Knús, covid-19 og kosningar
Á kjörtímabilinu 2017-2021 flæddi Covid-19 yfir heiminn og við Íslendingar urðum fyrir því eins og önnur lönd á jarðarkringlunni. Á Covid tímabilinu sat undirritaður á Alþingi Íslendinga þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna, ríkisstjórn hinnar breiðu skírskotanna afhenti ,,þríeykinu” stjórn landsins. Sú ákvörðun framlengdi líf ríkistjórnarinnar sem þá var á brauðfótum vegna ósættis og sundrungar þar á undan.
Sjálfum fannst mér þessi ákvörðun undarleg en skiljanleg að mörgu leyti, ekki síst, eftir á að hyggja vegna átandsins innan veggja ríkistjórnarinnar. Þessi ákvörðun kippti allri pólitík úr sambandi og færði þríeykinu völd landsins.
Við hlýddum, settum upp grímur og vinkuðum hvert öðru í yfir tveggja metra fjarlægð og hringdum í vini. Zoom og Teams fundir ruddu sér til rúms og að mörgu leyti sönnuðu gildi sitt. Börn, unglingar og eldri borgarar einangruðust og félagsleg vandamál af þeim sökum stökkbreyttust sem seint verður unnið úr. Með öðrum orðum; heimurinn og við sem byggjum líf okkar á móður jörð urðum fyrir breytingum sem tekur mörg ár að vinna úr.
Þurfum að rifja upp náungahærleikann og knúsast á ný!
Þessi sundraða ríkisstjórn sem týndi stýri þjóðarskútunnar strax í upphafi síns valdatíma og var allan sinn líftíma að rembast við að losa tógið úr skrúfunni, rak á land nú á haustmánuðum og stjórnendurnir í brúnni hlupu í land og tvístruðust í sitthvora áttina og taka enga ábyrgð á strandinu. Sá kalekur er nú á þjóðinni sem gengur til kosninga í lok nóvember.
Ég vil minna kjósendur á að vorið 2013 varð núverandi formaður Miðflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og stóð fyrir því að þjóðin var leidd upp úr holu eftirkasta efnahagshrunsins haustið 2008. Þar stendur upp úr stöðuleikasamningur við kröfuhafa föllnu bankana sem á núvirði er yfir ,,þúsund miljarðar“ sem runnu beint í ríkissjóð. Margt fleira mætti nefna.
Ég er nú kominn í framboð til Alþingis fyrir Miðflokkinn og enn og aftur í Norðvesturkjördæmi, þetta sinn í þriðja sæti. Í oddvitasætinu er Ingibjörg Davíðsdóttir sem er borin og barndæddur Borgfirðingur frá Arnbjargarlæk í Þverárhlíð. Í öðru sæti er Skagfirðingurinn Gunnar Bragi Sveinsson fyrrverandi þingamaður og ráðherra. Neðar á listanum er valinn maður í hverju rúmi, eins og sagt er.
Norðvesturkjördæmi er kjördæmi mikilla tækifæra. Tilhlökkunin að ferðast um kjördæmið og hitta kjósendur með mínum meðframbjóðendum er álíka mikil og hjá litlum dreng sem gat varla beðið eftir jólunum í ,,den tid“ á Helgugötu 8 í Borgarnesi.
Sigurður Páll Jónsson
Höf. er varaþingmaður og framjóðandi fyrir Miðflokkinn í Norðvestur kjördæmi.