Skynsemi nálægðarinnar

Afstaða íbúa Grafarvogs til skipulags hverfisins sem kynnt var á fjölmennum fundi Íbúasamtaka Grafarvogs nýlega kom mér ekki á óvart. Á fundinum kom fram mikil ónægja með einkum þrennt: Yfirgripsmikla þéttingu byggðar, ekki bara á þremur svokölluðum þéttingarreitum heldur á víð og dreif um hverfið, bílastæðaskort og samráðsleysi. Sundabrautin spilar inn í alla þessa þætti. Er nú svo komið að mörg hundruð Grafarvogsbúar sem mættir voru á fundinn sjá þann kost vænstan að kljúfa Grafarvog frá Reykjavík. Að gera Grafarvog að sjálfstæðu sveitarfélagi.

Hugmyndin um sjálfstæðan Grafarvog er í sjálfu sér ekki fráleit að mínu mati. Hún samræmist sjónarmiðum sem ég almennt aðhyllist um skynsemi nálægðarinnar fremur en miðstýringu. Þau eiga við á sveitarstjórnarstiginu eins og í alþjóðlegu samhengi. Þegar allt um þrýtur þarf krafa um sjálfstjórn ekki að koma á óvart.

Ég hef hins vegar bent Grafarvogsbúum á að þeir eru ekki einir um gremju í garð borgaryfirvalda. Við sem búum í vesturhluta borgarinnar höfum mátt þola sama samráðsleysið vegna yfirgengilegrar þéttingar á viðkvæmum stöðum elsta borgarhlutans.

Ég er fædd og uppalin í Reykjavík. Ég hef sterkar taugar til borgarinnar. Vil hag hennar sem vænstan og borgarlífið, hverfið og íbúana, fjölbreytt. Mér þætti miður að sjá borgina liðast í sundur. Þvert á móti vil ég sjá Reykjavík stækka. Ekki með þéttingu byggðar sem þegar hefur verið skipulögð heldur með nýjum byggðum og ekki síst með því að ljúka við byggð sem átti að vera þétt og fjölmenn. Úlfarsárdalurinn er dæmi um byggð sem bíður eftir fleiri íbúum og innviðum.

Áform um þétta byggð í Keldnalandi, sem myndi tvöfalda íbúafjölda Grafarvogs, eru óaðskiljanlegur hluti áforma borgaryfirvalda um borgarlínu. Ekki þó á þann veg að almenningssamgöngurnar séu hugsaðar til þess að þjónusta íbúa heldur er nýjum íbúum í þéttri byggð Keldnalandsins ætlað að þjónusta og réttlæta borgarlínu. Borgarlínuhugmynd stjórnvalda (borgastjórnar og ríkisstjórnar) er öðru fremur fasteignaþróunarverkefni. Þess má sjá stað hvarvetna í nýju skipulagi borgarinnar þar sem íbúðir eru reistar upp við akreinar fyrirhugaðra strætisvagnaleiða. Borgarlínuverkefnið ber sífellt meiri vott um þráhyggju og áætlanir um heildarkostnað hækka dag frá degi.

Ég er fyrrverandi þingmaður Reykjavíkur. Ég lagðist hart gegn svokölluðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins þegar hann var kynntur þingmönnum. Það blasti strax við að Reykvíkingar bæru skarðan hlut frá borði en nágrannasveitarfélögin gátu vel við unað. Forysta Sjálfstæðisflokksins veitti þessari þráhyggju borgaryfirvalda brautargengi. Lítil áform eru í áætluninni um raunverulegar umbætur í umferðamálum fyrir núverandi íbúa Reykjavíkur.

Samgöngumál í Reykjavík þarf að endurskoða frá grunni og alfarið óháð sáttmála nágrannasveitarfélaganna. Miðflokkurinn hefur skýra stefnu um brýnar úrbætur á hættulegustu gatnamótum borgarinnar. Um leið er brýnt hefja framkvæmdir við að fjölga umferðaræðum m.a. til og frá Grafarvogi án þess að hraðbraut kljúfi hverfið. 

Ég leiði nú lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og Snorri Másson í Reykjavíkurkjördæmi suður. Við vonumst til að fá tækifæri til þess að vinna að hag Reykvíkinga á Alþingi. Skeytingarleysi borgaryfirvalda um nauðsyn samgöngubóta verður ekki látið átölulaust.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu, Árbæjarblaðinu og Grafarholtsblaðinu, 11. tbl. 2024.