veiða eins og krókarnir gætu dregið í sumar, en það sem væri umfram kvóta yrði dregið af þessum sama hópi næstu þrjú árin. Einn stór gúmmítékki.

Vegamálin virðist eiga að fjármagna með svipuðum hætti. Þegar fyrsta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er skoðuð blasir við að viðbót til vegamála, sem svo mikið hefur verið látið með, er þar hvergi að finna eftir að fyrsta ári áætlunarinnar sleppir. Á sama tíma er fjármálaráðherra hissa á að skilaboð stjórnvalda séu ekki að slá á verðbólguvæntingar og vaxtaþrýsting. Varnarmálin og aukin útgjöld til þeirra bætast svo við til að tryggja að fjármálaáætlunin sé fallin með látum og kjörtímabilið rétt að hefjast. Þessi gúmmítékka-fjármálaáætlun var í raun fallin áður en hún var samþykkt. Jafn undarlega og það kann að hljóma.

Með pompi og pragt var farið í mikla vinnu við að leita hagræðingarhugmynda hjá almenningi. Þrátt fyrir að hagræðingarhópurinn hefði verið beðinn um að stíga ekki inn á svæði sem gætu orðið flókin pólitískt, þá skilaði hópurinn af sér tillögum sem voru margar ágætar. Eftirfylgni og meðhöndlun ríkisstjórnarinnar gekk svo af þessari vinnu dauðri á dagsparti.

Er að undra að markaðsaðilar, fyrirtæki og heimili hafi ekki trú á „plani“ Kristrúnar Frostadóttur og ríkisstjórnar hennar? Það er alveg ljóst að Seðlabankinn hefur það ekki. Bregður raunar svo við að varaseðlabankastjóri segir bankann ekki hika við að hækka stýrivexti ef þörf verður á.

Hversu margir ætli hafi kosið Samfylkinguna á þeim forsendum að undir hennar forystu, forystu Kristrúnar Frostadóttur, yrði sko aldeilis tekið á í efnahagsmálum landsins?

Niðurstaðan er að til verksins er brúkuð gúmmísleggja og vandamálin leyst með gúmmítékkum. Það er ekki sjálfbær staða hjá gúmmístjórninni.

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. ágúst