Stjórnmálaályktun Flokksráðsfundar Miðflokksins 12. október, 2024

Aðstæður í samfélaginu kalla á að kosningum verði flýtt og að þær fari fram sem allra fyrst. Þjóðin getur ekki búið lengur við það stjórnleysi sem einkennir sitjandi ríkisstjórn og áframhaldandi bið eftir því að tekið verði á brýnum málum.

Ná þarf tökum á verðbólgu með skýrri stefnumörkun nýrrar ríkisstjórnar um aðhald í rekstri ríkisins svo hægt verði að ráðast í verulega lækkun vaxta.

Mikilvægt er að gera fólki auðvelt að eignast eigið húsnæði á viðráðanlegu verði. Í því skyni þarf að skapa aðstæður til vaxtalækkunar með festu og fyrirsjáanleika í stjórn efnahagsmála, einfalda regluverk og draga þannig úr byggingarkostnaði, færa endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði til fyrra horfs og tryggja á um að sveitarfélög bjóði upp á lóðir á hagkvæmu verði.  Áfram verði heimilt að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til kaupa á íbúð til eigin nota.  Ríkið þarf að ýta undir lóðaframboð og framkvæmdir fremur en að vera hindrun.

Umsvifalaust þarf að hefja vinnu við setningu nýrra útlendingalaga með það að markmiði að ná tökum á landamærunum og koma í veg fyrir að Ísland sé nýtt sem söluvara þeirra sem skipuleggja fólksflutninga. Markmiðið á að vera að við tökum eingöngu við flóttamönnum sem íslensk stjórnvöld bjóða til landsins. Örðugt er að bæta húsnæðismarkaðinn, heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða aðra grunnþætti samfélagsins án þess að ná stjórn á landamærunum.

Óhjákvæmilegt er að grípa til víðtækra aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi í samræmi við ráðleggingar Ríkislögreglustjóra.

Heilbrigðis- og menntakerfi landsins þarfnast gagngerrar endurskoðunar til að bæta þjónustu-gæði og árangur.

Hverfa skal frá rándýrum og óhagkvæmum verkefnum á borð við svo kallaða Borgarlínu en ráðast þess í stað í aðkallandi viðhald vegakerfisins og samgöngubætur um allt land.

Tilefni er til að ráðast í sérlög um tiltekna virkjanakosti í þjóðareigu svo auka megi framleiðslu hreinnar endurnýjanlegrar orku.

Aðkallandi er að endurskoða lífeyri frá TR til að tryggja eldri borgurum sanngjörn og sæmandi kjör og hverfa frá skerðingum.

Einfalda skal regluverk og draga úr framleiðsluletjandi gjöldum til að auðvelda rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja og ýta þannig undir sköpun verðmæta og starfa í einkageiranum.

Bæta þarf rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar í samræmi við stefnu Miðflokksins um eflingu matvælaframleiðslu.

Engan tíma má missa við að hrinda í framkvæmd áætlun Miðflokksins um „Ísland allt“ og verja þannig byggðir landsins til sjávar og sveita og tækifæri þeirra til verðmætasköpunar.

Flokksráð Miðflokksins fer fram á að aðförinni að Reykjavíkurflugvelli verði hrundið og ráðherrar ríkisstjórnarinnar láti þegar í stað af aðgerðum og ákvörðunum sem miða að því að þrengja að flugvellinum og rekstri hans.

Samþykkt á fundi flokksráðs Miðflokksins, sem haldinn var á Selfossi, 12. október 2024.