Áfram Ísland
Nú er bara vika í kosningar. Í því ljósi var heldur kómískt að fletta í gegnum heilan bækling Sjálfstæðisflokksins sem fylgdi með Morgunblaðinu í gær.
Honum var ætlað að kynna fólki hvað átti að gera öðruvísi núna en síðustu sjö ár af vinstristjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Öðruvísi en stjórnlaus útlendingamál og óvarin landamæri. Öðruvísi en fullkomin óráðsía í ríkisfjármálum. Öðruvísi en stækkandi bákn, fleiri opinberir starfsmenn, sligandi byrðar á almenna borgara, verkstol í orkumálum, frosinn húsnæðismarkaður og svo mætti lengi telja. En ókei, eitthvað öðruvísi sem sagt.
Umbúðirnar voru þarna, dýr hönnun og dýr bæklingur, en í efnistökum var slegið nokkuð kunnulegt stef – öll helstu áherslumál Miðflokksins voru mætt í bæklinginn – lausnir á vandamálum sem Sjálfstæðisflokkurinn skapaði síðustu sjö árin.
Við tökum þessu auðvitað vel og fögnum öllum stuðningsmönnum okkar og þeirra málefna sem við setjum á oddinn.
En á endanum snýst þetta allt um trúverðugleika.
Það er bara einn stjórnmálaflokkur sem gerir bara það sem hann segist ætla að gera og lætur úrtölur eins og vind um eyru þjóta. Það er bara einn flokkur sem lætur kné fylgja kviði – eins og þegar Sigmundur Davíð réðst til atlögu við kröfuhafana eftir hrun og tryggði íslenskri þjóð gríðarlega búbót á erfiðum tímum. Eða eins og þegar Sigmundur Davíð skilaði hallalausum fjárlögum í fyrstu atrennu og lækkaði skatta í sinni síðustu ríkisstjórn. Eða eins og þegar þingflokkur Miðflokksins stóð í veginum fyrir innleiðingum frá Evrópusambandinu sem samræmast ekki hagsmunum Íslands. Það er Miðflokkurinn.
Við erum ekki í þessu af því að við þurfum þægilega innivinnu. Við erum í þessu af því að við verðum að gera betur fyrir íslenskt samfélag. Við lifum í raunheimum og þekkjum aðstæður vinnandi fólks enda með breiðan hóp frambjóðenda af almennum markaði – fólk sem þekkir það að borga laun um mánaðamótin og að heilu fjölskyldurnar stóli á það. Fólk sem brennur af sannfæringu og lætur því ekki rétttrúnaðarvindinn velta sér um koll.
Komandi kosningar snúast um það hvert Ísland skuli stefna til framtíðar. Við höfum beðið of lengi og nú er kominn tími á aðgerðir sem virka. Ef við ráðum okkar málum sjálf eru engin takmörk fyrir því hvaða árangri við getum náð. Til þess þarf að láta af umbúðamennsku og einblína á innihaldið. Við náum niður verðbólgu og vöxtum hratt, með því að spara. Á sama tíma lækkum við skatta. Við endurreisum séreignarstefnuna á Íslandi – íslenska drauminn. Við eflum atvinnulífið og byggðir landsins. Við munum virkja og tryggja orku til uppbyggingar. Við tökum stjórn á landamærunum. Við stöndum vörð um íslensku þjóðina og eflum hana.
Framtíð Íslands ræðst 30. nóvember. Áfram Ísland.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is