
Fals og fagnaðarlæti
Það væri hægt að hafa krúttlegt gaman af myndböndum af sigurhátíð ríkisstjórnarinnar á Petersen-svítunni, þótt kjánahrollur fari vafalaust um marga, ef þetta væri ekki partur af stærri mynd sem nú er að dragast upp hvað skort á myndugleika forystufólks stjórnarinnar varðar.
Daginn sem 71. grein þingskapalaga var beitt í fyrsta skipti í tæpa sex áratugi urðu margir áhyggjufullir þegar fréttir bárust af því að fagnaðarlæti stjórnarliða hefðu ómað um þinghúsið. „High five“ virtist gefið á línuna; sungið, hrópað og dansað.
Fyrsti forsætisráðherrann í áratugi sem ekki náði að leiða fram þinglokasamninga virtist líta á þetta eins og sigur í kappleik.
Þetta háttalag, með öðru, ýtir svo enn undir þá kenningu að það hafi verið planið allan tímann að nota 71. greinina. Vafalaust með það í huga að kerfið verði þá „komið í æfingu“ hvað beitingu ákvæðisins varðar þegar þung mál tengd yfirvofandi aðlögunarviðræðum við ESB verða til afgreiðslu.
Frá þinglokum hafa blasað við okkur fjölbreytt sjálfshólsskilaboð frá stjórnarflokkunum á samfélagsmiðlum.
Undarlegust hafa sennilega verið þau sem Flokkur fólksins dreifir og segja efnislega að með samþykkt fjármálaáætlunar hafi verið tryggt að „lífeyrir fylgi launum“, eins og lagt var til í þingmáli félagsmálaráðherra.
Fyrst er það að segja að slík breyting er ekki leidd fram með línu í fjármálaáætlun, heldur frumvarpi, sem verður að lögum.
Frumvarp Ingu Sæland dagaði uppi eins og flest önnur mál ríkisstjórnarinnar þennan þingveturinn, enda varla við öðru að búast þegar forgangsröðun stjórnarliða er með þeim hætti sem raunin var. Málið var afgreitt út úr nefnd, til annarrar umræðu af þremur, daginn áður en áætlað var að þingi yrði frestað samkvæmt starfsáætlun.
En af því að formaður Flokks fólksins lítur svo á að mál séu kláruð með línu í fjármálaáætlun, þá verðum við líka að skoða hvað það er sem mikið er látið með en stendur ekki í fjármálaáætlun.
Þar má til dæmis nefna auknar fjárveitingar til vegaframkvæmda, þið munið þessar á grundvelli hækkaðra veiðigjalda, ekkert um þær síðustu fjögur árin af fimm. Þar er heldur ekki gert ráð fyrir framlagi til jöfnunar örorkubyrðar á milli lífeyrissjóða og skeikar þar allt að 10 milljörðum á ári. Ekki er heldur gert ráð fyrir auknum fjárútlátum til varnarmála í takt við það sem valkyrjurnar hafa kynnt. Svona mætti lengi telja.
En það er ágætt að formaður Flokks fólksins telji þetta mál komið í höfn. Það þarf þá ekki að verja tíma þingsins til endurflutnings í haust. Af nægu verður að taka, enda tugir mála sem verða væntanlega endurfluttir, eftir að valkyrjunum svelgdist á í frekjukasti sínu fyrir tíu dögum.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. júlí



