Bú­setu­frelsi og lög­heimilis­skráning

Það illa falið leyndarmál að margir kjósa að búa í húsum sem kallast ýmist heilsárshús, frístundahús eða einfaldlega sumarbústaðir. Þetta er af margvíslegum ástæðum td. vegna þess að fólk vill eiga kost á fjarvinnu, vill lifa hæglætislífi eða jafnvel eiga í hlut eldri borgarar sem vilja dvelja meira í húsi sem þeir hafa byggt og sinnt af natni í gegnum áratugina. Svo má ekki gleyma þeim sem telja sig hafa fundið lausn á himinháu húsnæðis- og leiguverði, efnaminna fólk.

Sveitarfélög hafa tekið misvel í þessa þróun mála. Fólkið sem býr í þessum húsum fær ekki lögheimilið sitt skráð þar og er því flokkað sem „óstaðsett í hús” eða er ranglega að skrá sig með lögheimili hjá vandamönnum, jafnvel í öðru sveitarfélagi.

Hægt væri að hugsa sér lausn á þessum vanda með því að hægt væri að skrá sig með A- og B-búsetu. A-búseta væri hefðbundin skráning eins og hún er í dag en B-búseta væri fyrir fólk í fyrrnefndum aðstæðum sem væri þó með skerta þjónustu frá sveitarfélaginu, sem það væri þá meðvitað um. Þetta yrði líklega takmarkaður hópur sem myndi nýta sér þennan kost.

Slíkt fyrirkomulag hefur í för með sér ákveðinn ávinning, meðal annars að hægt væri að staðsetja fólk réttilega bæði út frá stjórnsýslu ríkisins en einnig ef vá kemur upp. Þetta hefði einnig þann ávinning að ríki, sveitarfélög og aðrir hagaðilar gætu komið sér saman um hvers konar þjónustu B-búseta fengi þrátt fyrir þau gjöld sem þau væru að greiða fremur en að það fólk væri utan kerfisins. Slíkt gæti líka orðið til þess að aðstoða efnaminna fólk ef sveitarfélag vissi af þeim skráðum á svæðinu.

Miðflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar og góðar lausnir á húsnæðisvandanum. Markmiðið þar er að endurvekja hina hefðbundnu séreignastefnu þar sem þeir sem vilja geta eignast húsnæði en þeir sem vilja geti leigt. Það húsnæði væri hefðbundið íbúðarhúsnæði.

Þessi hugmynd að lausn er einungis hugsuð til þess að leysa þann vanda sem nú er fyrir hendi og lifir í einskonar limbói stjórnsýslunnar.

Höfundur er lögfræðingur og kúabóndi og skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.