Þingsályktun Miðflokksins um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu

Útbýtingardagur: 31.10.2024
155. löggjafarþing 2024–2025.
Þingskjal 39  —  39. mál.

Tillaga til þingsályktunar um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason.

    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að hrinda eftirfarandi aðgerðum í framkvæmd í samstarfi við bændur:
     1.      Stuðningur við landbúnað verði stóraukinn og rekstrarafkoma matvælaframleiðenda styrkt. Fjárframlög til greinarinnar verði aukin og stefnt að lækkun rekstrarkostnaðar og betri lánskjörum.
     2.      Gerð verði landsáætlun um aukna sjálfbærni íslensks landbúnaðar, m.a. með tilliti til orkuskipta og áburðarnotkunar.
     3.      Hvatt verði til aukinnar lífrænnar framleiðslu, m.a. með þróunarstyrkjum.
     4.      Auknu fé verði varið til nýsköpunar og þróunar í hefðbundnum búgreinum og vinnslu með tilliti til þess að í mörgum tilvikum skili ávinningurinn sér ekki fyrr en að mörgum árum liðnum. Stutt verði við hringrásarhagkerfið í því samhengi og fullnýtingu afurða.
     5.      Gerð verði áætlun um hvernig stórefla megi nám tengt landbúnaði á öllum námsstigum.
     6.      Styrktir verði viðurkenndir aðilar sem vinna að markaðsmálum, nýsköpun og þróun.
     7.      Tollasamningi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 17. september 2015 við Evrópusambandið verði sagt upp nú þegar eða óskað endurskoðunar á honum, m.a. með tilliti til útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
     8.      Innflutningur á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum verði stöðvaður vegna sérstöðu landsins og mikilvægis matvæla- og fæðuöryggis.
     9.      Eftirlitskerfi matvælaframleiðslu verði einfaldað og kostnaði við eftirlitið létt af greininni.
     10.      Stutt verði við frekari þróun og aukna markaðshlutdeild innlendrar kjarnfóðurframleiðslu og kornræktar sem nýtir innlenda orkugjafa og skapar störf.
     11.      Gerð verði áætlun um frekari nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar til innlendrar matvælaframleiðslu á sambærilegum kjörum og stóriðjan nýtur. Það taki til allra stiga framleiðslunnar, m.a. ræktunar, húsdýrahalds, kjarnfóðurframleiðslu og vinnslu afurða í afurðastöðvum.
     12.      Veittir verði styrkir til rannsókna og framleiðslu á innlendu eldsneyti fyrir landbúnaðartæki, m.a. til að auka sjálfbærni.
     13.      Kostnaður við flutning allra aðfanga og afurða sem tengjast matvælaframleiðslukeðjunni verði að fullu jafnaður án þess að hann bitni á greininni og þar með verðlagningu framleiðslunnar.
     14.      Gerð verði áætlun um aukinn stuðning við innlenda kornrækt, kornþurrkun og nýtingu korns til fóðurframleiðslu og manneldis.
     15.      Gerð verði áætlun um uppbyggingu kornbirgða á a.m.k. tveimur stöðum á landinu svo að ætíð verði til staðar birgðir til fóðurframleiðslu í 8–12 mánuði (50.000–80.000 tonn).
     16.      Ráðist verði í rannsóknir á notkun innlendra náttúrulegra hráefna, svo sem þörunga og kalks, til áburðarframleiðslu.
     17.      Öllum úrvinnslufyrirtækjum landbúnaðarvara verði gert heimilt að hagræða með samvinnu og samruna umfram þær skorður sem samkeppnisyfirvöld setja.
     18.      Stutt verði við hrossarækt og hún efld til að nýta þau tækifæri sem þar liggja, m.a. til aukins útflutnings á lifandi hrossum.
     19.      Framtíð loðdýraræktar verði tryggð, t.d. með útflutningsábyrgðum, fóðurstyrkjum og sérstökum framkvæmdalánum.
     20.      Gerðir verði langtímasamningar við bændur þar sem tekið verði tillit til þjóðhagslegs mikilvægis atvinnugreinarinnar, starfskjara matvælaframleiðenda og framboðs á heilnæmum afurðum.
     21.      Skóg- og skjólbeltarækt verði stóraukin svo að nýta megi tækifærin sem liggja í skógrækt.
     22.      Afhendingaröryggi raforku verði tryggt svo að hætta á röskun í framleiðslu matvæla um land allt verði sem minnst.
     23.      Sett verði skýr lög um upprunamerkingar matvöru í þágu neytenda þar sem fram komi m.a. uppeldisland sláturdýra og framleiðsluland matvæla, innihaldslýsingar verði skýrari, þ.m.t. um notkun lyfja við framleiðsluna og um framleiðsluferli, þ.e. hversu oft varan hafi verið fryst og þídd við vinnslu hennar og hver sláturdagur hafi verið.
     24.      Tengsl landbúnaðar við ferðamennsku og íslensk matvæli verði rannsökuð, m.a. með tilliti til verðmæta sem íslensk matvælaframleiðsla skapar ferðaþjónustunni.

Greinargerð.
    Þingsályktunartillaga þessi er nú lögð fram í fimmta sinn en var síðast lögð fram á 154. löggjafarþingi ( 7. mál) og er nú endurflutt óbreytt.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að forsætisráðherra verði falið að hrinda í framkvæmd 24 aðgerðum á sviði landbúnaðar í samráði við bændur. Aðgerðirnar miða að því að styrkja rekstrarafkomu matvælaframleiðenda til að verja greinina og þau fjölþættu verðmæti sem í henni felast fyrir samfélagið. Í því skyni er m.a. þörf á auknum fjárframlögum og aðgerðum sem miða að lækkun rekstrarkostnaðar og betri lánskjörum. Styrkja þarf samkeppnishæfni innlends landbúnaðar gagnvart erlendri framleiðslu með frekari nýtingu innlendra orkuauðlinda og veita tilslakanir á samkeppnishömlum í landbúnaði til samræmis við tillögur þingmanna frá árinu 2017 þar sem þingmaður Miðflokksins var fyrsti flutningsmaður (116. mál á 147. löggjafarþingi). Hvatt verði til lífrænnar framleiðslu, landbúnaðartengt nám stóreflt og eftirlitskerfi matvælaframleiðslu einfaldað og þannig létt á kostnaði greinarinnar vegna þess. Stuðla þarf að auknu aðgengi neytenda að upplýsingum um framleiðsluferli matvæla og sérstöðu íslensks landbúnaðar í því sambandi og stöðva innflutning á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum. Vísindamenn hafa enda ítrekað bent á mikilvægi þess, m.a. með hliðsjón af fjölgun sýklalyfjaónæmra baktería.
    Matvælaframleiðsla þjóðarinnar er ein af grunnstoðum þess að við byggjum sjálfbært og sjálfstætt samfélag til framtíðar. Jafnframt er engum blöðum um það að fletta að víða liggja vannýtt tækifæri í landbúnaði á Íslandi. Þrátt fyrir það hefur íslenskur landbúnaður staðið höllum fæti um langa hríð og farið halloka í umræðu og forgangsröðun stjórnvalda. Þar sem sóknarfærin eru víða þarf að huga að allri virðiskeðju matvælaframleiðslunnar, allt frá frumframleiðslu bænda og innlendri kjarnfóðurframleiðslu til úrvinnslu matvæla á öllum stigum, alla leið á disk neytandans. Skapa þarf jákvætt starfsumhverfi frumkvöðla sem leita leiða til að fullnýta afurðir, minnka umhverfisspor og búa til verðmæti úr áður ónýttum afurðum. Ódýr hrein orka, hreint vatn og loft leika lykilhlutverk í framtíðarmatvælaframleiðslu á Íslandi.
    Landbúnaður er í eðli sínu atvinnugrein sem þarf skýrt starfsumhverfi, afkomuöryggi, langtímasýn og ákvarðanir sem teknar eru til langs tíma. Þegar hætt er að nýta land í búskap hefur það mikil langtímaáhrif og það er kostnaðarsamt að hefja nýtingu þess á ný. Tækifæri sem ekki eru nýtt tapast hratt ef menn grípa þau ekki. Mikil verðmæti liggja í innviðum til sveita, í byggingum, ræktun lands, bústofnum og verkþekkingu. Það væri þjóðarógæfa að láta slíkt fara forgörðum.
    Nauðsynlegt er að ríkið skilgreini markmið með stuðningi sínum við landbúnað og vinni síðan að þeim markmiðum á öllum vígstöðvum. Þetta þarf að gera með tilliti til mikilvægis matvæla- og fæðuöryggis þjóðarinnar, byggðasjónarmiða, samkeppnismála, skipulagsmála, mannauðs og fleiri þátta.
    Meðal markmiða tillögunnar er að stórefla innlenda matvælaframleiðslu, tryggja matvæla- og fæðuöryggi, veita neytendum umhverfisvæna, holla og næringarríka fæðu, treysta afkomu bænda, auka sjálfbærni og umhverfisvernd, varðveita þekkingu, efla rannsóknir og menntun í landbúnaði, auka skilning á mikilvægi landbúnaðarframleiðslu og vernda landgæði. Íslendingar vilja öfluga og innlenda matvælaframleiðslu sem þeir þekkja og geta treyst. Eftirspurn eftir matvælum úr nærumhverfinu hefur sjaldan verið meiri og eykst með aukinni vitneskju neytandans um kosti innlendrar framleiðslu.
    Um allt land má sjá merki þess að einstaklingar og fyrirtæki sjái tækifæri til að skapa verðmæti úr áður ónýttum afurðum og um leið störf. Góðar hugmyndir hafa orðið að veruleika með þrotlausri vinnu og má þar nefna fyrirtæki eins og Pure Natura sem framleiðir bætiefni úr frostþurrkuðum innmat úr lömbum og Heilsuprótein sem framleiðir hágæðaprótein úr mysu. Efla þarf virðiskeðju matvælaframleiðslunnar allt frá frumframleiðslu bænda og innlendri kjarnfóðurframleiðslu til úrvinnslu matvæla á öllum stigum, alla leið til neytandans. Þá hafa bændur sýnt áhuga á svokölluðum örsláturhúsum eða heimaslátrun og tengja það aukinni matarferðamennsku. Í því kunna að felast tækifæri og brýnt að hraða skoðun á því hvort þannig starfsemi samrýmist íslenskum lögum og alþjóðlegum skuldbindingum.
    Hefðbundnar greinar í landbúnaði hafa verið og eru í vörn. Staða innlendra framleiðenda gagnvart innfluttri vöru er erfið og snýr t.d. að tollamálum og samkeppnismálum, en líkt og aðrir innlendir framleiðendur á landbúnaðurinn mikið undir samstarfi og vilja verslunarinnar. Þetta á við um allar stærstu greinar landbúnaðarins; sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu, nauta- og svínakjötsframleiðslu og garðyrkju. Þrátt fyrir áskoranir eru sóknarfærin til staðar ef landbúnaðinum eru sköpuð skilyrði til að starfa og þróast. Til að nýsköpun og þróun fái þrifist innan greinarinnar þarf stöðugleika og framtíðarsýn.
    Eigi landbúnaðurinn að vera í stakk búinn til að laga sig að breytingum í tímans rás og geta nýtt tækifæri sem víða liggja er nauðsynlegt að stórefla rannsóknir, nýsköpun og frumkvöðlastarf. Þetta markmið er enn brýnna nú en fyrr þar sem hætta er á að frjósöm landbúnaðarsvæði í öðrum heimshlutum spillist að hluta vegna hlýnunar og aukins vatnsskorts.
    Á undanförnum árum hefur sjónum verið beint í auknum mæli að vinnslu próteina og annarra verðmætra efna úr grasi, repju, lúpínu og fleiri nytjajurtum. Ísland hentar vel til grasræktar og gætu legið miklir möguleikar í ónýttu ræktarlandi og samlegðaráhrifum með uppgræðslu eyðisanda. Styðja þarf við rannsóknir á þessu sviði.

Mikilvægi landbúnaðar.
    Mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu hefur verið flestum ljóst og enn frekar eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á þjóðinni. Ein fyrstu viðbrögðin við faraldrinum voru að kanna matarbirgðir landsins og skilgreina matvælaframleiðslu, flutning matvæla og flutningsfyrirtæki sem þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. 1
    Um allan heim stendur landbúnaður frammi fyrir ólíkum áskorunum. Þótt Íslendingar hafi að mestu sloppið við gróðurelda og flóð hafa harðir vetur og eldgos haft sín áhrif. Upp úr aldamótunum 1900 var stærsta eyðimörk Evrópu á Íslandi en með útsjónarsemi og dugnaði forystumanna í landgræðslu sem og bænda landsins hefur tekist að búa til einstakt umhverfi til matvælaframleiðslu þar sem hrein náttúra, nægt vatn og hreinir búfjárstofnar skipta miklu. Skógrækt hefur verið hluti af uppgræðslu landsins um árabil, bæði á vegum ríkisins og sjálfstæðra félaga auk einstaklinga. Með aukinni skógrækt verða til aukin verðmæti og Ísland leggur meira af mörkum til kolefnisbindingar. Verðmætin í skógrækt eru þó ekki eingöngu í formi kolefnisbindingar heldur verða til nytjaskógar, skjólbelti og frjórri jarðvegur og skógar laða að sér fólk til útiveru, sem hefur jákvæð áhrif á lýðheilsu, svo eitthvað sé nefnt. Sveitarfélög, bændur og aðrir landeigendur eru reiðubúnir til frekari skógræktar sem við öll njótum góðs af.
    Með fækkun bænda á heimsvísu, m.a. vegna breytinga á veðurfari og vegna þess að bændur bregða búi og flytja til borga og bæja í leit að betra lífi, eykst verksmiðjubúskapur og gæði víkja fyrir magni. Við það eykst sérstaða Íslands þar sem landbúnaður einkennist af fjölskyldubúum. Hér er framleiðslan heilnæm og hrein og vöxtur er í nýsköpun sem byggist á hringrásarhagkerfi með sjálfbærni og aukinni nýtingu þess sem til fellur við framleiðsluna. Í þessu liggja mikil en vanmetin verðmæti.
    Eigi landbúnaðurinn að geta séð landsmönnum fyrir hollri og næringarríkri fæðu þarf hann stöðugt starfsumhverfi. Eigi greinin að geta sótt fram og nýtt styrk sinn þarf hún stuðning og öryggi. Stjórnvöldum ber að tryggja hvort tveggja.

Þjóðar-, fæðu- og matvælaöryggi.
    Öll ríki leggja mikla áherslu á að vernda og styðja landbúnað sinn með einhverjum hætti enda eru matvæli grunnþörf þjóða, hluti þjóðaröryggis og ein af forsendum þess að geta talist sjálfstæð þjóð. Fæðuöryggi sem tryggir að ávallt sé til nægur matur fyrir allt samfélagið er raunar einn mikilvægasti hluti þjóðaröryggis. Hollusta og heilnæmi matarins, eða matvælaöryggið, þarf einnig að vera í lagi því að hvort tveggja skiptir miklu máli fyrir heilbrigði og lífsgæði fólks. Innflutning á matvælum sem gætu ógnað heilsu manna eða dýra eða mengað hreina íslenska búfjárstofna þarf að stöðva. Þau matvæli sem flutt eru inn mega ekki lúta lakari kröfum en matvæli framleidd á Íslandi.
    Landbúnaðarframleiðsla á Íslandi nýtur fjárhagsstuðnings en sá stuðningur hefur minnkað mjög mikið á undanförnum árum og umræða um hann er oft á miklum villigötum.
    Samkeppni íslenskrar landbúnaðarframleiðslu er ekki háð á jafnræðisgrunni. Aukinn innflutningur á matvælum sem framleidd eru við önnur skilyrði en á Íslandi skekkir mjög samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Nánast ógerningur er að keppa við vörur sem framleiddar eru í verksmiðjubúum þar sem stærðarhagkvæmni, stór markaður, aðgangur að hráefni o.fl. dregur úr kostnaði. Stór hluti þessara matvæla er auk þess framleiddur af fyrirtækjum sem greiða starfsmönnum sínum laun sem eru brot af því sem telst lágmarkslaun hér á landi. Í sumum tilfellum er því verið að styðja við framleiðslu sem grundvallast á þessum aðbúnaði fólks og dýra þegar erlend matvæli eru flutt til landsins.
    Við verksmiðjuframleiðslu eru dýrum víða gefin lyf til að verjast sjúkdómum eða til að flýta vexti þeirra, sem er bannað á Íslandi. Lyfjanotkun í landbúnaði er minnst í heiminum á Íslandi og í Noregi.
    Kórónuveirufaraldurinn hefur vakið spurningar um tengsl mikilla og alvarlegra veikinda við sýklalyfjaónæmi. Bent hefur verið á möguleg tengsl milli mikillar notkunar lyfja í matvælaframleiðslu, sem veldur ónæmi fyrir sýklalyfjum, og dauðsfalla vegna kórónuveirunnar. 2
    Öryggi hvers ríkis felst m.a. í því að geta brauðfætt þjóð sína og verið eins óháð öðrum og nokkur kostur er varðandi fæðu. Hluti af þjóðaröryggi Íslands er því að tryggja með sem bestum hætti að þjóðin geti verið sem mest sjálfbjarga um fæðu, þannig að fæðuöryggi sé tryggt. Öflugur landbúnaður er því augljóslega hluti þjóðaröryggis.

Landbúnaður og ferðaþjónusta.
    Ferðaþjónustan varð á skömmum tíma stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Í fyrstu fólst aðdráttarafl landsins einkum í áhuga ferðamanna á að skoða íslenska náttúru. Hringinn í kringum landið tóku bændur til við að þjónusta ferðamenn með gistingu, afþreyingu og mat. Býlin voru opnuð og geta nú ferðamenn gist, snætt og notið náttúrunnar hjá bændum um land allt. Fjölmargir ferðamenn koma til Íslands til að njóta góðra matvæla á veitingahúsum og upplifa sveitamenningu hringinn í kringum landið.
    Fyrir stærstu útflutningsgrein landsins eru verðmæti íslensks landbúnaðar og matarferðaþjónustunnar mikil. Í samantekt Ferðamálastofu frá árinu 2019 kemur fram að meðalútgjöld ferðamanns árið 2018 hafi verið um 209.000 kr., þar af um 23.700 kr. á matsölustöðum og 15.700 kr. í verslunum, þ.m.t. matvöruverslunum. 3

Matur er ekki dýr á Íslandi.
    Ein helsta rangfærsla í umræðu um matvæli hér á landi er sú að íslensk matvæli séu dýr í samanburði við nágrannalöndin. Ef gerður er réttur og sanngjarn samanburður (með tilliti til launa, aðbúnaðar dýra, gæða, hollustu, lyfjanotkunar o.fl.) á framleiðslu íslenskra matvæla má hæglega komast að þeirri niðurstöðu að verð þeirra sé ekki ósanngjarnt, heldur þvert á móti. Hér er, eins og áður sagði, ekki stundaður verksmiðjubúskapur, hér eru ekki notuð lyf og hormón til að flýta vexti og hér þarf að hafa húsdýr inni stóran hluta árs svo dæmi séu tekin.
    Þegar við berum okkur saman við önnur lönd þarf að setja verð matvæla í samhengi við verðlag þeirra landa. Í samanburði við nágrannalöndin er verðlag hér hátt og því kostar maturinn fleiri krónur en t.d. á Spáni, en hér eru laun líka mun hærri. Þegar skoðað er hversu miklu varið er í matvælakaup hér á landi miðað við önnur útgjöld reynist hlutfall ráðstöfunartekna sem fer í matvælakaup lágt í samanburði við önnur lönd. 4

Hvers vegna á íslenskur landbúnaður og matvælaframleiðsla í vök að verjast?
    Mikill munur á verðlagi milli landa hefur í för með sér að ómögulegt er fyrir innlenda framleiðendur að keppa við framleiðslu frá láglaunalöndum ef innflutningurinn er óheftur og ekki tollaður til að stilla af þetta misræmi. Auk þess leggur Evrópusambandið tolla á þær landbúnaðarvörur sem eru fluttar héðan til Evrópu þrátt fyrir að framleiðslan sé kostnaðarsamari en í mörgum ríkjum innan ESB. Það er grafalvarlegt mál, ef rétt reynist, að tollskýrslur séu viljandi ranglega útfylltar til að losna við að greiða tolla. Með því er unnið beint gegn íslenskum hagsmunum, svo sem landbúnaðinum og ríkissjóði.
    Fyrirtæki á sviði heildsölu og stórverslanir hafa ítrekað reynt að draga upp þá mynd að markmið þeirra með baráttu fyrir auknum innflutningi matvæla, á þeirra forsendum, sé fyrst og fremst að geta selt neytendum ódýrari matvæli. Raunveruleikinn er hins vegar sá að markmiðið er fyrst og fremst að auka eigin arð þótt þjóðarhagsmunir séu aðrir. Það sýna m.a. innlendar og erlendar rannsóknir á álagningu matvæla þar sem aukið hlutfall innfluttra matvæla hefur leitt til aukinnar álagningar. Á sama tíma fá innlendir framleiðendur minna fyrir vörur sínar og þjóðhagsleg óhagkvæmni eykst.
    Þjóðarhagsmunir liggja í því að hér á landi sé öflug matvælaframleiðsla sem tryggi þjóðinni næg matvæli og geri Íslendingum einnig fært að sækja fram með útflutningi á þeim sviðum matvælaframleiðslu þar sem skortur er á gæðavörum sem uppfylla íslensk framleiðsluskilyrði.

Stuðningur við landbúnað.
    Stuðningur við landbúnað er ríflega 22 milljarðar kr. í heild samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2023. Þar af er stærsta greinin, nautgriparækt, með stuðning upp á rúmlega 9 milljarða kr. Í heildarstuðningi við landbúnað er rekstur Matvælastofnunar talinn með en hann nemur 1,3 milljörðum kr.
    Þá er ótalinn kostnaður allrar matvælakeðjunnar af eftirlitsgjöldum sem greidd eru af greininni. Því er ljóst að stuðningur við landbúnað nemur aðeins broti af því sem greinin leggur til samfélagsins með framleiðslu öruggra gæðamatvæla, gjaldeyrissparnaði upp á tugi milljarða króna á ári og með þeim verðmætum sem greinin skapar með því að viðhalda byggð hringinn í kringum landið.
    Eins og bent var á hér að framan hefur stuðningur minnkað jafnt og þétt undanfarin ár á sama tíma og mikilvægi landbúnaðar hefur orðið augljósara. Undirstöðuatvinnugrein Íslendinga frá landnámi berst nú fyrir tilveru sinni. Sú staðreynd ætti að valda öllum landsmönnum áhyggjum og kalla á afgerandi viðbrögð stjórnvalda.
    Flutningsmenn tillögunnar telja augljóst hve mikilvægur landbúnaður er fyrir þjóðarhag og þjóðaröryggi og því er þessari tillögu beint til forsætisráðherra sem forystumanns ríkisstjórnarinnar og formanns þjóðaröryggisráðs.


1 www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/03/31/Thjodhagslega-mikilvaeg-fyrirtaeki-se m-starfa-samkvaemt-undanthagu-fra-samkomubanni/
2 www.ruv.is/frettir/erlent/2020-04-16-lyfjatholnar-bakteriur-gaetu-att-thatt-i-haerri-danartidni
3 www.ferdamalastofa.is/static/files/konnun2018/konnun-18-2.pdf
4 www.bbl.is/frettir/ekki-oll-sagan-sogd-i-verdkonnun-asi

Tekið frá: https://www.althingi.is/altext/155/s/0039.html?utm_source=althingi&utm_medium=vefur&utm_campaign=thingskjol_10